Ákvörðun sveitarstjórnar Ölfuss um áframhaldandi efnistöku í Ingólfsfjalli þvert á álit Skipulagsstofnunar er tímamótaákvörðun. Um er að ræða fyrsta umhverfismatið sem er framkvæmt á grundvelli breyttra laga um mat á umhverfisáhrifum en lögunum var breytt þann 11. maí 2005 og tók breytingin gildi 1. október sama ár. Samkvæmt áður gildandi lögum hefði ekki verið hægt að fara gegn niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum með þeim hætti sem hér hefur verið gert.
Efnistaka í Ingólfsfjalli hefur þegar sett sinn svip á fjallið.
Nákvæmlega ári eftir breytingu laganna tekur sveitarstjórn ákvörðun sem hefði ekki verið í þeirra valdi að taka samkvæmt áður gildandi lögunum. Til þess að fara gegn niðurstöðu umhverfismats áður en breytingarnar tóku gildi 1. október 2005 þurfti umhverfisráðherra að breyta eða ógilda úrskurð Skipulagsstofnunnar í kjölfar stjórnsýslukæru. Í því lagaumhverfi sem nú er í gildi kveður Skipulagsstofnun ekki upp úrskurð, eins og áður var, heldur gefur hún út álit. Landvernd hafði á sínum tíma verulegar áhyggjur af lagabreytingunni og nú hefur komið í ljós að áhyggjur samtakanna áttu við rök að styðjast.
Álit Skipulagsstofnunnar
Álit Skipulagsstofnunnar er afar vel rökstutt og stjórn Landverndar hefur tekið undir niðurstöðu stofnunarinnar um að umhverfisáhrif áformaðrar námuvinnslu á Ingólfsfjalli séu óásættanleg. Í áliti Skipulagsstofnunar segir m.a:
„Um verður að ræða ásýndarbreytingar á Ingólfsfjalli vegna óafturkræfar skerðingar klettabrúnar fjallsins á um 400 m löngum kafla og lækkun hennar um 80 m auk röskunar og breytinga á yfirbragði klettabeltisins vegna tilfærslu efnis niður tvær rásir. Þessi áhrif munu auka enn á og magna ennfrekar upp neikvæð sjónræn áhrif núverandi efnistökustaðar. Þá þarf að hafa í huga að sjónræn áhrif fyrirhugaðrar efnistöku munu ná til fjölda fólks, þar sem svæðið er í næsta nágrenni við þéttbýlisstaðinn Selfoss og fjölfarinn þjóðveg. Auk þess sem er um að ræða fjall sem er jarðmyndun að þeirri gerð að talið er forgangsmál, samkvæmt stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun, að vernda.“