Nemendur – Umhverfisfréttafólk

ungt.umhverfisfrettafolk.nemendur.2020, landvernd.is
Ert þú nemandi og þátttakandi í Ungu umhverfisfréttafólki? Veistu ekki hvar þú átt að byrja? Hér er allt sem þú þarft að vita!

Velkomin í vaxandi hóp Umhverfisfréttfólks í heiminum! 

 

Markmið verkefnisins er að gefa þér og öðrum nemendum tækifæri til að sinna hlutverki Umhverfisfréttafólks. Það gerir þú með því að kynna þér umhverfismál á gagnrýnin hátt og miðla upplýsingum til almennings. 

Þegar þú hefur valið þér viðfangsefni innan flóru umhverfismála og kynnt þér það, færð þú tækifæri til þess að miðla upplýsingunum áleiðis. Það eru margar leiðir í boði. Kannski hefur skólinn þinn ákveðið fyrirfram að þú skulir miðla efninu áfram í formi myndbands, greina eða ljósmynda. Ef ekki, getur þú valið það algjörlega út frá þínum eigin áhuga. 

Nemendur sem taka þátt eiga kost á því að taka þátt í árlegri samkeppni um verkefnin sem má kynna sér hér. Það er fjöldinn allur af spennandi vinningum og tækifærum í boði fyrir þá nemendur sem sigra keppnina. 

Fyrstu skrefin

Þegar þú ert að hefja ferlið þarftu að velta fyrir þér eftirfarandi spurningum: 

  • Hvaða viðfangsefni langar mig að taka fyrir?
  • Hvernig get ég miðlað upplýsingum um viðfangsefnið áfram þannig að fólk taki eftir því? 

Hugsum í lausnum

Hér eru nokkur dæmi um vandkvæði sem geta komið upp og lausnir við þeim. 

Ég hef ekki reynslu af því að taka ljósmyndir, skrifa greinar eða búa til myndbönd.

Smelltu hér! Þarna má finna gagnleg myndbönd um akkúrat allt þetta. Einhversstaðar verða allir að byrja og þú veist örugglega meira en þú heldur.

Mér dettur ekkert umhverfismál í hug.

Tengingin við umhverfið er ekki alltaf augljós í fyrstu. Í rauninni má þó segja að allt líf okkar litist af umhverfismálum. Hver einasti hlutur sem við eigum er búinn til úr auðlindum heimsins.

Áfram mætti lengi telja. Fólk tengir oft flokkun sorps við umhverfismál en þau eru svo miklu fleiri!

Umhverfismálin eru allt umlykjandi!

Það er ágætt að hafa í huga að allt má tengja við umhverfismálin. Í verkefninu sem þú skapar getur verið gott að tengja umhverfismálin við eitthvað sem þú hefur virkilegan áhuga á. 

Hugsaðu um áhugamálin þín. Hvaða hluti þarftu til að stunda þau? Hvernig kemstu á milli staða?

Hugsaðu um mataræðið. Hvað borðar þú á venjulegum degi? Hvaðan kemur maturinn sem þú borðar? Hvernig umbúðum kemur maturinn í? Hvað fer mikill matur í ruslið?

Hugsaðu um daglegt líf. Hvaðan koma hlutirnir sem þú notar daglega? Hvaða vörur notar þú mikið og hvað endast þær lengi? Hvaða raftæki átt þú? Hvað gerir maður við þau þegar þau bila? Hvernig hendir maður þeim?  

Hugsaðu um pólitík. Hvað er verið að gera til að sporna gegn umhverfisáhrifum? Finnst þér það vera nóg? Hvað er verið að gera vel? Hvað mætti gera betur? Eru upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda skýrar og aðgengilegar ungu fólki? 

Hugsaðu um heiminn. Hvað hefur verið að breytast í heiminum varðandi umhverfismál? Hverjar eru þínar fyrirmyndir í umhverfismálum og afhverju? Hverju eru ungmennin að mótmæla með loftslagsverkföllunum? Ertu sammála þeim eða ósammála? Afhverju?

Dæmi um fyrri verkefni nemenda

Fjölbreyttum verkefnum hefur verið skilað í keppnina og hægt er að skoða hluta þeirra á vefnum okkar. 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd