Reykjavík 17. mars 2019
Umsögn Landverndar um breyting á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013 mál S-74/2019
Stjórn Landverndar lýsir yfir eindregnum stuðningi við breytingarnar sem lagðar eru til hér varðandi grundvallarrétt almennings til að ferðast frjáls um náttúru Íslands, svokallaðan almannarétt. Svipað fyrirkomulag er uppi í nágrannalöndum okkar þar sem einstaklingum er heimil för um land annarra á meðan þeir hvorki skemma né trufla á ferð sinni. Hér er um að ræða nauðsynlega heimild til þess að landsmenn geti kynnst landi sínu og náttúru óhindrað.
Landvernd telur að vel hafi tekist til við að leggja til takmarkanir á hópferðum um eignalönd en jafnframt tryggja rétt einstaklinga og ferðafélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni til þess að njóta náttúru landsins og hafa óhindraðan aðgang að henni. Ljóst er að frekari vinna þarf að eiga sér stað við þessi lög og önnur til þess að taka á miklum fjölda og ágangi ferðamanna á viðkvæmum náttúrusvæðum en hér er um að ræða gott innlegg.
Landvernd þakkar Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fyrir að leggja til þessar þörfu breytingar á náttúruverndarlögum. Stjórn Landverndar bendir á að fleiri breytinga er þörf á lögunum. Sérstaklega er þörf á því að skýra hvaða „brýna nauðsyn“ það er sem réttlætir brot á þeim.
Virðingarfyllst
f.h. stjórnar Landverndar
Auður Önnu Magnúsdóttir
framkvæmdastjóri