Stjórn Landverndar, að höfðu samráði við fagráð samtakanna, hefur sent Alþingi umsögn um tvö þingmál.
Stjórnin gerir veigamiklar efnislegar athugasemdir við frumfrumvarp til laga um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum og á skipulags- og byggingarlögum. Sjá bréf Landverndar til umhverfisnefndar Alþingis, hér að neðan.
Stjórnin leggur til mikilvægar viðbætur við frumvarp til laga um breytingar á lögum um náttúruvernd (nr. 44/1999) – eldri námur. Sjá bréf Landverndar til umhverfisnefndar Alþingis, hér að neðan.
———–
Umsögn um lagafrumvarp: mat á umhverfisáhrifu og skipulagslög, des. 2004
Umhverfisnefnd Alþingis
Bt. Hlínar Lilju Sigfúsdóttur
Alþingi
150 Reykjavík
6. desember 2004
Efni:
Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum og á skipulags- og byggingarlögum [ 235. mál]
Vísað er í bréf umhverfisnefndar Alþingis dagsett 15. nóvember sl. þar sem lýst er eftir umsögn Landverndar um frumvarp til breytinga á lögum um mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingalögum. Helstu athugasemdir stjórnar Landverndar eru eftirfarandi:
1. Bæta þarf við skilgreiningum á hugtökunum ,,hagsmunasamtök og ,,hlutaðeigandi samtök almennings”.
2. Hugtakið ,,umtalsverð umhverfisáhrif” gegni mikilvægu hlutverki umsögn Skipulagsstofnunar.
3. Skipulagsstofnun fái lengri tíma til að fjalla um matsskýrslur.
4. Tryggja þarf opna og aðgengilega umfjöllun um endanlega skýrslu um mat á umhverfisáhrifum ef breytingar verða á frumskýrslu hvað varðar tiltekna mikilvæga þætti málsins.
5. Kveða verður skýrt á um að framkvæmdaleyfi beri að vera í samræmi við álit Skipulagsstofnunar.
6. Styrkja þarf málskotsrétt almennings og samtaka.
7. Skrá þarf stórar verslunarmiðstöðvar og iðnaðarsvæð í viðauka I. Sömu ákvæði gildi um málsskotsrétt hvort um er að ræða framkvæmdaleyfi eða skipulagsákvörðun.
8. Skógræktarsvæði verði tilgreind sérstaklega í aðalskipulagi og aðgreind frá landbóta- eða landgræðslusvæðum.
Stjórn Landverndar vill benda á að mat á umhverfisáhrifum er krefjandi ferli þar sem fagaðilar á mörgum sviðum leggja fram fræðilegar upplýsingar og tæknilegar viðmiðanir sem stundum eru lítt eða algjörlega óskiljanlegar fyrir almenning og félagasamtök. Því er mikilvægt að tryggja að almenningur og félagasamtök geti leitað aðstoðar sérfræðinga þegar verið er að meta framlögð gögn. Það myndi stuðla að meira jafnræði milli málsaðila. Löngu er orðið tímabært að stofnaður verði sjóður sem hafi þann tilgang að auðvelda almenningi og félagasamtökum að afla sér nauðsynlegrar sérfræðiaðstoðar. Dæmi eru til um slíka sjóði í löndum sem Ísland er oft borið saman við. Stjórnin hvetur Alþingi til að stofna slíkan sjóð.
Athugasemdir stjórnar Landverndar eru innfærðar í texta frumvarps sem er fylgiskjal við þetta bréf. Viðbætur eru undirstrikaðar og feitletraðar. Tillögur um að fella texta út eru feitletraðar.
Virðingarfyllst,
Tryggvi Felixson framkvæmdastjóri Landverndar
———–
Umsögn Landverndar um frumvarp des. 2004
Umhverfisnefnd Alþingis
Bt. Hlínar Lilju Sigfúsdóttur
Alþingi
150 Reykjavík
6. desember 2004
Efni:
Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um náttúruvernd (nr. 44/1999) – eldri námur
Stjórn Landverndar fagnar framangreindu frumvarpi.
Stjórnin telur að til að draga úr hættunni af alvarlegum náttúruspjöllum vegna námuvinnslu þurfi jafnframt að seta ákvæði um neyðarúrræði sem taki þegar gildi. Efnislega er lagt til að bætt verði við eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða:
,,Umhverfisráðherra hefur heimild til að stöðva efnistöku í námum sem störfuðu fyrir 1. maí 1994 ef að dómi Umhverfisstofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar þykir sýnt að áframhaldandi efnistaka valdi umtalsverðum sjónrænum áhrifum á mikilvægum kennileitum í landlagi og/eða spilli verðmætum jarðminjum og/eða valdi skaða á vatnsöflunarsvæðum. Heimild til að hefja að nýju efnistöku skal þá háð undangengnu mati á umhverfisáhrifum og framkvæmdaleyfi frá viðkomandi sveitarfélagi. Ákvæði þetta gildir frá 1. janúar 2005 til 1. júlí 2007.”
Virðingarfyllst,
F.h. stjórnar Landverndar
Tryggvi Felixson framkvæmdastjóri