Sprengisandur

Víðerni Sprengisands eru í hættu vegna stóriðjulínu, landvernd.is
Með Original uploader was Nojhan at fr.wikipedia - Transferred from fr.wikipedia; transferred to Commons by User:Rémih using CommonsHelper., CC BY-SA 1.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=15923420
Á Svæðisskipulagi miðhálendisins er gert ráð fyrir tengingu raforkukerfisins milli Þjórsársvæðisins og byggðalínunnar á Norðurlandi, þ.e.a.s. með háspennulínu yfir Sprengisand. Landsnet hefur þetta til skoðunar. Í drögum að landsskipulagi til 2024 er gert ráð fyrir mannvirkjabelti yfir Sprengisand sem myndi kljúfa hálendið í tvennt. Í sama skipulagi er fjallað um verndargildi svæðisins: „Víðerni bjóða upp á einstaka upplifun sem sífellt færri landsvæði á heimsvísu geta boðið upp á. Mikilvægt er því að vernda íslensk víðerni. Mikilvægt er að almenningur geti notið þeirrar sérstöðu sem hálendið hefur upp á bjóða, án þess að á hana sé gengið.“

Landsnet hefur hafið undirbúning að því að reisa 220 kV háspennulínu í lofti frá virkjanasvæðinu við Þjórsá og Tungnaá, um Sprengisand allt norður í Bárðardal. Línuleiðin er um 200 km. Að mati Landsnets kemur til greina að hafa línuna í jörðu á um 50 km kafla, en aðalvalkostur gerir samt ráð fyrir loftlínu. Vegagerðin áformaði árið 2014 að byggja uppbyggðan veg um sama svæði, en hefur nú lagt þau áform á hilluna í bili.

Ljóst er að framkvæmdir Landsnets og Vegagerðarinnar myndu hafa mikil og óafturkræf áhrif á miðhálendið. Framkvæmdirnar myndu kljúfa víðerni hálendisins, valda umferðargný í stað öræfakyrrðar og bjóða upp á hættu á frekari „láglendisvæðingu„ hálendisins með uppbyggingu margskonar innviða og þjónustu á svæðinu, t.d. veitinga- og gististaða og bensínstöðva. Framkvæmdum myndi fylgja umfangsmikið rask og óásættanleg áhrif á náttúru, landslag og víðerni en einnig skerða möguleika á útivist og ferðaþjónustu á hálendinu. Hálendið eins og við þekkjum það í dag, myndi því tilheyra fortíðinni.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd
Scroll to Top