Að gefnu tilefni, vegna nýlegrar niðurstöðu Ríkisendurskoðunar um eftirlit MAST, vill Landvernd árétta að til þess að eftirlit virki, þarf að ríkja traust um það. Eftirlitsstofnanir verða að vera vel fjármagnaðar og hafnar yfir vafa um hagsmunatengsl. Þær þurfa líka að geta brugðist hratt við og fylgt málum markvisst eftir.
Landvernd telur að í reglugerð þurfi að koma skýrt fram að rekstrarleyfishafi beri allan kostnað af eftirliti, uppsetningu búnaðar, talningu og skýrslugerð.
Sömuleiðis er mikilvægt að Matvælastofnun geti beitt sektum ef rekstrarleyfishafar uppfylla ekki skyldur sínar.
Nánari reglur um neðansjávareftirlit, lúsatalningu og skýrslugerð rekstrarleyfishafa eru einnig nauðsynlegt framfaraskref að mati Landverndar.
Lúsatalning úr öllum kvíum þarf að vera fortakslaus regla og Landvernd treystir á að fyrirkomulag talningar eins og það er kynnt í drögum að reglugerð dugi
til að halda laxalús í algjöru lágmarki, en lúsafaraldur í sjókvíaeldi má aldrei viðgangast.