Nú eru 6 ár til stefnu fyrir ríkisstjórnina að ná markmiðum sínum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá samfélaginu, það sem kallast á beina losun Íslands. Að vísu er ekki ljóst hvort markmiðið er 29%, 40% eða 55% en það er á hreinu að tíminn er stuttur. Þær litlu aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur uppi núna felast að miklu leyti í því að færa peninga úr ríkissjóði til vel stæðra fyrirtækja sem hafa hingað til sloppið að mestu leyti við að greiða fyrir þann umhverfisskaða sem þau valda.
Hvað eiga Samherji, Ísfélag Vestmannaeyja og Arnarlax sameiginlegt?
Úthlutað var úr Orkusjóði fyrir helgi. Þar voru þrír stærstu styrkþegarnir hin hjálparþurfi fyrirtæki Samherji, Ísfélag Vestmannaeyja og Arnarlax. Samherji fékk 100 milljón króna styrk til að gera tilraunir með breytingu á skipi sem á að ganga fyrir ammoníaki, Ísfélag Vestmannaeyja fékk 110 milljónir til að kaupa rafskautaketil og Arnarlax 96 milljónir til þess að kaupa hybrid-vinnubát sem líklega gengur þá að mestu fyrir olíu. Samtals 270 milljónir til þessara þriggja aðila, 30% af heildarúthlutuninni.
Erfitt er að sjá að kaup á rafskautakatli sé annað en eðlileg endurnýjun tækjabúnaðar í fiskvinnslu enda hefur þessi tækni verið í notkun á Íslandi í a.m.k. 21 ár. Vinnslubátar við fiskeldi í opnum sjókvíum sem fara eðli málsins samkvæmt mjög stuttar vegalengdir ættu að geta verið að fullu rafmagnaðir. Spyrja má hvers vegna ríkisvaldið sem fjármagnar Orkusjóð þarf að styrkja þessi verkefni sérstaklega um svo háar fjárhæðir.
Fyrirtækin þrjú nýta auðlindir hafsins án þess að greiða fyrir það sanngjarnt auðlindagjald árum og áratugum saman og án þess að þurfa að greiða að neinu ráði fyrir það umhverfistjón sem þau valda. Samherjasamstæðan skilaði 14,3 milljörðum króna í hagnað árið 2022 og tæpum 19 milljörðum árið 2021. Ísfélag Vestmannaeyja skilaði tæpum 8 milljarða króna hagnaði 2022 en tæpum 6 árið 2021. Arnarlax hagnaðist um rúma 6 milljarða árið 2022.
Bílaleigur og rafmagnsbílar
Bílaleigurnar fengu fyrr á árinu úr ríkissjóði 1000 milljónir til þess að kaupa rafmagnsbíla í flotann auk þess sem þær fengu niðurfelld gjöld á bensín og díselbílum árið 2021 upp á næstum einn milljarð í nafni orkuskipta, eins öfugsnúið og það nú er. Í ár greiða bílaleigurnar út arð um minnst 1,3 milljarða eftir methagnað bæði árið 2021 og 2022, en hagnaður bílaleiganna var tæpir 7 milljarðar árið 2022. Samt þurfa þær ríkisstyrki til þess að fara í sjálfsagða uppfærslu á sínum tækjabúnaði sem ekki fer í gegnum samkeppnissjóði.
Frá árinu 2012 hefur íslenska ríkið svo fellt niður virðisaukaskatt af innflutningi rafmagns- og tengiltvinnbíla sem nemur 34 milljörðum án þess að setja auknar álögur eða hindranir á innflutning bensín og díselbíla. Þessi afsláttur gagnast þeim best sem hafa mikil fjárráð.
Gulrætur og svipur
Til þess að aðgerðir í loftslagsmálum séu sem árangursríkastar og til að tryggja bestu nýtingu fjármagns verður að forgangsraða aðgerðum á faglegum forsendum. Ríkisvaldið, sem fjármagnar orkusjóð, virðist ekki hafa borið gæfu til þess þegar kemur að dæmunum hér að ofan. Auk þess hafa rannsóknir sýnt að bæði hvatar og gjöld/hindrar eru nauðsynleg til þess að tryggja árangur af loftslagsaðgerðum. Annað virkar ekki án hins því hvatar hvetja til samvinnu og aðgerða og gjöld/hindrar sjá til þess að aðgerðum/samvinnunni er haldið áfram. Þannig ætti að leggja gjöld á þá sem menga með háum mengunarsköttum en hvetja þá sem fjárfesta í umhverfisvænni aðferðum með fjárhagslegum stuðningi. Stjórnvöld hafa ákveðið að beita fjárhagslegum stuðningi en ekki gjöldum/hindrum og þá þannig að fjárhagsstuðningnum er beint til þeirra sem minnst þurfa á því að halda.
Ný aðgerðaáætlun er nauðsynleg
Nokkuð ljóst er að vegna slakra áætlana ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, engrar eftirfylgni og mikils vilja til þess að ausa fé í vel stæða mengandi starfsemi í nafni loftslagsaðgerða, mun sannfærandi árangur í loftslagsmálum ekki nást fyrir 2030. Ríkisstjórnin verður að uppfæra aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum strax og beita þeim aðferðum sem þekkt er að eru árangursríkastar. Aðeins þannig höfum við möguleika á að ná árangri í loftslagsmálum.