Pétur M. Jónasson prófessor hefur höfðað mál gegn Vegagerðinni til að koma í veg fyrir vegagerð sem myndi valda óafturkræfum spjöllum á Þingvallvatni, lífríki þess og umhverfi. Í stefnu, sem var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur í dag, er þess krafist að úrskurður umhverfisráðherra, frá 10. maí 2007, um mat á umhverfisáhrifum Gjábakkavegar milli Laugarvatns og Þingvalla í Bláskógabyggð í Árnessýslu, verði ógiltur. Til vara er þess krafist að sá hluti vegarins sem liggur næst vatninu vestur Eldborgarhraun, þ.e. sá hluti vegarins sem veldur mestum skaða, verði dæmdur ólögmætur.
Lögverndarsjóður
Til að standa straum af kostnaði við málareksturinn hefur Lögverndarsjóður og náttúru og umhverfis efnt til sérstakrar söfnunar. Þeir sem vilja styðja málið geta lagt inn á reikning nr. 1155-15-30252, kt. 630802-2370.
Ítrekaðar athugasemdir og umsagnir hundsaðar
Fjölmargir aðilar hafa ítrekað sent frá sér rökstuddar athugasemdir við áformaða vegagerð og varað við neikvæðum áhrifum hennar. Þannig hafa t.d. Umhverfisstofnun og Heimsminjanefnd Íslands varað við áformunum sem myndu hafa afar neikvæð áhrif á landslag og gætu raskað viðkvæmu lífríki vatnsins og aukið verulega á gegnumstreymisumferð um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Nú hefur yfirmaður hjá heimsminjanefnd UNESCO, dr. Mechtild Rössler, tekið undir áhyggjur Heimsminjanefndar Íslands og greint frá því að til greina komi að endurskoða stöðu þjóðgarðsins á Heimsminjaskránni, nái áformin um Gjábakkaveg fram að ganga. Þá hafa allir helstu vatnalíffræðingar á landinu undirritað bréf þar sem tekið er undir áhyggjur Péturs af áhrifum niturmengunar á viðkvæm hrygningarsvæði í vatninu.
Áform Vegagerðarinnar varða ríka náttúruverndarhagsmuni sem samgönguyfirvöld hafa ekki séð ástæðu til að taka alvarlega þrátt fyrir ofangreind álit helstu fagaðila sem málið varðar. Ítrekaðar og vel rökstuddar óskir um að fá málið aftur tekið upp af núverandi umhverfisráðherra hafa ekki borið árangur. Því sér Pétur sig tilneyddan til að fara með málið fyrir dómsstóla.
Í stefnunni er bent á fjölmörg lögfræðileg álitamál er varða málsmeðferð og hér að neðan er stutt ágrip á tveim slíkum.
Brot á andmælarétti stefnanda
Pétur er landeigandi og skoðun á málsmeðferðinni hefur leitt í ljós að stjórnvöld brutu á andmæla- og upplýsingarétti hans auk þess sem rannsóknarreglu stjórnsýslulaga var ekki sinnt sem skyldi af hálfu stjórnvalda. Þá er uppi ágreiningur um það hvort fylgja hafi átt eldri lögum um mat á umhverfisáhrifum eða hvort fylgja hefði átt lögunum eins og þau voru eftir breytingar 1. október 2005. Ráðherra studdist í úrskurði síunum við reglur sem hann sjálfur hafði sett með reglugerð eftir að kæran kom fram. Að mati stefnanda var umhverfisráðherra óheimilt að byggja niðurstöðu sína á öðrum réttarreglum en í gildi voru þegar Skipulagsstofnun kvað upp hinn kærða úrskurð.
Vanhæfi skipulagsstjóra
Í stefnunni er dregið í efa hæfi skipulagsstjóra, Stefáns Thors, til þess að úrskurða í málinu vegna vensla hans við umboðsmann Vegagerðarinnar, Stefáns Gunnars Thors, fagstjóra umhverfisdeildar VSÓ ráðgjafar. Stefán Gunnar Thors er sonur Stefáns Thors en sá fyrrnefndi annaðist gerð matsskýrslna og kom fram sem umboðsmaður Vegagerðarinnar í samskiptum við Skipulagsstofnun.
Nánari upplýsingar
Stefnu Péturs í heild má finna á heimasíðu Landverndar. Frekari upplýsingar um málið veitir lögmaður Péturs M. Jónassonar, Guðjón Ólafur Jónsson hrl. í síma 588 5200 eða 863 2212.