Með tölvupósti þann 7. október síðastliðinn óskaði nefndasvið Alþingis eftir umsögn Landverndar um ofangreinda þingsályktunartillögu. Stjórn Landverndar fagnar tillögunni, styður hana heilshugar og tekur undir þann rökstuðning sem kemur fram í greinargerð með henni.
Landvernd eru samtök sem voru stofnuð fyrir 50 árum til þess að berjast gegn gróður- og jarðvegseyðingu á Íslandi sem þá var gríðarstór vandi. Vandinn er enn stór í dag þótt umtalsverður árangur hafi náðst í endurheimt landgæða, landgræðslu og skógrækt. Lausaganga búfjár á stóran þátt í gróður- og jarðvegseyðingu á Íslandi og kemur í veg fyrir að land í hnignun endurheimtist. Því er afar brýnt að stýring landnýtingar í sauðfjárrækt á Íslandi sé í lagi, að hún sé fagleg, nútímaleg, gagnsæ og hafi almannahagsmuni að leiðarljósi.
Í riti Ólafs Arnalds Á röngunni (Rit LbhÍ nr. 118) kemur fram að landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt sem ætlað var að tryggja sjálfbæra landnýtingu hefur ekki virkað sem skyldi í nokkrum tilfellum. Þar kemur fram að greiðslur sem hvetja eiga bændur til þess að stunda sjálfbæra landnýtingu virka ekki sem hvatar heldur eru inntar af hendi til allra sem þær sækja, óháð því hvort landnýtingin er sjálfbær eða ekki. Samkvæmt riti Ólafs, er eingöngu um að ræða minnihluta bænda sem fá greiðslurnar án þess að landnýting sé sjálfbær en mjög brýnt er að laga kerfið þannig að það virki eins og það var hugsað: sem hvati til sjálfbærrar landnýtingar. Sem betur fer virðast skilyrði um sjálfbæra landnýtingu vera uppfyllt af megin þorra bænda, en sá minnihluti sem ekki uppfyllir skilyrðin kastar rýrð á alla þá sem stunda sauðfjárrækt.
Landvernd vill ganga lengra í þingsályktunartillögunni og leggur til að nefndinni verði einnig falið að leita skýringa á því hvernig það kom til að Landgræðslunni var gert að votta landnotkun sem sjálfbæra, þrátt fyrir að stofnunin hefði tekið skýrt fram að ekki væri um sjálfbæra landnotkun að ræða í ákveðnum tilvikum. Þetta er hvorki traustvekjandi né fagleg stjórnsýsla og Alþingi ætti hið minnsta að fá skýringar á því þegar svo óeðililegum stjórnsýsluháttum er beitt. Landvernd leggur því til að við þingsályktunartillöguna verði bætt:
„Þá verði nefndinni falið að kanna ástæður þess að Landgræðslunni var gert að votta landnotkun sem sjálfbæra þvert á faglega úttekt stofnunarinnar.“
Stjórn Landverndar telur að almannafé hafi verið ráðstafað á skjön við lög og eðlilega stjórnsýsluhætti í gegnum landnýtingarþátt gæðastýringar í sauðfjárrækt og hefur sent ábendingu ásamt Náttúruverndarsamtökum Íslands til Ríkisendurskoðanda í 7. liðum um efnið (sjá viðhengt) sem ekki hefur verið svarað.
Hafa má samband við undirritaða vegna málsins með tölvupósti á tölvupóstfangið audur@landvernd.is eða í síma 8435370.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Landverndar,
Auður Önnu Magnúsdóttir,
framkvæmdastjóri.
Fylgiskjal: Ábending Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands til Ríkisendurskoðanda dags. 28. ágúst 2019