Þjórsárver og Norðlingaölduveita

Verndum hálendi Íslands fyrir stóriðjuvirkjunum, landvernd.is
Norðlingaölduveita og Kjalölduveita myndu endanlega spilla þremur stórum fossum í Efri-Þjórsá; Dynk, Gljúfurleitarfossi og Kjálkaversfossi.

„Þjórsárver er stærsta gróðurlendi á miðhálendi Íslands, þar er gróður óvenjulega fjölbreyttur, víðáttumikil votlendi, freðmýrarrústir, víðiheiðar og afar sjaldgæft blómskrúð. Þarna eru kjölfestuvarpstöðvar heiðagæsarinnar. Lífríkið er fjölbreytt og vistkerfin heilbrigð. Þjórsárver njóta líka alþjóðlegrar verndar samkvæmt Ramsarsamningnum og Bernarsáttmálanum. Svo eru þau líka hluti af stóru víðerni á miðhálendinu, sem út af fyrir sig skiptir máli. Það eru bara til ein Þjórsárver og við gætum aldrei búið þau til á ný.“ Sigþrúður Jónsdóttir, handhafi náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti 2017. 

Til stóð að skemma Þjórsárver með gerð uppistöðulóns fyrir Norðlingaölduveitu. Tillaga um stækkun friðlands í Þjórsárverum var breytt í desember 2013 þannig að Norðlingaölduveita rúmaðist á friðlandsmörkum. Sú tillaga hefur þó enn ekki verið samþykkt. Þá hefur Landsvirkjun lagt fram nýja hugmynd, Kjalölduveitu, sem er að öllu leyti eins og Norðlingaölduveita nema að lónshæðin er 10 m lægri (555 m.y.s.). Stærð lónanna er svipað, 2,6-2,7 km2, og vatninu yrði áfram veitt á sama stað, yfir í Illugaver og þaðan rynni vatnið til Þórisvatns og myndi nýtast sem miðlun fyrir virkjanir á Þjórsár- Tungnaársvæðinu. 

Flest bendir til að Kjalölduveita sé í reynd nýtt nafn á Norðlingaölduveitu, ekki muni svo miklu á framkvæmdunum.

Norðlingaölduveita og Kjalölduveita myndu endanlega spilla þremur stórum fossum í Efri-Þjórsá; Dynk, Gljúfurleitarfossi og Kjálkaversfossi, en þeir hafa þegar misst um 40% af rennsli sínu vegna Kvíslaveitu í austurhluta Þjórsárvera. Veiturnar myndu auk þess spilla óröskuðu landslagi vestan Þjórsár í næsta nágrenni við Þjórsárver. Þjórsárver eru stærsta, fjölbreyttasta og gróskumesta gróðurvin hálendisins. Þar er einn stærsti varpstaður heiðagæsar í heiminum. Svæðið var friðlýst árið 1981 og er á lista Ramsarsamningsins sem eitt þeirra svæða á Íslandi sem njóta alþjóðlegrar verndar sem votlendi með auðugu fuglalífi. Í Þjórsárverum eru sífrerarústir sem hafa alþjóðlegt verndargildi og þar er einnig að finna fornar gæsaréttir, þær einu sem þekktar eru hér á landi. Þá höfðust frægustu útilegumenn Íslandssögunnar, Fjalla-Eyvindur og Halla, tvisvar við í Þjórsárverum. Híbýli þeirra, Eyvindakofi við Eyvindarver, eru nú friðlýstar minjar.

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd