Stofnanirnar hafa gegnt mikilvægu hlutverki og Landvernd fagnar sameiningu þeirra, enda til bóta að efla slíkar stofnanir á tímum loftslagsbreytinga, mengunar og hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni.
Almennt eru náttúruvísindi undirfjármögnuð og er víða bent á að vanti gögn. Sameiningin má ekki hafa það í för með sér að draga úr því vísindastarfi sem er til staðar heldur á hún að styrkja það og efla.
Þá er sérlega mikilvægt að eftirlitshlutverk og rannsóknarhlutverk stofnananna verði ekki rýrt heldur að starf þeirra eflist og dafni. Einnig er mikilvægt að þær heimildir og hlutverk sem stofnanirnar hafa haft í verndun íslenskrar náttúru vegi jafn þungt og fyrr.