Umsögn Landverndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021, 5. mál send Nefndarsviði Alþingis.
Stjórn Landvernd hefur kynnt sér greinar 1, 5-8, 10 og 27 og kafla XVIII í framangreindu frumvarpi og vill koma á framfæri nokkrum athugasemdum.
Kolefnisgjald
Eins og komið hefur fram í mörgum umsögnum Landverndar telur stjórn samtakanna að hátt kolefnisgjald sé nauðsynleg og réttlát leið til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar er mengunarbótareglan (poluter pays principle) virkjuð. Auk þess hafa alþjóðastofnanir og nágranalönd okkar sýnt fram á að hátt kolefnisgjald virkar vel án þess að hafa neikvæð áhrif á efnahaginn. Kolefnisgjald í Svíþjóð hefur haft mjög jákvæð áhrif á samdrátt í losun án þess að hafa neikvæð áhrif á efnahaginn1. Sama má segja um British Columbia í Kanada2. Loftslagsráð Danmerkur telur hátt kolefnisgjald lykilaðgerð til að ná markmiðum landsins um 70% samdrátt í losun GHL fyrir árið 20303. Nýleg rannsókn sýnir að í þeim löndum sem kolefnisgjald hefur verið notað hefur það ekki haft neikvæð áhrif á efnahaginn4. Þá hafa OECD5 og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn6 gefið út að kolefnisgjaldið verði að hækka til þess að ná Parísarsamkomulaginu. Samkvæmt viðmiðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður að tvö- til þrefalda það hér til þess að það hafi tilætluð áhrif. Kosturinn við það er einnig að hátt kolefnisgjald nær til langflestra geira og hægt er að tryggja að tekjulágir hópar beri ekki óeðlilega háar byrðar með því að dreifa gjaldinu aftur til íbúanna.
Í þessu frumvarpi er lagt til að kolefnisgjald á eldsneyti (1. gr.) og gjald vegna losunar gróðurhúsalofttegunda utan ETS (27. gr.) hækki eingöngu um 2,5%. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 5% frá því í desember 2018 þegar gjaldið var síðast hækkað7. Þessi hækkun nú heldur því ekki einu sinni í við verðlagsþróun.
Stjórn Landverndar leggur til að kolefnisgjald verði hækkað í skrefum þannig að það verði 2x-3x fyrir árið 2023. Það er, upp í 20-30 kr/L bensíns, og annað eldsneyti til samræmis skv. 1. gr. , og losunargjald skv. 27. gr. verði 7-10.000. Þessar aðgerðir eru lágmark til þess að kolefnisgjald skili raunverulegum árangri. Þá hvetur Landvernd stjórnvöld til þess að deila gjaldinu aftur út til almennings þannig að ekki verði um tekjustofn ríkisins að ræða. Í fyrsta skrefinu leggur Landvernd til að kolefnisgjald verði hækkað úr 10 kr. í 15 fyrir bensín og til samræmis fyrir annað eldsneyti í 1. grein frumvarpsins og að losunargjald verði hækkað í 4600 kr./tonn í 27. grein frumvarpsins vegna ársins 2021.
Vöru-, olíu- og kílómetragjald
Landvernd styður boðaðar hækkanir á vörugjöldum á eldsneyti (5. og 6. gr.) og á olíu- og kílómetragjaldi (7. og 8. gr.) en bendir á að þær eru ekki í takt við vísitölu neysluverðs eins og farið var yfir hér að ofan og ættu því að hækka meira.
Bifreiðagjald
Stjórn Landverndar telur nauðsynlegt að hækka bifreiðagjald meira en lagt er til í 10. gr til þess að hraða orkuskiptum í samgöngum. Landvernd hefur lagt til að innflutningur á bensín- og díselbílum verði bannaður frá árinu 2023 til þess að bannið skili árangri á skuldbindingartímabili Parísarsáttmálans en ekki frá árinu 2030 eins og stefnt er að í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Nýjir bílar eru amk. 10 ár í notkun frá því að þeir eru keyptir. Landvernd leggur til að tölurnar í 10. gr. verði hækkaðar um 30% og að stefnt verði að 30% hækkun til viðbótar á næsta ári.
Úrvinnslugjald og urðunarskattur
Landvernd styður boðaðar hækkanir á úrvinnslugjaldi í og telur að þær styðji við innleiðingu hringrásarhagkerfisins.
Stjórn Landverndar telur mjög alvarlegt að horfið hafi verið frá hugmyndum um urðunarskatt. Urðunasskattur átti að draga úr losun um 28 þúsund tonn á ári og átti að koma til framkvæmda strax. Í ljósi þess á hversu veikum grunnið aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hvílir nú þegar er mjög alvarlegt að ríkisstjórnin skuli sjálf hætta við boðaðar aðgerðir hennar. Aðgerðaáætlunin er nú þegar veik vegna of bjartsýnnar grunnsviðsmyndar, skorts á pólitískri sýn, veikrar stjórnsýslu og skorts á þvingandi aðgerðum. Ríkisstjórnin hefur sjálf ákveðið að hætta við sínar eigin aðgerðir í sinni eigin aðgerðaáætlun örfáum mánuðum eftir að hún var sett fram. Með þessu veikir ríkisstjórnin afar brothætta áætlun ekki bara vegna þess að nú þurfa þessi 28 þúsund tonn að koma annarsstaðar frá heldur líka því þetta grefur undan trúverðugleika áætlunarinnar. Eins og rakið er í grein formans Ungra umhverfissinna um málið höfðu öll andmæli komið fram löngu áður en aðgerðaáætlunin var sett fram8 og því rökin um mótmæli Sorpu og sveitafélaganna haldlítil. Hvaða aðgerðir í loftslagsmálum hefur ríkisstjórnin hugsað sér að standa við?
Lokaorð
Mikilvægt er að hækka kolefnisgjald og bifreiðagjöld. Stjórn Landverndar telur að stjórnvöld verið að skýra hvernig urðunarskattur hvarf úr áætlunum stjórnvalda. Þá mætti einnig skoða margskonar aðra umhverfisskatta og auðlindagjöld eins og til dæmis á leyfi til sjókvíaeldis.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Landverndar
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri