Endurheimtum náttúrulega birkiskóga og votlendi, landvernd.is

Umsögn Landverndar um 232. mál frumvarp til laga um Landgræðslu

Landvernd ítrekar enn og aftur þá sjálfsögðu kröfu að ein heildstæð lög nái yfir gróður- og jarðvegsvernd á Íslandi en með gróðurvernd er þá átt við hefðbundna landgræðslu, vernd og endurheimt votlendis og vernd og endurheimt birkiskóga.

Landvernd fagnar þeirri vinnu sem fram hefur farið í tengslum við frumvarpsdrög þessi og tímabærri endurskoðun á lögum um landgræðslu.  Samtökin hafa áður sent inn umsagnir um frumvarpsdrög að lögum um landgræðslu og vísar í þær. Landvernd þakkar fyrir að tekið hefur verið tillit til margra athugasemda sem samtökin settu fram í þeim umsögnum.  Samtökin telja þó ástæðu til þess að ítreka nokkrar athugasemdir sem ekki hefur verið orðið við og bæta við nýjum athugasemdum.

Landvernd ítrekar enn og aftur þá sjálfsögðu kröfu að ein heildstæð lög nái yfir gróður- og jarðvegsvernd á Íslandi (sjá t.d. nýlega umsögn um frumvarp til skógræktarlaga). Með gróðurvernd er þá átt við hefðbundna landgræðslu, vernd og endurheimt votlendis og vernd og endurheimt birkiskóga, en síðastnefnda verkefnið er skrifað inn í nýtt frumvarp til skógræktarlaga.  Landvernd hefur ekki séð haldbær rök, frá UAR eða öðrum, hvers vegna vernd og endurheimt birkiskóga, sem eru meðal grundvallargróðurlenda landsins, er aðskilin frá annarri gróðurvernd í lögum sem fyrst og fremst snúa að ræktun og viðhaldi nýskóga/timburskóga.  

Landvernd ítrekar jafnframt að vert sé að skoða hvort lög um landgræðslu, vernd og endurheimt birkiskóga eigi ekki heima undir náttúruverndarlögum og þannig verði þessir þrír lagabálkar sameinaðir í einn.  Sú sameining myndi undirstrika mikilvægi þess að forðast neikvæð áhrif landgræðslu og skógræktar á líffræðilega fjölbreytni og landslag Íslands.  En sé það eindreginn vilji ráðuneytis og Alþingis að hafa sérlög um landgræðslu, vistheimt og sjálfbæra nýtingu gróðurs eins og hér er lagt upp með þarf að leggja meiri áherslu á endurheimtarþáttinn með smávægilegum breytingum á frumvarpsdrögunum (sjá sértækar athugasemdir, hér fyrir neðan).

Kæruréttur almennings og samtaka hans í málum er varða umhverfið er að mati Landverndar rýr á Íslandi og telur Landvernd enn fulla ástæðu til þess að hnykkja á honum í þessum lögum. Þá er brýnt að ábyrgð á og eftirlit með neikvæðum afleiðingum landgræðslu eins og útbreiðsla ágengra framandi tegunda sé skýrð.  Nánar er fjallað um þetta í umsögn Landverndar frá 19. Mars 2017.

Í frumvarpið vantar kafla sambærilegan við IV. kafla frumvarps um skóga og skógrækt. Sá kafli fjallar um skógrækt á lögbýlum. Að mati Landverndar væri eðlilegt að eigendur lögbýla gætu gert samning við Landgræðsluna um að gerast “landgræðslubændur” eða “mýrarbændur” og fengu stofnkostnað greiddan eins og skógræktarbændur vegna aðgerða í þágu landgræðslu, gróðurverndar og endurheimtar vistkerfa. Vissulega taka margir bændur þátt í verkefninu „Bændur græða landið“ þar sem til kemur ríkisstyrkur, en mikilvægt er að mati Landverndar að raungera þetta atriði í lögum líkt og fyrir skógrækt og að endurgreiðslur úr ríkissjóði séu að fullu sambærilegar.  Í stað 8. greinar (eða til viðbótar) er því lagt til að komi ný grein á sem yrði sambærileg við 10 gr. frumvarps til skógræktarlaga: “Landgræðslan skal veita framlög til landgræðslu, verndar, endurheimtar, og eflingar vistkerfa á lögbýlum eftir því sem fjárlög kveða á um hverju sinni.” Síðan kæmu greinar sambærilegar við 11., 12., 13., 14. og 15. gr. í frv. til skógræktarlaga, þ.e. um samninga, samningsrof, kostnaðarþátttöku og endurgreiðslu kostnaðar.

Sértækar athugasemdir

1. Breyta þarf titli laganna í Lög um landgræðslu og endurheimt vistkerfa, sbr. 3. gr (eða Lög um landgræðslu, sjálfbæra nýtingu og endurheimt vistkerfa). Þetta mundi leggja áherslu á endurheimt visterkerfa í starfi Landgræðslunnar. Hinn möguleikinn, en mun síðri að mati Landverndar, er að breyta skilgreiningu á hugtakinu “landgræðsla” þannig að það innifeli endurheimt. Núverandi skilgreining gerir það ekki nema með góðum vilja lesanda (sjá 3. lið).

2. Landvernd leggur til að lið a í 3. gr. laganna verði breytt í: a. byggja upp og endurheimta röskuð vistkerfi landsins, þ.m.t. votlendi, og líffræðilega fjölbreytni þeirra. Þetta er til þess að leggja áherslu á það að Landgræðslan hefur hlutverki að gegna í endurheimt votlendis sem hingað til hefur lítt verið áberandi í starfssemi stofnunarinnar en er nú mun viðameira.

3. Í 4. gr. um orðskýringar er rétt að bæta við dæmum annað hvort á skýringunni á endurheimt eða landgræðslu (sjá 1. lið).  Landvernd þykir ekki skýrt í núverandi skilgreiningu á landgræðslu að endurheimt raskaðra vistkerfa falli þar undir. Mætti vera: Landgræðsla: Samheiti… ..leiðarljósi, svo sem stöðvun hraðfara jarðvegseyðingar, uppgræðsla örfoka lands og endurheimt votlendis.

4. Í 5. gr þarf að bæta við orðunum “og endurheimt vistkerfa” eftir orðinu “landgræðslu í lið a., b. og c.

Spyrja má hvort krafa í lögum um háskólapróf landgræðslustjóra á málefnasviði Landgræðslunnar (5. gr.) sé of takmarkandi til hún sé bundin í lög. Fáir eru á fagsviðinu og mjög mikilvægt að hæfur stjórnandi gegni starfinu. Landvernd bendir á til dæmis nýlega ráðningu dýralæknis í embætti forstjóra Vegagerðarinnar og leggur til eftrifarandi breytingu: Ráðherra skipar forstöðumann Landgræðslunnar…..senn. Æskilegt er að hann hafi háskólagráðu á málefnasviði stofnunarinnar

5. Í 6. gr. þarf að breyta titli í “Áætlun um landgræðslu og endurheimt vistkerfa” og bæta við orðunum “og endurheimt vistkerfa” eftir orðinu “landgræðslu” í annarri setningu, 1. mgr. Landvernd ítrekar þá skoðun sína að mikilvægt sé að fulltrúi náttúruverndarsamtaka sitji í verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar eins og hún er skilgreind í 6. gr. frumvarpsdraganna. Þá ber að taka fram í 6. gr. að áætlunin fylgi markmiðum náttúruverndarlaga.

6. Sama athugasemd og fyrr á við um titil 7. gr. “Svæðisáætlanir um landgræðslu og endurheimt vistkerfa”.

7. Titill III. kafla verði “Stuðningur við landgræðslu og endurheimt vistkerfa”, 8. grein (fyrsta grein III. kafla) verði: “Landgræðslan skal veita framlög til landgræðslu, verndar, endurheimtar, og eflingar vistkerfa á lögbýlum eftir því sem fjárlög kveða á um hverju sinni.”  Á eftir kæmu fimm nýjar greinar sambærilegar við greinar 11 til 15 í V. kafla frumvarps til skógræktarlaga um “Skógrækt á lögbýlum”, sjá inngang hér að ofan. 

8. Seinni mgr. 14. greinar verður óþörf ef bætt er við kafla um “Landgræðslu og endurheimt vistkerfa á lögbýlum”, eins og lagt er til í 7. lið.

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Landverndar

Auður Önnu Magnúsdóttir

framkvæmdastjóri

Umsögn til niðurhals

Óboðlegt sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Landvernd skilaði umsögn um rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis Kaldvíkur hf. í Seyðisfirði með allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa af laxi. Umhverfisáhrif af opnu sjókvíaeldi eru mikil, ...
Lesa meira

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Óboðlegt sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Landvernd skilaði umsögn um rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis Kaldvíkur hf. í Seyðisfirði með allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa af laxi. Umhverfisáhrif af opnu sjókvíaeldi eru mikil, ...
Lesa meira

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.