Stjórn Landverndar fagnar framkomnu frumvarpi til laga um stækkun þjóðgarðsins á Þingvöllum og áformum um að treysta verndun Þingvallavatns. Áformuð stækkun þjóðgarðarins er mikilvægt skref í þá átt að mörk hans miðist við heildstæð vistkerfi og landslagsheildir, eins og lögð er áhersla á í viðmiðunarreglum Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN).
Stjórn Landverndar telur mikilvægt að við stjórnun þjóðgarðsins verði leitað
samstarfs og samráðs við viðkomandi aðila. Þetta er í samræmi við áherslur IUCN og hefur komið mjög vel fram í allri umfjöllun um áformaðan Vatnajökulsþjóðgarð. Í frumvarpinu segir að Þingvallanefnd farið með hlutverk stjórnar og hana skipi þrír alþingsmenn kjörnir af Alþingi. Huga þarf betur að þessu ákvæði. Stjórn Landverndar telur að líta beri til viðkomandi sveitarfélags, Þjóðkirkjunnar, Umhverfisstofnunar, Samtaka ferðaþjónustunnar og umhverfisverndarsamtaka í þessum tilgangi.
Bréf til Alþingis um málið:
Allsherjarnefnd Alþingis
Bt. Sigrúnar Brynju Einarsdóttur
Alþingi
150 Reykjavík
26. apríl 2004
Efni:
Umsögn stjórnar Landverndar um frumvarp til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum. – 868. mál.
Stjórn Landverndar hefur kynnt sér framangreint frumvarp.
Stjórnin fagnar framkomnu frumvarpi og áformum um að treysta verndun Þingvallavatns.
Áformuð stækkun þjóðgarðarins er mikilvægt skref í þá átt að miða mörk þjóðgarðsins við heildstæð vistkerfi og landslagsheildir, eins og viðmiðunarreglur IUCN leggja áherslu á. Svo virðist sem Hrafnabjörg sem heild séu ekki innan marka Þjóðgarðarsins í framlagðir tillögu. Ástæða gæti verið að líta á þetta atriði sérstaklega.
Í 2. gr. er fjallað um stjórnun þjóðgarðsins. Þar segir að Þingvallanefnd farið með hlutverk stjórnar og hana skipi þrír alþingsmenn kjörnir af Alþingi. Í vaxandi mæli hefur verið lögð áhersla á samstarf og samráð um rekstur og stjórnun þjóðgarða. Þetta er í samræmi við áherslur IUCN og hefur komið mjög vel fram í allri umfjöllun um áformaðan Vatnajökulsþjóðgarð. Framlögð tillaga um fyrirkomulag stjórnunar þjóðgarðsins á Þingvöllum virðist því ekki vera fyllilega í samræmi við nútíma hugmyndir um stjórnun þjóðgarða. Stjórn Landverndar telur mikilvægt að lögin kveði á um að hafa beri gott samstarf og samráð við viðkomandi aðila við stjórnun þjóðgarðsins og ástæða geti verið til að útvíkka stjórnina í þessum tilgangi. Í þessu sambandi ber að líta til viðkomandi sveitarfélags, Þjóðkirkjunnar, Umhverfisstofnunar, Samtök ferðaþjónustunnar og umhverfisverndarsamtaka.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Landverndar
Tryggvi Felixson framkvæmdastjóri