Rúmlega tvö hundruð manns sóttu baráttufund fyrir verndun Jökulsánna í Skagafirði sem haldinn var í félagsheimilinu Árgarði, þriðjudagskvöldið, 28. nóvember og var þar með orðinn húsfyllir. Á fundinum voru flutt erindi um náttúru, virkjanamál og framtíð Skagafjarðar og Sigurður Hansen bóndi og skáld í Kringlumýri flutti ljóð.
Fundurinn samþykkti ályktun um að skora á sveitarstjórnir Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps að gera ekki ráð fyrir virkjunum í Jökulsám Skagafjarðar í tillögum að aðalskipulagi.
Að sögn þeirra sem að fundinum stóðu virðist sem mikill áhugi sé á málefninu og mikil andstaða gegn Villinganes- og Skatastaðavirkjun, bæði innan héraðs sem utan. Fólk er ekki tilbúið að fórna náttúru Skagafjarðar. Einnig eru fleiri og fleiri að að átta sig á því að ekkert bendir til þess að virkjanirnar verði til þess að auka atvinnumöguleika í Skagafirði.