Landsnet hefur hafið undirbúning að því að reisa 220 kV háspennulínu í lofti frá virkjanasvæðinu við Þjórsá og Tungnaá, um Sprengisand allt norður í Bárðardal. Línuleiðin er um 200 km. Að mati Landsnets kemur til greina að hafa línuna í jörðu á um 50 km kafla, en aðalvalkostur gerir samt ráð fyrir loftlínu. Vegagerðin áformaði árið 2014 að byggja uppbyggðan veg um sama svæði, en hefur nú lagt þau áform á hilluna í bili.
Ljóst er að framkvæmdir Landsnets og Vegagerðarinnar myndu hafa mikil og óafturkræf áhrif á miðhálendið. Framkvæmdirnar myndu kljúfa víðerni hálendisins, valda umferðargný í stað öræfakyrrðar og bjóða upp á hættu á frekari „láglendisvæðingu„ hálendisins með uppbyggingu margskonar innviða og þjónustu á svæðinu, t.d. veitinga- og gististaða og bensínstöðva. Framkvæmdum myndi fylgja umfangsmikið rask og óásættanleg áhrif á náttúru, landslag og víðerni en einnig skerða möguleika á útivist og ferðaþjónustu á hálendinu. Hálendið eins og við þekkjum það í dag, myndi því tilheyra fortíðinni.