Stórfelld uppbygging vindorkuvera í Dalabyggð ekki til heilla

Markmið risavaxinna vindorkuvera að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum við Breiðafjörð byggja á hæpnum forsendum þar sem landi og gríðarlega dýrmætu lífríki er ógnað ásamt því sem að fyrir liggur að mjög stór hluti samfélagsins, ekki síst nærsamfélagið, er mjög mótfallið þessum umdeildu áformum og inngripi í umhverfi, lífríki og samfélag Dalabyggðar.

Landvernd skilaði athugasemd við kynningu á vinnslutillögu að Aðalskipulagi í Dalabyggð 2020 – 2032. Athugasemdina má finna í heild sinni neðst í greininni.

Mengandi iðnaðarstarfsemi og sjálfbærni fara ekki saman

Það er mat Landverndar að í þessari vinnslutillögu sé mikið ósamræmi í nokkrum þeim markmiðum sem sett eru fram í skipulaginu. Í greinargerðinni birtist metnaðarfull stefna í umhverfis- og náttúruvernd og stefna um víðtæka mengandi iðnaðarstarfsemi í lítt snortinni náttúru og víðernum á heiðarlendum Dalabyggðar.

Það er ekki er hægt hvoru tveggja í senn að markaðsetja sveitarfélagið með jákvæðri umhverfis ímynd, uppbyggingu ferðaþjónustu eða heilbrigðrar upplifunar gesta með metnaðarfullum texta á sama tíma og stefnt er að gríðarlegum áformum um uppbyggingu iðnaðarsvæða með áður óþekktu inngripi í náttúru og landslagsheildir / víðerni.

Áformuð uppbygging og stærðir þeirra vindorkuvera sem sett eru á dagskrá í vinnslutillögu þessari á aðalskipulaginu og sjá má m.a. á uppdrætti meðfylgjandi skipulaginu, samræmast því á engan hátt öðrum þeim markmiðum sem sett eru fram er varðar umhverfistengda þætti, innviði og samfélag á svæðinu.

Fullyrða má að aldrei í sögu þessa svæðis sem skipulaginu er ætlað að ná til hafi verið sett fram jafn stórtæk og gróf iðnaðaráform sem munu valda jafn gríðarlega víðtækum og neikvæðum umhverfisáhrifum og að er stefnt.

 

Ef það er vilji þá er vegur

Landvernd vill trúa að það sé ákveðin vilji til staðar og vill hrósa sveitarfélaginu fyrir þann vilja sem fram kemur í stefnu er lítur afmarkað að umhverfi, náttúru og markmiðum um sjálfbærni. Sem slík væri stefnan með ágætum ef ekki væri jafnhliða sett fram svo víðtæk og svört iðnaðarstefna með breytingu á landnýtingu úr landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði í þágu orkuiðnaðar af því tagi sem gert er ráð fyrir í skipulaginu.

Það er þó enn einlæg von Landverndar að sveitarstjórn Dalabyggðar sjái sig um hönd, fari eftir eigin metnaðarfullu markmiðum og leiðarljósum sem fram koma í vinnslutillögunni, afstýri því slysi sem er í farvatninu og taki af sjálfsdáðum skipulagsáform vindorku af dagskrá. 

Vindorkuver ógna dýrmætu lífríki

Markmið risavaxinna vindorkuvera að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum við Breiðafjörð byggja á hæpnum forsendum þar sem landi og gríðarlega dýrmætu lífríki er ógnað ásamt því sem að fyrir liggur að mjög stór hluti samfélagsins, ekki síst nærsamfélagið, er mjög mótfallið þessum umdeildu áformum og inngripi í umhverfi, lífríki og samfélag Dalabyggðar.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd