Suðurorka ehf. áformar að reisa 150 MW vatnsaflsvirkjun með virkjun Skaftár í nágrenni Búlands í Skaftárhreppi, s.k. Búlandsvirkjun. Búlandsvirkjun fylgja þrjú lón, tvö minni inntaks- og setlón og 9,3 km2 miðlunarlón á Þorvaldsaurum. Mannvirki Búlandsvirkjunar yrði í jaðri miðhálendislínunnar.
Faghópur I í 2. áfanga rammaáætlunar taldi suðurhluta miðhálendisins, þar með talið vatnasvið Skaftár-Tungufljóts, meðal verðmætustu svæða landsins m.t.t. menningarminja, jarðminja, vatnafars, tegunda lífvera, vistkerfa, jarðvegs, landslags og víðerna. Búlandsvirkjun, þ.e. uppistöðulón og stíflumannvirki, yrði í næsta nágrenni við Eldgjá í Vatnajökulsþjóðgarði. Svæðið er stórbrotið og landslag fjölbreytt og er þetta vinsælt útivistarsvæði. Búlandsvirkjun myndu fylgja miklar stíflur og áveitumannvirki með tilheyrandi raski auk raflína. Lega raflínu frá virkjuninni hefur ekki verið gerð opinber og óljóst hvernig henni yrði háttað, nokkrar leiðir eru í boði en allar slæmar út frá náttúruverndarsjónarmiðum, einkum vegna þess hversu mikilvægt þetta svæði er fyrir ferðaþjónustu og upplifun ferðamanna í náttúru Íslands. Þá mun virkjunin hafa neikvæð áhrif á beitilönd bænda.