Samkeppnisstofnun auglýsir: Samkeppni um ljótustu náttúru landsins

Herðubreið. Ljósmynd: Andrés Skúlason
Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur óttast að Íslendingar séu að gera sömu mistökin eina ferðina enn: Að taka opnum örmum erlendum risafyrirtækjum sem axla hér enga umhverfisábyrgð, láta sig íslenska náttúru engu varða - og fara með gróðann úr landi.

Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur skrifar

„Það er óskiljanlegt þetta tal um að það sé eftirsjá að þessu landi, það er gróðurlaust, uppblásið, einskis nýtt og bara ljótt.“

Það er ekki sársaukalaust að rifja upp þessi orð Valgerðar Sverrisdóttur fyrrverandi iðnaðarráðherra sem hún lét falla um landið sem var eyðilagt við byggingu Kárahnjúkavirkjunar, einstakt vistkerfi frá jökli til sjávar, náttúra sem á engan sinn líka í heiminum, verðmætasta auðlind okkar. Undir þessi orð tók Siv Friðleifsdóttir þáverandi umhverfisráðherra þegar hún snéri við úrskurði eigin stofnunar og gaf grænt ljós á að fimmtíu ferkílómetrar af landi færu undir vatn. Ef ég man rétt gantaðist hún með möguleika á skemmtisiglingum á hjólabátum á uppistöðulóninu. Meðal þess sem var fórnað eru stórkostleg gljúfur sem ættu heima á heimsminjaskrá Unesco og fjöldi fossa á pari við fegurstu fossa landsins, líkt og Kirkjufoss, sannkölluð náttúruundur sem ég er ekki í vafa um að væru í dag meðal mest „instagrömmuðu“ staða landsins ef þeir hefðu ekki verið eyðilagðir.

Það er erfitt að útskýra skemmdarverk á íslenskri náttúru á svo stórum skala fyrir ungum Íslendingi í dag, frænku minni sem er fædd árið 2006, sama ár og vatni
var hleypt á lónið, líkt og ég lenti í á dögunum. Það er erfitt að segja eins og er að þetta hafi verið gert til að útvega einu erlendu stórfyrirtæki raforku, svo það gæti
reist sér álbræðslu í lognkyrrum firði á Austfjörðum. Hvernig orðar maður svo mikla þjónslund, að svo miklum verðmætum hafi verið fórnað fyrir gróðavon eins fyrirtækis? Gegn vilja meirihluta þjóðar, fólks í öllum stjórnmálaflokkum, eins og síðar kom á daginn.

Næsta spurning sem ég fékk frá þessari ungu manneskju sem erfa á landið og ætlar sér að verða annað hvort leikskólakennari eða eldfjallafræðingur, var
af hverju var þessu ekki mótmælt, af hverju var þetta ekki stoppað?

Ja, hvað skal segja? Að upplýsingum hafi markvisst verið haldið frá þjóðinni, þær falsaðar og afskræmdar, að vísindamenn við Háskóla Íslands hafi verið tortryggðir
og ofsóttir, rannsóknir hunsaðar, öll vitræn umræða þögguð niður og stungið undir stól, rithöfundar og listamenn urðu persona non grata, náttúrverndarsinni
neikvætt skammaryrði og látið líta svo út að um væri að ræða nokkra sérlundaða einstaklinga og örfáa „atvinnumótmælendur“ sem hlekkjuðu sig við vinnuvélar.

Vandamálið var að þetta stóra landsvæði var enn fyrir tuttugu árum að mestu utan seilingar ferðafólks, bæði innlendra og erlendra, það var terra incognita eða óþekkt land með sínum földu fjársjóðum, ekki ósvipað og Landmannalaugar voru 50 árum fyrr. Til að mynda virtust þeir þingmenn sem samþykktu lög um
Kárahnjúkavirkjun árið 2002 ekki þekkja svæðið nema af afspurn.

Það sem skiptir þó líklega mestu máli er að farin var íslenska leiðin sem felst í því að keyra framkvæmd í gegn á mettíma og ræða hana eftir á.

Eins og menn vita í dag hefur allt gengið eftir sem vísindamenn vöruðu við, þeirra svörtustu spár, þegar tvær helstu jökulár Austfjarða (það dugði ekki minna) voru virkjaðar, farvegi þeirra breytt, stífla byggð og vatni hleypt á lón svo ekki fóru einungis fimmtíu ferkílómetrar af landi undir vatn heldur er lífríki Lagarfljóts þangað sem afrennslinu er beint, svo til dautt og vistkerfið því stórskaddað á hundrað ferkílómetrum til viðbótar.

Í ljósi þessarar reynslu, að framkvæma áður en þjóðin áttar sig, verður maður dálítið skelkaður þegar maður heyrir hversu langt áform um vindorkuvirkjanir hringinn í kringum landið eru komnar, flestar á vegum erlendra orkufyrirtækja og margar þeirra risastórar. Ég sé ekki betur en ný Kárahnjúkavirkjun sé í  uppsiglingu og óttast að við séum að gera sömu mistökin eina ferðina enn, að taka opnum örmum erlendum risafyrirtækjum sem axla hér enga umhverfisábyrgð, láta sig íslenska náttúru engu varða og fara með gróðann úr landi.

Íslensk fagurfræði

Þegar búið var að slá upp málmgrindinni að álbræðslu Alcoa á Reyðarfirði brá iðnaðarráðherra sér austur á land í vettvangsheimsókn. Og frammi fyrir hálfbyggðum óskapnaðinum, stálgrindarferlíki, sem í dag, fullbyggt, er yfirþyrmandi í stærð sinni og ljótleika, tjáði ráðherra sig enn um tilfinningar sínar:

„Ég er hrærð, þetta er svo stórkostlegt og fallegt.“ 

Ástæða þess að ég rifja hér upp fegurðarskyn fyrrverandi ráðherra er að í umræðu um fyrirhugaðar vindorkuvirkjanir heyrast enn á ný þau rök að það þurfi bara að finna íslenska náttúru sem sé nógu ljót, þar sem „ekkert er“ og því nógu „einskis nýt“ en þó nógu nálægt flutningskerfi raforku! Ef marka má áhuga sveitastjórna og landeigenda víðs vegar um land, þá er um þessar mundir offramboð á ljótri náttúru.

Þverskorinn, soðinn lax

Ég heyrði fyrst af fyrirhuguðu norsku risasjóeldi í þröngum íslenskum fjörðum í matarboði hjá norskum útgefanda mínum í Osló fyrir fimm eða sex árum. Tónninn var: hvort við ætluðum virkilega að taka við þessum risafyrirtækjum á Íslandi sem væru að flýja fyrirhugaðan hátekjuskatt í Noregi og strangari kröfur til mengunarvarna? Ég kom af fjöllum. Hafði ekki heyrt neitt. Ég hafði og hef hvorki þekkingu á fiskeldi né er laxveiðikona (ég var reyndar í sveit á sumrin við bakka laxveiðiár þar sem ég fékk þverskorinn, soðinn lax í öll mál og borða ekki lax í  dag). Norðmenn virtust hins vegar vel upplýstir og létu eins og það væri altalað að Íslendingar væru ginkeyptir fyrir því sem þeir vildu ekki sjálfir. Við vitum öll í dag eftir skýrslu ríkisendurskoðunar hvernig fór um sjóferð þá. Stjórnsýslan og eftirlitsstofnanir brugðust og skaðinn á vistkerfi og íslenskri náttúru er óbætanlegur. Norsk risasjóeldissamsteypa fékk að gera hér það sem hún komst ekki upp með heima, meðal annars að nota frjóan eldislax af því að það skapar meiri og skjótari gróða heldur en að nota geldan lax. Afleiðingin er sú að séríslenski laxastofninn er ónýtur og laxveiðimenn munu héðan í frá veiða „hálf-norskan“ eldislax. Fyrirtækin starfa áfram og fara með gróðann úr landi. Þegar þetta er skrifað eru norsk risaeldisfyrirtæki komin með fjórtán leyfi til sjóeldis í íslenskum fjörðum.

Hundrað strengja harpa fyrir hreindýr

Þeir sem komist hafa í tæri við vindorkuvirkjanir erlendis vita að þær eiga lítið skylt við málverk Van Gogh af hollenskum vindmyllum, bændum í tréskóm og konum með sérkennileg höfuðföt, heldur er um að ræða risavaxin mannvirki sem fara sístækkandi. Hæstu möstur ná 180 metra hæð en í hæstu stöðu  spaðablaðs getur hæðin orðið 250 metrar.

Í samanburði þá er Hallgrímskirkja lítið krútt, eða 74,5 metrar á hæð svo notaður sé kunnuglegur skali. Algeng lengd spaðanna er 50 metrar sem er sundlaugarlengdin í Laugardal (eða ef menn vilja heldur, tvöföld lengd sundlaugarinnar á Egilsstöðum). Hér er ég að tala um eina „vindmyllu“ ekki 100 vindmylla virkjun eins og erlendur orkurisi hyggst reisa á Fljótdalshéraði og yrði þá næst stærsta virkjun landsins. Þar verður þó ekki flutt tónverkið Hundrað strengja harpa fyrir hreindýr því vindorkuverum fylgja stöðugar drunur, spöðunum hvinur og í of miklu návígi óbærilegur loftþrýstingur.

Fjölmargar erlendar rannsóknir sýna heilsufarsleg vandamál þeirra sem búa  nálægt vindraforkuverum og lýsa sér í höfuðverk, svefnleysi, stöðugu suði fyrir eyrum (tinnitus), vandamálum með að einbeita sér, minnistruflunum,  jafnvægistruflunum, heilaþoku og ógleði. Þá er ótalinn fugladauði og áhrif á dýralíf og vistkerfi.

Grænt

„Allt sem fram kemur í þessari seríu er alveg eins og það er í Noregi í vindmyllubransanum. Einhverjir spaðar eins og þessir gaurar, hafa séð sér leik á borði, eru búnir að reisa vindmyllur og selja orkuna, til dæmis til Google, og taka arðinn beint til Cayman eyjanna. Ekkert skilar sér í sveitafélagið annað en klapp á bakið frá sveitastjóranum sem segir „við erum í grænni orku, sjáiði vindmyllurnar sem við erum með.“

– Gísli Örn Garðarson, leikari og leikstjóri um norsku sjónvarpsseríuna EXIT eða Útrás, en hann leikstýrði þar tveimur þáttum.

Nú veit ég ekki hvaða gylliboð erlend risaorkufyrirtæki með íslenska umboðsmenn hafa boðið sveitastjórnum og landeigendum fyrir land undir vindorkuvirkjanir, enda hafa þau ekki verið gerð opinber. Varla er það þó atvinnusköpun í heimabyggð, í landi þar sem ekkert atvinnuleysi er og hlutfall aðflutts vinnuafls með því hæsta í heiminum. Í því sambandi má minna á að norsku risafiskeldi er stýrt með „annarri hendi úr tölvu í Noregi“ eins og einhver komst að orði. Að vísu er endingartími vindmylla jafn stuttur, eða jafnvel enn styttri en algengra heimilistækja svo sem ísskáps og uppþvottavélar og bilanatíðni há, svo verði af virkjunum mun innan tíðar vanta þúsundir tæknimanna til að gera við þær. Hver vindmylla er gerð til að endast að jafnaði í 20 ár en reyndin er nær 14 árum á norðurslóðum. Skipta þarf um skrúfu og blöð á 10 ára fresti en blöðin eru úr trefjagleri sem ekki er hægt að endurvinna nema að mjög litlu leyti og þau dreifa miklu magni af örplasti út í umhverfið. Þá virðist talsvert vera um að kvikni í vindmyllum. Mörgum er í fersku minni þegar kalla þurfti til heila sprengjusveit til að fella möstur tveggja nýlegra vindmylla í Þykkvabæ sem kviknað hafði í. Hvort þau störf sem fylgja viðhaldi vindmylla muni laða ungt fólk aftur í heimabyggð að loknu námi er hins vegar óljóst.

Í túrbínur vindmylla er notaður segulmálmur sem heitir neodymium og við framleiðslu hans losnar umtalsvert magn af geislavirkum úrgangi. Förgun  vindmylla sem hver um sig er mörg hundruð tonn, virðist vera sérlega flókin og  óumhverfisvæn og því hafa þær einfaldlega verið urðaðar eða úrgangurinn sendur til annarra heimsálfa. Ég á bágt með að ímynda mér að það samræmist stefnu Íslands í umhverfismálum.

Þá standa eftir „grænu rökin“ um að vindorkuvirkjanir séu forsenda orkuskipta og að sveitastjórnir sem kosnar eru til fjögurra ára, séu tilbúnar til að fórna sínu
nærumhverfi í þágu almannahagsmuna eða eitthvað í þá veru. Þau rök halda hins vegar ekki vatni í landi þar sem enginn orkuskortur er og framleiðir mest rafmagn
á hvern íbúa í öllum heiminum.

Það er vissulega mikil heppni í lottói um lífsgæði að eiga svo mikla raforku til ráðstöfunar. Hins vegar hlýtur að þurfa að ræða það fyrr en síðar hvernig þeirri dýrmætu auðlind er úthlutað sem til er, þannig að hún skili sem mestum arði fyrir okkar litla örsamfélag, í sátt við vistkerfið og með sem minnstum fórnarkostnaði fyrir íslenska náttúru, hvort eigi til að mynda að halda áfram að selja raforku á útsölu til mengandi erlendrar stóriðju? Í þessum skrifuðum orðum eru þúsundir fyrirtækja um allan heim að leita að landi þar sem saman fer þetta tvennt: ódýr raforka og veikar reglugerðir um mengunarvarnir. Þegar við bætast eftirlitsstofnanir sem eru illa áttaðar og virðast ítrekað standa á gati þegar kemur að viðurlögum við brotum þá er komin uppskrift að fyrirheitna landinu.

A, B, C og D

Víkjum þá aftur að samkeppni um ljótustu náttúru landsins fyrir fyrirhugaðar vindmylluvirkjanir. Til hægðarauka mun Skipulagsstofnun semja reglugerð þar  sem ljótasta náttúra landsins verður skilgreind og henni skipt í fjóra flokka, A (besti virkjanakosturinn), B, C og D.

A flokkur er flokkur þeirra sem hafa svipað fegurðarskyn og fyrrverandi iðnaðarráðherra og þar verða því ósnortin víðerni undir og líka náttúra þar sem
of mikið er af hrauni og of mikill mosi. Í B flokki er náttúra sem „ekki hefur hátt verndargildi“ þótt hún kunni að vera pínkulítið falleg í augum þeirra sem tengjast henni tilfinningaböndum af því að amma þeirra eða afi eru ættuð úr sveitinni. Í C flokki verða jarðir skyldmenna ráðherra og land sem erlendir auðkýfingar og risaorkufyrirtæki hafa keypt með aðstoð íslenskra umboðsmanna í þeim tilgangi að reisa þar vindorkuver. Í D flokki verða Dalirnir, heimkynni arnarins og mikilvæg fuglasvæði við Breiðafjörðinn (Ég hef sérstakan flokk fyrir Dalina af því að ég hef nokkrum sinnum verið spurð um uppáhaldsstað minn á Íslandi á ferðum mínum erlendis og nefnt Dalina, og þá ekki eingöngu vegna Laxdælu).

Og hefst nú uppboðið.

 

Greinin birtist fyrst í Ársriti Landverndar 2023.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd