Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd. Saga SJÁ, 1986 – 2021

Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd 35 ára. Logo og mynd af svartri og hvítri fjöður.
Í 35 ára hafa Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd hafa staðið fyrir vinnuferðum á ótal staði hér á landi og virkjað sjálfboðaliða til þess að vernda náttúru Íslands og gera aðgengilegri fyrir almenning.

Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd (SJÁ) voru stofnuð vorið 1986 af ungu íslensku áhugafólki um náttúruvernd sem kynnst hafði starfi bresku sjálfboðaliðasamtakanna BTCV hérlendis og erlendis.
Hingað til lands komu sjálfboðaliðar frá þeim samtökunum á árunum 1978-1985 og unnu í Jökulsárgljúfrum, Krýsuvík, við Gullfoss, í Skaftafellsþjóðgarði og víðar við að lagfæra gönguleiðir og leggja stíga. Náttúruverndarráð greiddi götu þeirra og nokkrir Íslendingar lögðu hönd á plóg með þeim og smituðust af hugmyndafræðinni. Sigrún Helgadóttir og Sólrún Harðardóttir unnu sjálfboðavinnu með þeim í Bretlandi og stofnuðu íslensku samtökin ásamt fleira fólki sem unnið hafði með bresku hópunum hér á landi.

Markmið Sjá frá upphafi eru:
a) að veita sjálfboðaliðum tækifæri til að vinna að náttúruvernd
b) að gefa þeim kost á að starfa með öðrum með sama áhugamál
c) að efla vitund fólks um gildi náttúruverndar
d) að auðvelda fólki umgengni við náttúruna og auka kynni af henni
e) að starfa í anda gildandi náttúruverndarlaga.

Sérstaða Sjá er að velja og móta sjálf verkefni og aðferðir við lausn þeirra, með hliðsjón af fyrrgreindum markmiðum, í samráði við náttúruverndaryfirvöld.

Fyrstu tvo áratugina var aðallega unnið að gerð göngustíga sem trufla sem minnst ásýnd náttúrunnar, stika gönguleiðir, hreinsa rusl og fleira sem stuðlar að náttúruvernd. Hin síðari ár er áhersla á skógrækt, landgræðslu og að hemja útbreiðslu lúpínu á völdum stöðum. Í upphafi voru félagsmenn 30, urðu mest 160 árið 1993, en eru 50 árið 2021.

Vinnuflokkur að vinna að göngustígagerð við Grábrók. Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd.
Unnið við göngustíg á Grábrók 1993.

Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd hafa starfað 35 ár (2021). Þau hafa kynnt dagskrá fyrir hvert sumar, staðið fyrir vinnuferðum á ótal staði hér á landi og virkjað sjálfboðaliða til þess að vernda náttúru Íslands og gera aðgengilegri fyrir almenning. Farnar hafa verið 230 vinnuferðir á hundrað staði víðs vegar um land.

Saga Sjálfboðaliðasamtakanna speglar miklar breytingar. Þegar Sjá voru stofnuð 1986 var fáliðað Náttúruverndarráð eina ríkisstofnunin sem sinnti náttúru- og umhverfisvernd, auk Landgræðslunnar. Umhverfisráðuneytið varð ekki til fyrr en 1990 og Umhverfisstofnun ekki fyrr en 2003. Sjá voru stofnuð til að samræma krafta sjálfboðaliða og starfsmanna Náttúruverndarráðs, einkum á friðlýstum svæðum. Þá voru starfandi fáein áhugamannafélög sem helguðu sig umhverfis- og náttúruvernd, svo sem Landvernd og náttúruverndarfélög landshlutanna: (NVSV);  SUNN; NAUST,  einnig Fuglavernd. Fleiri félög sinntu náttúruvernd, svo sem Lionsklúbbar, ungmennafélög, kvenfélög, skógræktarfélög og ferðafélög.

Fyrstu starfsárin voru Sjá í sambandi við bresk og dönsk félög og tóku við sjálfboðaliðum frá Bretlandi, Danmörku og fleiri löndum. Íslendingar voru þó alltaf í meirihluta og lengd verkefna sniðin að þeim, allt frá einum degi upp í rúma viku. Erlendu gestirnir dvöldu lengur á landinu og sumir tóku tvö verkefni í röð auk þess að ferðast á eigin vegum.

Kona og karl með skoflur að moka sand úr kerru á veg. Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd leggja göngustíg við Hljóðakletta við Jökulsárgljúfur árið 1986.
Sjá leggur göngustíg við Hljóðakletta árið 1986.

Enn sem áður skipuleggja Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd svinnu íslenskra sjálfboðaliða, sem fá tækifæri til að kynnast náttúruperlum og að eiga gefandi samverustundir með fólki með svipuð áhugamál.

Náttúruverndarráð, sem breyttist í Náttúruvernd ríkisins og síðar Umhverfisstofnun, hefur lengi tekið á móti hópum erlendra sjálfboðaliða og skipulagt nokkurra vikna verkefni fyrir þá, aðallega í þjóðgörðunum. Sjá hafa komið að fáeinum þessara ferða og auglýst í sumardagskrá sinni. Þar hafa félagsmenn unnið með reyndum erlendum sjálfboðaliðum og lært af þeim.

Sjá áttu þátt í þróun fagþekkingar og verktækni í gerð lítt áberandi göngustíga, sem trufla ekki náttúruunnandann. Haldin hafa verið námskeið fyrir félagsmenn og verkstjóra samtakanna og voru þau fyrstu með leiðbeinendum frá Bretlandi.

Verkstjórn er vandasöm og undirbúningur vinnuferða tímafrekur.  Erlend samtök og Umhverfisstofnun eru gjarna með skipuleggjendur og verkstjóra á launum. Reyndar voru Sjá með mann í hlutastarfi í þrjú sumur þegar starfsemin var hvað mest og hafa greitt sum hinn síðustu ár fyrir hluta af skrifstofustörfunum. Starfsemin er fjármögnuð með styrkjum og félagsgjöldum. Lengi vel greiddu sjálfboðaliðar sjálfir hluta ferða- og uppihaldskostnaðar.

Af stöðum sem oftast og lengst hefur verið unnið á má nefna Þórsmörk (stígurinn úr Langadal upp á Valahnúk), Seljalandsfoss, Skógafoss, Grábrók, mörg verkefni víða um Vestfirði, verkefni á sunnanverðu hálendinu (m.a. með Ferðaklúbbnum 4×4), Hekluskóga, Kerlingarfjöll, Skaftárhrepp, þjóðgarðana í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum (nú Vatnajökulsþjóðgarður) og Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Flest verkefnin þjóna bæði náttúruvernd og ferðaþjónustu og hafa Sjálfboðaliðasamtökin aðallega beint kröftum sínum að verklegum úrlausnarefnum.

Þau hafa einnig lagt sitt af mörkum við stefnumótun um náttúruvernd og framkvæmdir á ferðamannastöðum, áttu t.d. fulltrúa á Náttúruverndarþingi meðan það tíðkaðist.

Mikið liggur fyrir af skrifuðum heimildum um starf Sjá. Má þar nefna fundargerðir, árleg fréttabréf og vinnuskýrslur þar sem flestum verkefnum er lýst í máli og myndum. Með skýrslunum er hægt að meta árangur vinnunnar löngu eftir að þau eru unnin, sem er liður í að þróa starfsaðferðir.

Um 90 vinnuskýrslur eru komnar á vefsvæðið  https://issuu.com/umhverfismal  Þar er einnig yfirlit yfir flest verk frá upphafi á excel-skjali. Síðan er mikið af ljósmyndum á fésbókarsíðunni sem Sjá hefur haldið úti í áratug. Fyrstu starfsárin birtust oft frásagnir og viðtöl í fjölmiðlum.

10 manns sitja í kjarri og borða nesti undir Vegghamri í Þjórsárdal 2019. Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd.
Snætt nesti undir Vegghamri í Þjórsárdal 2019 í skógargeigi sem Sjá hafa sjálf ræktað.

Það er gamall draumur að Sjálfboðasamtök sem þessi verði óþörf og hægt sé að leggja þau niður. Þau voru stofnuð á 8. áratugnum til að fylla upp í tómarúm. Náttúruskoðun og ferðamennska óx ár frá ári með tilheyrandi álagi á náttúruperlur og fáliðað Náttúruverndarráð var eini aðilinn til að takast á við það. Aðstoð áhugasamra erlendra gesta var tekin fegins hendi og þá ekki síður þegar ungir og sprækir Íslendingar vildu leggja hönd á plóg. Vöxtur og viðgangur Sjá fyrsta áratuginn bar vitni um ríka þörf.

En svo var stofnað Umhverfisráðuneyti, Náttúruverndarráð óx og varð að Umhverfisstofnun, þjóðgörðum og landvörðum fjölgaði og aðrir (Veraldarvinir og Seeds) virkjuðu þúsundir erlendra sjálfboðaliða. Fjárframlög til ferðamannastaða jukust er kom fram á þessa öld. Farið var að deiliskipuleggja, reikna og teikna, fagmenntað fólk ráðið til starfa og vinnan færðist á hendur vélvæddra verktaka. Handverk að hætti BTCV lifir þó áfram meðal félagsmanna Sjá, erlendra starfsmanna og sjálfboðaliða Umhverfisstofnunar, einnig hjá Skógræktinni í Þórsmörk undir stjórn Chas Goemans.

Þar kom að stjórn Sjá fór að hugleiða hvort hlutverki Sjá væri að ljúka og tímabært að leggja samtökin niður. Í Fréttabréfi Sjá birtist pistillinn: „Hugsað upphátt fyrir aðalfundinn 2001“  Þar segir m.a.:

„Nú má spyrja hvort þessi samtök fari ekki að verða úrelt. Mörg önnur samtök sinna umhverfisvernd, sum af miklum dugnaði, og hellingur af stofnunum og fyrirtækjum koma við sögu. Fyrirtækin gefa út umhverfisstefnu og fjöldi sérfræðinga vinna að umhverfismati víða um land. Þó Sjálfboðaliðasamtökin séu enginn risi í þessu landslagi þá hafa þau samt sérstöðu. Þau helga sig sjálfboðavinnu á landi sem þau eigna sér ekki og hafa lengi haft forystu um að gera náttúruna aðgengilegri fyrir almenning með því að gera svo hógvær mannvirki að þau sjást naumast. Í þeim lifir sérstök verkkunnátta og þjónustulund við landið sem mikilvægt er að berist áfram til yngri kynslóða. Fræðsla um náttúruvernd virkar vel þegar hún tengist einhverju sem gert er í þágu náttúruverndar. Það leiðir hugann að því að við þurfum að ná betur til yngra fólks.“

Átta árum síðar segir í skýrslu stjórnar á aðalfundinum 2009:  „Stjórn félagsins hefur verulegar áhyggjur af ástandi mála hjá félaginu og gildir það jafnt um þátttöku félagsmanna, virkni stjórnarmanna og vilja félagsmanna til að taka þátt í starfsemi félagsins almennt. Á síðasta stjórnarfundi … var því samþykkt að bera undir aðalfund tillögu um að starfsemi félagsins verði hætt og greiddir út styrkir til umhverfismála meðan sjóðir félagsins endast.”  Nokkrir gamlir félagsmenn sem lásu þetta í Fréttabréfinu mættu á aðalfundinn og lögðust gegn því að félagið yrði lagt niður. Þess í stað skyldum við skunda á Þingvöll og treysta vor heit – og það var gert!

Eftir þetta voru nær eingöngu farnar helgarferðir, minni áhersla lögð á stikun og stígagerð en meiri á vinnu með gróður, m.a. að hafa hemil á útbreiðslu lúpínu sem önnur samtök hafa lítið sinnt.

Félagsmenn og forysta Sjá eldist og hefur lítið gengið að virkja ungt fólk. Því var brugðið á það ráð að sækja um að ganga inn í Landvernd árið 2021.

Hér er saga Sjálfboðaliðasamtaka um náttúruvernd (Sjá) ítarlegri og víða „tengt/linkað“ í vinnuskýrslur og dagblöð. 

 

Þorvaldur Örn Árnason auk 4 annarra í Öndverðanesi í Alviðru 2013
Í Öndverðanesi í Alviðru 2013

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd