Þann 9. des. sl. tóku fulltrúar Landverndar á móti Sjálboðaliðasamtökum um náttúruvernd (SJÁ) sem starfað hafa af miklum metnaði frá árinu 1986.
Landvernd og SJÁ hafa gert með sér samkomulag
Landvernd og SJÁ hafa nú gert með sér samkomulag um að Landvernd taki yfir mikilvægan hluta af starfsemi SJÁ meðal annars með því að annast allt skrifstofuhald og fjármál – auk þess sem að Landvernd verður með sérstakan tengilið á skrifstofu sinni vegna SJÁ til að styðja við samtökin og þau viðfangsefni sem áhugi er að vinna að á hverjum tíma.
Vinnum áfram að markmiðum SJÁ
Landvernd fagnar sannarlega þessari sameiningu og væntir góðs af áframhaldandi samstarfi við Sjálfboðaliðasamtökin enda eru meginmarkmiðin áfram þau sömu og því viljum við nota tækifærið og hvetja alla áhugasama um verkefni sjálfboðaliðasamtakana til að ganga til liðs við Landvernd og vinna þannig áfram að metnaðarfullum verkefnum og markmiðum sem SJÁ settu sér við stofnun samtakana.
Markmið SJÁ
a) að veita sjálfboðaliðum tækifæri til að vinna að náttúruvernd
b) að gefa þeim kost á að starfa með öðrum með sama áhugamál
c) að efla vitund fólks um gildi náttúruverndar
d) að auðvelda fólki umgengni við náttúruna og auka kynni af henni
e) að starfa í anda gildandi náttúruverndarlaga
Meðfylgjandi eru myndir af þessum ánægjulegu tímamótum þann 9. desember 2021 á skrifstofu Landverndar að Guðrúnartúni 8 þar sem fulltrúi Landverndar tók á móti stjórn SJÁ ásamt tilheyrandi gögnum um flest allt það sem þessi mikilvægu samtök hafa unnið að allt frá stofnun.
SJÁ hefur unnið ómetanlegt starf fyrir bæði náttúru- og samfélag vítt og breitt um landið allt frá stofnun og svo væntum við að verði áfram.
SJÁ hefur staðið vaktina í 35 ár
Kynnið ykkur vettvang og starfsemi SJÁ sem Landvernd vill leggja sitt af mörkum að vinna með og styðja við. Sjá Sögu SJÁ – sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd í 35 ár.
Vertu með!
Hér með eru áhugasamir sem vilja koma að starfinu með einum eða öðrum hætti hvattir til að hafa samband við tengilið SJÁ innan Landverndar andres(hjá)landvernd.is