Mikilvægt er að öll uppbygging við Stuðlagil verði gerð í sátt við umhverfið og náttúruperluna sjálfa þannig að gestir geti notið þessa magnaða náttúrufyrirbæris með lágmarksinngripi á svæðinu. Þó er ljóst að talsverðar framkvæmdir og mannvirki verða óhjákvæmileg, ekki síst til að tryggja öryggi gesta á svæðinu.
Taka þarf tillit til þess að allt nánasta umhverfi Stuðlagils og svæðisins, sem nýlegt rammaskipulag tekur til, er að mestu umleikið lítt eða ósnortnum heiðalendum sem eru órjúfanlegur hluti þeirrar upplifunar sem gestir njóta við aðkomu að Stuðlagili.
Þegar ráðist er í jafn kostnaðarsamar framkvæmdir og hér um ræðir við Stuðlagil er afar mikilvægt að tryggja að upplifun gesta verði ekki rýrð með annarskonar uppbyggingaráformum sem ganga beinlínis gegn markmiðum rammaskipulagsins sem búið er að leggja mikla vinnu í.
Í því sambandi verður að nefna áform um stærsta vindorkuver hérlendis sem er einmitt í jaðri svæðisins sem að rammaskipulagið nær til.
Bygging vindorkuvers á svæðinu myndi setja rammaskipulagið allt í fullkomið uppnám og upplifun gesta yrði með allt öðrum og neikvæðari hætti – en áformað risa vindorkuver, svonefnd Klausturselsvirkjun, myndi tróna yfir Stuðlagili og allri aðkomu að svæðinu og innan þess.
Landvernd sendi inn umsögn um rammaskipulags Stuðlagils.