Landvernd styður bættar almenningssamgöngur og fjölbreyttan ferðamáta, sem fjallað er um í nýrri samgönguáætlun fyrir árin 2024 – 2040. Bent er á að byggja þarf upp innviði fyrir aðra ferðamáta en einkabílinn.
Landvernd fagnar sérstaklega eftirfarandi markmiðum samgönguáætlunar:
- Dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum
- Samgöngumannvirki verði aðlöguð að loftslagsbreytingum
- Dregið verði úr loft- og hljóðmengun frá samgöngum
- Almenningssamgöngur verði efldar um land allt
- Stuðlað verði að fjölbreyttum ferðamáta
Hálendi Íslands
Fjallað er um vegi á hálendi Íslands í samgönguáætlun. Landvernd geldur varhug við því að rætt sé um byggja upp vegi á miðhálendinu og vísar til umsagnar sinnar um hvítbók í skipulagsmálum þar sem lýst er óánægju með að sérstaklega sé tekið fram að þróa skuli stefnu um að byggja upp vegakerfi á miðhálendinu m.t.t. bætts aðgengis og orkuskipta.
Sérstaða hálendisins fellst einmitt í því hve torfært það er. Á meðan ekki hefur verið settur verndarrammi utan um hálendið er torfæra veganna eina vörn svæðisins gegn óhóflegum ágangi ferðamanna og dugar það ekki til á mörgum svæðum nú þegar.
Stefna Landverndar er sú að farsælast væri að setja á fót hálendisþjóðgarð með virkri stjórnunar og verndaráætlun sem myndi tryggja vöktun og þjónustu á svæðinu. Uppbygging vega á hálendinu samræmist ekki þeirri stefnu og leggst Landvernd því gegn því að farið verði í slíka vinnu án skýrari verndarmarkmiða.