Við hjá Landvernd höfum tekið saman nokkur ráð fyrir verkefnið Umhverfisfréttafólk í fjarnámi.
Þegar skólar taka þátt í verkefninu er það yfirleitt tekið inn sem hluti af áfanga. Vel er hægt að sníða verkefnið að þörfum hvers og eins skóla.
Umhverfisfréttafólki er ætlað að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að kynna sér umhverfismál og miðla upplýsingum til almennings. Það eru óteljandi leiðir til þess að vinna að verkefninu. Umhverfismálin tengjast öllu í kringum okkur og hægt er að miðla upplýsingum á fjölbreyttan máta.
- Heimildarmynd um mengun samfélagsmiðla
- Vefsíða um fatasóun
- Instagram reikningurinn Hellisbúarnir
- Ljósmyndin „Til hamingju mannkyn“
- Hlaðvarpið „Hvað get ég gert?“
Árlega er haldin keppni um bestu verkefni nemenda. Nemendur skila sjálf inn verkefnunum sínum á netinu og til mikils er að vinna. Sigurvegarar eiga kost á því að taka þátt í alþjóðlegri keppni og verkefnum þeirra er komið á framfæri innanlands og utan landsteinanna. Sigurverkefni eru valin af fagfólki innan Landverndar og reynslumiklu fólki úr fjölmiðlum.
Kennari getur bæði ákveðið að leyfa nemendum að velja alfarið úr umhverfismálum eða sett þeim einhverjar skorður, t.d. að verkefnið verði að fjalla um Heimsmarkmið 9, tengjast nærumhverfinu eða fjalla um ákveðið umhverfismálefni (sem dæmi: matarsóun, loftslagsmál, neyslu eða sjálfbærni).
Fjarnámsráð frá öðrum kennurum:
- Ef verkefnin eiga að vera unnin í hópavinnu, er ágætt að hafa ekki fleiri en þrjá í hóp. Það getur verið erfitt fyrir nemendur að finna tíma til að hittast utan tíma á netinu ef hóparnir eru mikið stærri.
- Mikilvægt er að nemendur skipti verkefninu vel á milli sín. Kennari getur t.d. óskað eftir upplýsingum um verkaskiptingu hópsins eða beðið nemendur um að halda verkefnabók. Þannig er hægt að fylgjast með því að allir leggi til verkefnisins.
- Gott er að funda með hverjum verkefnahóp tvisvar til þrisvar í gegnum ferlið. Þannig sjáum við til þess að nemendur styðjist við áreiðanlegar heimildir og að verkefnin séu í góðum farveg.
Tæki og tól sem hægt er að styðjast við í fjarnámi:
- Discord er forrit sem hefur reynst mörgum kennurum vel eftir að Covid-19 faraldurinn skall á. Það gefur kennara og nemendum fjölbreytt tækifæri til samtals í fjarkennslu. Hér má finna íslenskar leiðbeiningar um notkun og tækifæri forritsins.
- WeTransfer er vefur þar sem hægt er að senda skrár á milli einstaklinga á ókeypis og einfaldan hátt. Til dæmis er hægt að senda myndbönd, upptökur, ljósmyndir, glærupakka og fleira. Það þarf ekki að skrá sig inn á WeTransfer, heldur er nóg eða gefa upp hver er að senda gögnin og netfangið hjá þeim sem á að taka við þeim.
- Canva er vefur þar sem hægt er að búa til plaköt, boðskort og alls kyns fleira miðlunarefni á mjög einfaldan og ókeypis hátt.
- Zoom er eitt af fjölmörgum fjarskiptaforritum sem gefur kennurum færi á því að halda fyrirlestra og eiga í samskiptum við nemendur. Iðulega hafa skólar sett sér ákveðna stefnu um það hvaða fjarskiptaforrit skal styðjast við og hafa þau öll sína kosti og galla. Helstu kostir Zoom eru að nemendur þurfa ekki að vera með forritið í tölvunum sínum heldur geta þeir smellt á tengil sem leiðir þá beint inná kennslustundina. Hægt er að taka upp fyrirlestra í gegnum Zoom og stjórna því hver hefur orðið að hverju sinni. Auk þess er hægt að stilla fundinn þannig að allir sjái alla. Hér eru kennaraleiðbeiningar um Zoom á ensku.
- Áreiðanlegar og gagnlegar heimildir á íslensku um umhverfismál má finna hér. Hér má síðan finna dæmi um sniðug verkefni til að koma nemendum af stað.
Ef einhverjar spurningar vakna um verkefnið, ekki hika við að hafa samband. Gangi ykkur vel með fjarnámið!