Teigsskógur er einstakt svæði þar sem náttúrulegur birkiskógur mætir fjöru, landvernd.is

Umsögn um Kerfisáætlun Landsnets 2018-2027

Landvernd hafnar háspennulínum á óbyggðum víðernum, miðhálendi Íslands og við náttúruminjar sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Landvernd hefur kynnt sér drög að kerfisáætlun Landsnets 2018-2027. Landvernd þakkar veittann frest til þess að skila umsögn.

Ný vefvæn uppsetning á kerfisáætlun er þægileg yfirlestrar og vill Landvernd hrósa Landsneti fyrir góða og aðgengilega uppsetningu. Í umsögnum er þó erfitt er að vitna í einstaka kafla hennar þar sem hefðbundin blaðsíðutöl vantar og leggur Landvernd til að köflum verði gefin númeruð heiti í næstu áætlun.

Eins og Landvernd benti á í umsögn sinni um síðustu kerfisáætlun getur Landsnet ekki gengið gegn málefnasamningi ríkisstjórnarinnar þar sem línulögnum yfir miðhálendið er hafnað og stefnt að stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Engir valkosta Landsnets sem gera ráð fyrir hverskonar línulögnum yfir hálendið eru því viðeigandi. Ekki er ljóst hvers vegna Landsnet heldur sig enn við línulagnir á miðhálendinu þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um þetta.

Mikið aukin raforkuþörf sem gert er ráð fyrir í kerfisáætlun er byggð á hæpnum forsendum eins og Landvernd fór einnig yfir í síðustu umsögn sinni. 

Þá er Landsnet hvatt til þess að láta af hræðsluáróðri sínum um yfirvofandi rafmagnsskort til almennings.  Eins og fyrirtækinu er vel kunnugt um kaupa stórnotendur 80% þeirrar raforku sem til er í landinu. Langtímaáætlun Landsnets um styrkingu raforkukerfisins byggist að mestu leyti á því að tryggja tengingu stóriðju við amk. tvær virkjanir eða að stórefla flutningsgetu til þéttbýliskjarna vegna þess að stóriðja á svæðinu hefur sogað til sín mestalla flutningsgetuna.  Dæmi um hið síðarnefnda er 220 kV loftlína frá Hólasandi að Akureyri.

Landvernd þykir ekki sýnt fram á að brýnir almannahagsmunir krefjist þess að vernduðum svæðum og vistgerðum sé raskað vegna styrkingar flutningskerfis raforku og leggur því til við Landsnet að flutningskerfið verði styrkt án þess að til þessháttar rasks komi.  Í því sambandi má benda Landsneti á samantekt Landverndar um virkjun vindorku á Íslandi en þar er greinagóð lýsing á þeim svæðum og vistgerðum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum. 

Landvernd telur að hugmyndir um uppbyggingu flutningskerfis á suðvesturhorninu eigi að bíða vegna óvissu með stóriðjuframkvæmdir á svæðinu.  Núverandi kerfisáætlun ber keim af gömlum draumum um stóriðju á Suðurnesjum og stækkun álversins í Straumsvík.  Spara má framkvæmdafé með því að bíða með þessar framkvæmdir og styrkja til dæmis flutningskerfið á Vestfjörðum í staðin.

Til allra þessara þátta ber Landsneti að líta við gerð nýrrar kerfisáætlunar.

Sviðsmyndir

Landsnet notast við raforkuspá orkuspárnefndar við útreikning á grunnforsendum við áætlun á flutningsþörf til framtíðar. Mynd 1-1 í langtímaáætlun er í besta falli villandi.  Þar er gert ráð fyrir því að aukin áhersla á umhverfismál haldist í hendur við aukna raforkunotkun. Þetta er fjarri lagi en eins og Landvernd benti á í umsögn sinni um kerfisáætlun 2018-2027 fylgja því sem nefnt er „hægar framfarir“ ekki lítil áhersla á umhverfismál og sviðsmyndin „græn framtíð“ er algjört rangnefni eða eins og segir umsögn Landverndar:  

„Ef að Græn framtíð ætti að vera raunverulega græn framtíð þá þarf hún ekki einungis að gera ráð fyrir aukinn rafvæðingu heldur einnig stórtækum orkusparnaði […..] Ennfremur skortir sviðsmynd þar sem orkusparnaður er í fyrirrúmi, í aukinni orkunýtni eru fólgnar miklar og mikilvægar framfarir.   Mikilvægt er að Ísland átti sig á því að sú rafmagnsframleiðsla sem nú þegar á sér stað á Íslandi er svo gríðalega há og tími til þess að huga að því að hámarka nýtnina á nýtingu hennar.   Landvernd gangrýnir að starfshópur varðandi sviðsmyndirnar um raforkunotkun sé ekki þverfaglegri en raun ber vitni en ofangreindar athugasemdir hefðu án efa komið til tals ef fulltrúar fleiri hópa hefðu unnið greininguna.  “

Þá gerir Landvernd enn athugasemd við sviðsmyndina aukna stórnotkun þar sem Landsnet virðist gera ráð fyrir því að um verði að ræða nýtingu allra valkosta úr orkunýtingarflokki rammáætlunar sem Landvernd hefur ítrekað bent á, getur ekki verið forsenda.

Landvernd vekur athygli á því að spá orkuspánefndar nær til ársins 2050 en kerfisáætlun skal ná til ársins 2028. Landsnet er skuldbundið samkvæmt lögum (1. tl. 2. mgr. 9. gr. a, laga nr. 65/2003) að gefa út kerfisáætlun með langtímaspá sem nær til tíu ára og þriggja ára framkvæmdaáætlunar. Landvernd leggur áherslu á að Landsnet fari að lögum og að kerfisáætlun endurspegli raunhæfa sýn og þörf á uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi næstu tíu árin, en ekki næstu 32 ár.

Flutningsgeta

Landsneti og öðrum fróðum aðilum er ljóst að mest álag á flutningskerfið er vegna stóriðju þar sem hún kaupir 80% af allri raforkuframleiðslu.  Skýringar á slælegu afhendingaröryggi eru í flestum tilfellum utan Vestfjarða oflöstun vegna stórra virkjana sem flytja rafmagn frá svæðinu (til dæmis Suðurnes) eða vegna stórra iðjuvera sem fá rafmagn flutt til sín (til dæmis Eyjafjörður).  Landsnet sem fyrirtæki í eigu almennings ætti að sjá sóma sinn í því að taka þetta skýrt fram í allri umfjöllun um afhendingaröryggi og ætti alls ekki að hafa frumkvæði að hræðsluáróðri eins og fyrirtækið stóð fyrir í tengslum við ársfund sinn þar sem talað var um skert þjóðaröryggi.  Ef dregið hefur úr þjóðaröryggi vegna lítillar flutningsgetu raforkukerfisins þarf að tengja það beint við orsakavaldinn: stóriðju.

Vegna almennrar raforkunotkunar um landið, það er allrar annarrar notkunar en stóriðju, er ljóst að 132 kV duga vel.  Í umfjöllun Landsnet um spennustig er þessa ekki getið og ljóst er að sjónræn áhrif 132 kV lína eru mun minni en 220 kV.  Landsnet þarf því að rökstyðja betur þörfina á 220 kV línum.  Hið minnsta verður Landsnet að tala skýrt við almenning um ástæður þess að fyrirtækið telur þörf á 220kV línum en þær eru mikil notkun stórnotenda á rafmagni.

­Það er villandi að nota nafngiftina “byggðalína” um þá framkvæmd að tengja saman stærstu virkjanir landsins og stórnotendur í eitt net.  Svokölluð byggðalína liggur í óbyggðum á mörgum köflum og ætti því að fá annað nafn. 

Vindorka

Umfjöllun Landsnets um vindorku og mögulega uppbyggingu vegna virkjunar hennar er ágæt.  Landvernd telur þó að hún sé ótímabær þar sem engin leyfi hafi verið veitt fyrir þess háttar uppbyggingu.  Þá þykir Landvernd áætlanir Landsnets um uppbyggingu vindorku fullkomlega óraunhæfar þar sem engin þörf er á svo umfangsmikilli orkuframleiðslu í fyrirsjáanlegri framtíð. 

Landvernd vísar í umræðu um spá um raforkunotkun kallaða “græn framtíð” og “aukin stórnotkun” í umsögn sinni um síðustu kerfisáætlun).  Stórir raforkukaupendur á suðvesturhorninu gætu sjálfir nýtt afgangsvarma sem hlýst af starfsemi þeirra mun betur en nú ert gert.  Ef til þessa kemur hefur það mikil áhrif á álagsdreifingu raforkukerfisins og því ætti Landsnet að sjá hverju fram vindur.

Norður og norðausturland

Landvernd vísar í umsögn sína um frummatsskýrslu Hólasandslínu 3 frá 21. desember 2018.  Landvernd telur að lagning 220 kV loftlínu um votlendi sem njóta verndar skv. náttúruverndarlögum og um verndarvæði Laxár og Mývatns,sé komi ekki til greina.  Um er að ræða flutning raforku inn á svæði þar sem orkufrek stóriðja notar mun meira rafmagn en allir aðrir notendur samtals á svæðinu.  Lagning þessarar línu er því tilkomin vegna ásælni stóriðju í rafmagn en ekki vegna þarfa almennings og annarrar starfsemi.  Fyrirhugað rask í tengslum við Hólasandslínu 3 er því ekki réttlætanlegt í þeirri mynd sem Landsnet leggur til.

Þá hvetur Landvernd Landsnet til þess að skoða vandlega alla kosti vegna Blöndulínu 3 en vitað er að fjölmargir íbúar á svæðinu sem fyrirhuguð lína liggur um eru henni andsnúnir.  Það sama gildir um landeigendur og mun lagning línunnar mæta mikilli andstöðu.  Þá er Landsnet hvatt til þess að huga vel að því í nafni hvaða hagsmuna þessi lína á að rísa. 

Vestfirðir

Landvernd bendir Landsneti á skýrslu sem samtökin létu gera um bætt raforkuöryggi á Vestfjörðum sem finna má á heimasíðu samtakanna.  Þar kemur fram að straumleysismínútum á Vestfjörðum má fækka verulega með lagningu jarðstrengja á bilanagjörnustu leiðunum. 

Landvernd brýnir fyrir Landsneti að virða hlutverk sitt sem fyrirtæki í eigu almennings og að gæta að almannahagsmunum.  Í skýrslu Landsnets um afhendingaröryggi á Vestfjörðum virðist Landsnet hafa dottið í gryfju stjórnmálamanna að tala óskýrt og undir rós um hluti sem fyrirtækið ræddi áður um á skýran hátt.  Margt bendir til þess að Hvalárvirkjun sé rekstrarlega óhagkvæm án fjárhagslegarar innspýtingar frá almennum raforkunotendum og að virkjunin breyti litlu um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum þar sem langflestar bilanir hafa orðið vestan við fyrirhugað tengivirki í Kollafirði. Þá má telja að að tenging við Ísafjörð um ráðgerðan tengipunkt í Djúpinu sé tæknilega óraunhæf vegna takmarkana á notkun jarðstrengja á leiðinni.  Landvernd hvetur fyrirtækið til þess að tala skýrt um þessi mál og taka ábyrga faglega afstöðu en ekki láta stjórnast af pólitískum þrýstingi.

Langtímaáætlun um þróun meginflutningskerfisin

Landvernd ítrekar umsögn sína um síðustu kerfisáætlun

  • Áhrif kerfisáætlunar á atvinnuuppbyggingu:  Landsnet gerir ekki skýra grein fyrir hvernig hún finnur út jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og hvaða forsendur liggja þar að baki.   Hér virðist að mestu leyti litið til áhrifa af kerfisáætlun á stórnotendur raforku og þá sérstaklega (mengandi) stóriðju.  Landvernd er sammála því að öruggara flutningskerfi skiptir miklu máli fyrir afkomu stóriðju og áhrif af kerfisáætlun á þann þátt atvinnulífs eru jákvæð.  Aðrir geirar atvinnulífsins finna ekki eins mikið fyrir afhendingaröryggi raforku í sinni afkomu og því er hæpið að halda því fram að áhrif af kefisáætlun á atvinnuppbyggingu almennt séu verulega jákvæð eins og Landsnet heldur fram í flestum af þeim kostum sem boðið er upp á í kerfisáætlun 2018-2027. Í umhverfisskýrslu er nefnt að ,,Valkostir A og B falla að áformum um atvinnuupbyggingu í viðkomandi landshlutum sem felast að mestu leyti í iðjuverum, gagnaverum og orkuöflun“. Undarlegt verður að teljast að áhrif á atvinnuuppbyggingu séu talin svo jákvæð þegar aðeins lítil prósenta vinnuafls í landinu starfar við þennan geira og óskar Landvernd eftir frekari rökstuðningi fyrir þeirri flokkun. Landvernd ítrekar ábendingu sína um að ekki stendur til af hálfu stjórnvalda að fara í neina uppbyggingu á stóriðju á Íslandi á næstu árum. Hefur stefna stjórnvalda í auknum mæli færst frá slíkum fjárfestingum með þeim skattaívilnunum sem eru forsenda þeirra.“

Ekki er hægt að sjá að um sé að ræða stóraukin áhrif á atvinnuuppbyggingu almennt að tengja risavirkjanir og stóriðju í öflugt net eins og langtímaáætlun gerir ráð fyrir.  Skýrt þarf að koma fram að  stóriðja og risavirkjanir hafi dregið úr afhendingaröryggi til dæmis á Suðunesjum og í Eyjafirði á sl. árum til þess að ljóst sé hverjar ástæðurnar fyrir því að ráðast á í svo stórtækar línulagnir eins og Landsnet leggur til í langtímaáætlun sinni.  Aukið afhendingaröryggi skiptir máli fyrir almenna atvinnuuppbyggingu á landinu en ekki þannig að það sé ráðandi þáttur. Hins vegar þjónar aukið afhendingaröryggi eins og það er skipulagt hér, fyrst og fremst  stóriðju og stóriðja dregur úr afhendingaröryggi annarra notenda. Því verður Landsnet að endurskoða töflu 1-1 í umhverfisskýrslu. 

Langtímaáætlun -umhverfisskýrsla

Eins og áður sagði er Landsneti ekki stætt á því að leggja fram línukosti sem liggja um miðhálendið vegna málefnasamnings ríkisstjórnarinnar.  Því ætti Landsnet að fjarlæga þá kosti eins og Landvernd benti á í umsögn sinni frá 15. júlí 2018. Það eru allir kostir á hálendisleið A án alls efa, allir kostir á Byggðaleið B sem mætti þó etv. lagfæra og kostur C -lykilfjárfestingar á leið Kröflulínu 3. 

Gildi Landslags

Ferðafólk, innlent og erlent, metur áhrif loftlína og mastra á landslag mjög neikvætt fyrir óbyggða/hálendisupplifun sína. Landsnet metur gildi landslags fyrir leiðir B og C heilt yfir hafa miðlungs gildi.  Fyrir þessu vantar rökstuðning en landslag utan miðhálendisins getur haft mikið gildi og gerir það á þeim leiðum sem Landsnet leggur til að raska.  Því þarf Landsnet að skýra nánar hvernig landslagsheildir á leiðum B og C eru metnar.

Í umhverfisskýrslu segir:

„Meginmarkmið landsskipulagsstefnu 2015-2026 um skipulag á miðhálendi Íslands er að staðinn verði vörður um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist. Uppbygging innviða á miðhálendinu taki mið af sérstöðu þess. Auk þess skal viðhaldið sérkennum og náttúrugæðum miðhálendisins með áherslu á verndun víðerna og landslagsheilda. (Skipulagsstofnun, 2016).

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fjallað um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og styrkingar flutningskerfis raforku án þess að ráðast í línulagnir á hálendinu.“

Þessi atriði ættu að nægja til þess að Landsnet taki út alla valkosti A þar sem þeir samræmast í engu þeim stefnum og markmiðum sem þarna eru nefnd.  Að mati Landverndar ætti því að færa mikilvægi landslags fyrir kosti B og C upp í „hátt“ en að falla frá öllum kostum A vegna áhrifa þeirra á miðhálendið sem stjórnvöld ætla sér að standa vörð um. Þetta er í samræmi við lýsingu á Einkennum áhrifa í töflu 7.3

Þá er ekki útskýrt í umhverfisskýrslu hvernig eftirfarandi er ákvarðað:

„Við útreikning á skerðingu valkosta er miðað við 5 km til hvorrar handar frá loftlínum og 3 km til hvorrar handar frá jarðstrengjum.“

Landvernd telur rétt að fram komi útskýring á þessum kílómetratölum en háspennumöstur sjást í landslaginu úr mun meiri fjarlægð en 5 km og skerða gildi þess og víðernisupplifun verulega þegar víðsýni er mikil eins og á leiðum yfir miðhálendið.  Meðaltalið 5 km er of mikil einföldun og þarf að leggja mun meira í þessa útreikninga þar sem um er að ræða ein umdeildustu áhrif loftlína á umhverfið.  

Jarðminjar

Matsþættir sem Landsnet leggur til grundvallar á gildi jarðminja á áhrifasvæðum línuleiða í langtímaáætun eru fráleitir þegar um er að ræða svo stórar framkvæmdir.  Til þess að hafa hátt gildi þarf meirihluti áhrifasvæðisins að vera undir skv. töflu 7.7. en þar sem allir valkostir, A, B og C snúast um mjög langar línuleiðir og mjög fjölbreytt svæði sem línur fara um getur gildi jarðminja sem á að raska verið mjög mikið þó að leiðin liggi einnig um svæði sem ekki búa yfir verðmætum  jarðminjum.  Þetta mat þarf því að endurskoða í grunnin og draga þarf úr gildi heildarstærðar áhrifasvæðis á mikilvægi.

Þá er eins og áður sagði mikil áhrif af öllum þessum framkvæmdum þar sem til dæmis  Kröflulína 3 fer yfir einstakar jarðmyndanir, hraun frá nútíma sem njóta verndar.  Brot á náttúruverndarlögum fyrir framkvæmdir sem torvelt er að sjá að séu til þess að tryggja almannahag eiga í engu samhengi að teljast lítil eða að hafa miðlungsáhrif.   

Lífríki

Það sama gildir hér og um jarðminjar: heildarstærð svæðisins sem er undir getur ekki verið grundvöllur fyrir því að meta gildi svæðisins.  Sem dæmi þá munu bæði Kröflulína 3 og Hólasandslína 3 raska votlendi sem nýtur verndar skv. lögum og það votlendi missir ekki gildi sitt af því að áhrif línanna eru metnar sem hluti af stærri heild.  Hér þarf að dýpka mjög greiningu og skoðun á umhverfisáhrifum.

Loftslag

Landvernd vill hrósa Landsneti fyrir góða samantekt á áhrifum starfseminnar á hamfarahlýnun og fyrir að innifela þetta verða málefni í mati á umhverfisáhrifum. 

Þó þykir Landvernd rýr umræða í umhverfisskýrslu um mótvægisaðgerðir vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og hvetja samtökin Landsnet til þess að gera betur að ári.

Rétt er að benda Landsneti á að margar af þeim framkvæmdum sem Landsnet hyggst fara í í trássi við náttúruverndarlög, svo sem eins og rask á votlendum, þarf líka að taka inn í reikninginn á kolefnisspori framkvæmda Landsnets.   Í umhverfisskýrslu segir:

„Ekki liggja fyrir forsendur til þess að reikna losun frá votlendi þar sem aðstæður eru mjög mismunandi.“

Hér ber að beita varúðarreglu og líta til mestu mögulegrar losunar.  Landsneti er bent á að vera í sambandi við Votlendissjóð, Landbúnaðarháskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Verkfræðistofuna Eflu eða Landgræðsluna til þess að fá mat á þeirri losun sem fyrirtækið mun valda með raski á votlendi.

Kolefnisspor valkosta C vantar í töflu 7.19

Atvinnuuppbygging

Landvernd vísar í fyrri umsögn, væntanlega friðlýsing á landi Dranga og nú síðast kæra Landeigenda Drangavíkur á deiliskipulag og framkvæmdaleyfi.

Með því að leggja bilanagjörnustu línurnar á Vestfjörðrum í jörð má ná niður fyrirvaralausum straumleysismínútum umtalsvert.  Árin 2017 og 2018 var ein einasta truflun vegna veðurs valdandi 70% og 80% fyrirvaralausra straumleysismínútna hvort ár. Þó er ljóst að hringtenging og/eða lítillega aukin raforkuframleiðsla á svæðinu þarf að koma til til þess að afhendingaröryggi á svæðinu verði bætt svo um munar.  Fyrirhuguð Hvalárvirkjun er hvorki nægjanlegt né nauðsynlegt skilyrði til þess að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum og langt frá því að þá gríðarlegu eyðileggingu náttúruminja sem henni fylgir megi réttlæta með því.

Því leggur Landvernd til að tengipunktur í Djúpi verði tekin af framkvæmdaáætlun.

Norðausturland

Landvernd vísar í umsagnir sínar um frummatsskýrslur Kröflulínu 3 dags 5. maí 2017 og Hólasandslínu 3 dags. 21. des 2018

Mótvægisaðgerðir -umhverfisskýrsla

Hér vantar alla umfjöllun. 

Lokaorð

Landvernd hefur á undanförnum árum skilað umfangsmiklum athugasemdum við kerfisáætlun Landsnet.  Sjaldnast er brugðist við ábendingum Landverndar og næstum aldrei þannig að þess sjáist merki í næstu kerfisáætlun á eftir.  Stjórn Landverndar er því hugsi yfir tilgangi árlegrar umsagnar samtakanna við kerfisáætlun Landsnets sem kostar samtökin fjármuni sem munar um vegna smæðar samtakanna.  Landsnet mætti sýna þess einhver merki að umsagnir Landverndar hafi verið lesnar. Á meðan viðbrögð fyrirtækisins við athugasemdum Landverndar er eingöngu hægt að ná fram með kærumálum er óljóst hver tilgangur með umsögnum er.  Landvernd lýsir því eftir efnislegum viðbrögðum við framangreindum athugasemdum og ábendingum.

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Landverndar,

Auður Magnúsdóttir

framkvæmdastjóri

Sækja umsögn Landverndar


Umsögn Landverndar um kerfisáætlun 2018-2027 dags. 15. júlí 2018

Virkjun vindorku – stefna og leiðbeiningar Landverndar

https://landvernd.is/alyktanir-samthykktar-a-adalfundi-landverndar-2019

Metsco skýrslan

Stefánsson, Þ. et al. (2017) Energy research and Social Science 34, 82-92 https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S2214629617302037?via%3Dihub

https://www.ni.is/greinar/vf-drangajokull

https://www.ruv.is/frett/telja-hvalarvirkjun-midast-vid-rong-landamerki

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.