Stjórn Landverndar hefur kynnt sér frumvarp til laga um brottfall laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Landvernd leggst eindregið gegn frumvarpinu.
Í svari ráðuneytisins með tölvubréfi 4. nóvember sl. kemur fram að ekki liggi fyrir nákvæmlega hvaða þætti ráðherra hyggst endurskoða og að gert sé ráð fyrir að stofnaður verði starfshópur sem fari vandlega yfir þær athugasemdir sem bárust bæði ráðuneytinu og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þegar frumvarpið var í vinnslu þar. Starfshópurinn muni síðan skila tillögum til ráðherra um hvað ætti að endurskoða. Einnig kemur fram að verið sé að skoða hvernig best sé að skipa starfshópinn og hvaða tímaramma hann eigi að hafa til að skila tillögum (fylgiskjal I).
Það er krafa stjórnar Landverndar að settur verði tímarammi fyrir endurskoðun laganna ef til hennar kemur og gefið út fyrirfram hvaða þætti þeirra eigi að endurskoða. Þá krefst Landvernd þess að umhverfis- og náttúruverndarsamtök og jafnframt útivistarsamtök eigi fulltrúa í fyrrnefndum starfshópi, auk þess sem nauðsynlegt er að sérfræðingar á sviði náttúruvísinda, bæði líffræði og jarðfræði, auk sérfræðinga á sviði landslags og/eða víðerna eigi sæti í starfshópnum.