Tími til að sækja um Bláfánann 2009

Landvernd fór með umsjón Bláfánans á árunum 2002-2018, landvernd.is
Nú líður að því að rekstraraðilar smábátahafna og baðstanda þurfi að hefja undirbúning að árlegri umsókn um Bláfánann en frestur til að sækja um fyrir árið 2009 er til loka febrúar.

Nú líður að því að rekstraraðilar smábátahafna og baðstanda þurfi að hefja undirbúning að árlegri umsókn um Bláfánann en frestur til að sækja um fyrir árið 2009 er til loka febrúar. Undanfarin ár hefur Landvernd, í samstarfi við hagsmunaaðila og –samtök, unnið að því að innleiða verkefnið á Íslandi. Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisvottun sem Foundation of Environmental Education (FEE) stendur að og veitt er rekstraraðilum smábátahafna og baðstranda fyrir framúrskarandi vistvæna umgengni við hafið. Verkefnið er helgað menntun til sjálfbærrar þróunar og hefur Bláfáninn mikið gildi fyrir svæði sem leggja áherslu á ferðaþjónustu því þar sem fáninn blaktir við hún geta gestir gengið út frá því sem vísu að meðhöndlun úrgangs, öryggismál, gæði vatns og umhverfisfræðsla sé í góðu lagi.

Yfir 3200 baðstrendur og smábátahafnir í 37 löndum Evrópu, Afríku, Ameríku, Nýja Sjálandi og Karabíska hafinu flagga Bláfánanum. Hér á landi hafa sex staðir hlotið þessa viðurkenningu, þ.e. Arnarstapahöfn, Hafnarhólmi á Borgarfirði eystri, Stykkishólmshöfn, Suðureyri og baðstrendurnar Bláa lónið og Ylströndin í Nauthólsvík.

Landvernd ber fjárhagslega ábyrgð á verkefninu og annast úthlutun og eftirlit með Bláfánanum á Íslandi, ásamt fulltrúum frá Fiskifélagi Íslands, Félagi umhverfis- og heilbrigðisfulltrúa, Hafnasambandinu, Umhverfisstofnun, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Siglingasambandi Íslands og Fuglavernd.

Stýrihópur og dómnefnd sem í sitja fulltrúar ofangreindra aðila eru Landvernd til ráðgjafar, afgreiða umsóknir og hafa eftirlit með því að skilyrðum Bláfánans sé fullnægt. Alþjóðlegur stýrihópur hefur eftirlit með störfum dómnefndar og heimsækir reglubundið þá staði sem flagga Bláfánanum.

FEE, móðursamtök verkefnisins, eru meðal öflugustu umhverfisfræðslusamtaka í heiminum og vinna þau að fjölmörgum verkefnum sem öll eru helguð menntun til sjálfbærrar þróunar s.s. Grænfánanum. Samtökin starfa með umhverfissamtökum víðsvegar um heim.

Eins og áður segir er frestur til að sækja um Bláfánann fyrir árið 2009 til loka febrúar nk. Að ýmsu er að huga í tengslum við umsóknina og því ekki úr vegi að hefja undirbúning strax.

Umsóknareyðublöð má nálgast hér á vefnum: www.landvernd.is/blafaninn

Aðstoð og nánari upplýsingar veitir Sigrún Pálsdóttir hjá Landvernd í síma 552 5242. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir til: blafaninn@landvernd.is

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd