Verndum náttúruna, landvernd.is

Umsögn um kerfisáætlun Landsnets 2018-2027

Almennt má segja að orðið hafi forsendubrestur frá fyrri kerfisáætlunum Landsnets, sem gerir það að verkum að endurgera þarf nýja kerfisáætlun að verulegu leyti með tilliti til breyttra tíma, auk þess sem kerfisáætlun 2017 var ekki samþykkt af Orkustofnun.

Landvernd hefur kynnt sér drög að kerfisáætlun Landsnets 2018-2027. Að þessu sinni hefur Landsnet skipt umfjöllun sinni upp í fimm skjöl: 1, langtímaáætlun til 10 ára; 2. framkvæmdaáætlun til þriggja ára; 3. umhverfisskýrslu; 4. viðauka með umhverfisskýrslu; og loks 5, mat á þjóðhagslegri arðsemi. Í umsögn sinni mun Landvernd vísa almennt til þessarra skjala sem  „kerfisáætlunar“ þar sem við á.

Landvernd telur að til þess að tryggja góða og sanngjarna umfjöllun um kerfisáætlun ætti Landsnet að kynna hana á öðrum tíma en um mitt sumar eða gefa lengri frest til að skila inn umsögnum.

Almennt má segja að orðið hafi forsendubrestur frá fyrri kerfisáætlunum Landsnets, sem gerir það að verkum að endurgera þarf nýja kerfisáætlun að verulegu leyti með tilliti til breyttra tíma, auk þess sem kerfisáætlun 2017 var ekki samþykkt af Orkustofnun. Sem dæmi má nefna að ríkisstjórnin hefur samþykkt í málefnasamningi sínum að hafna línulögnum yfir miðhálendið  og stofna miðhálendisþjóðgarð. Engir valkosta Landsnets sem gera ráð fyrir hverskonar línulögnum yfir hálendið eru því viðeigandi lengur.

Landsnet kemst heldur ekki lengur hjá því að framkvæma mat á umhverfisáhrifum jarðstrengja en með nýsamþykktri þingsályktun Alþingis er ljóst að stjórnvöld leggja meiri áherslu á að jarðstrengjakostur sé skoðaður raunhæft. Þá styðja dómarHæstaréttar vegna Suðurnesjalínu (dómar 511, 512, 513 og 541/2015) sömu niðurstöðu.

Sviðsmyndir sem styðja við mikið aukna raforkuþörf eru einnig hæpnar eins og gert verður grein fyrir í umsögninni.

Loks er minnkandi þörf fyrir flutning rafmagns á Suðurnesjum en nýkjörin bæjarstjórn hefur hafnað mengandi stóriðju í Helguvík.

Til allra þessarra þátta ber Landsneti að líta við gerð nýrrar kerfisáætlunar.

Valkostamat svæðisbundna flutningskerfisins

Fyrsta athugasemd Landverndar að þessu sinni varðar það að umfjöllun Landsnets í kerfisáætlun sinni og umhverfisskýrslu með henni er ekki að finna neina umfjöllun um valkosti áætlunar í svokölluðu svæðisbundnu flutningskerfi.

Landvernd bendir á að skv. lögum nr. 105/2006 er það fortakslaust skilyrði, enda eitt af meginhlutverkum umhverfismats áætlana, að settir séu fram valkostir, og að áhrif þeirra á umhverfi séu metnir. Hangir þetta saman við það meginhlutverk umhverfismats áætlana að valinn sé sá áætlunarkostur sem minnst neikvæð áhrif hefur á umhverfið.

Þannig segir í f-lið 2. mgr. laga nr. 105/2006 að í umhverfisskýrslu áætlunar skuli vera:

skilgreining, lýsing og mat á líklegum verulegum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar og raunhæfra valkosta við áætlunina, að teknu tilliti til markmiða með gerð áætlunarinnar og landfræðilegs umfangs hennar.

Í skýrslunni skal einnig gefa yfirlit um ástæður þess að kostirnir, sem um er að ræða, voru valdir og lýsing á því hvernig matið fór fram, þ.m.t. um erfiðleika, svo sem tæknilega erfiðleika og skort á upplýsingum eða þekkingu við að taka saman þær upplýsingar sem krafist var.

Þrátt fyrir að Landsnet hafi notast við hugtökin svæðisbundið flutningskerfi og meginflutningskerfi undanfarið í kerfisáætlunum sínum, eru þau hugtök ekki skýrð í lögum. Landvernd bendir á að skv. mynd 8.1. í umhverfisskýrslu kerfisáætlunar sbr. einnig mynd 3.1 í langtímaáætlun kerfisáætlunar virðist sem að Landsnet líti á tengingar við stórnotendur sem hluta svæðisbundna flutningskerfisins eða a.mk. að umfjöllun um þetta tvennt heyri saman. Í upphafi kafla 3 í langtímaætlun kerfisáætlunar er svæðisbundið flutningskerfi skilgreint neikvætt sem ”samnefnari fyrir þann hluta flutningskerfisins sem ekki telst til meginflutningskerfisins“. Landvernd telur að varlega beri að fara í notkun hugtaka á sviði raforkuflutnings, sem ekki hafa lagastoð eða eru skilgreind í lögum.

Óháð ofangreindu er sá annmarki á kerfisáætlun Landsnets að í 3. kafla langtímaáætlunar hennar er gerð ítarleg grein fyrir uppbyggingu s.k svæðisbundins flutningskerfis fyrirtækisins, án þess að þar eða í umhverfisskýrslu sé á neinn hátt gerð grein fyrir þeim valkostum sem fyrir hendi gætu verið til slíkrar uppbyggingar.

Á bls. 54 í umhverfisskýrslu kerfisáætlunar segir að úrbótaverkefnin í svæðisbundna flutningskerfinu séu á því stigi að ekki hafi verið gerð ítarleg valkostagreining eða unnið mat á umhverfisáhrifum fyrir þau en það verði gert þegar og ef ákveðið verður að fara lengra með greiningu á viðkomandi verkefni. Landvernd sér þess ekki stað í kerfisáætlun að neina valkostagreining hafi farið fram í tengslum við áætlanir um uppbyggingu svæðisbundna flutningskerfisins og þá mat á áhrifum þeirra valkosta. Landvernd ítrekar að umhverfismat áætlana er annars eðlis en umhverfismat framkvæmda. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar kemur ekki í stað mats á umhverfisáhrifum áætlunar, líkt og Landvernd hefur margsinnis bent Landsneti á á umliðnum árum. Það er því ekki unnt að sleppa umhverfismati áætlunar um uppbyggingu svæðisbundins flutningskerfis með vísan til þess að síðar muni fara fram umhverfismat framkvæmda.

Landvernd telur lög ekki standa til þess að umhverfismat valkosta fari einungis fram á s.k. meginflutningskerfi Landsnets en ekki á s.k. svæðisbundnu flutningskerfi þess.

Þessi skortur á framsetningu valkosta í langtímaáætlun um uppbyggingu svæðisbundna flutningskerfisins er skv. ofangreindu í ósamræmi við lög nr. 105/2006. Úr þessu þarf að bæta áður er kerfisáætlun teldist umhverfismetin í skilningi laga og mætti leggja fyrir Orkustofnun til synjunar eða staðfestingar.

Sviðsmyndir

Landsnet notast við raforkuspá orkuspárnefndar við útreikning á grunnforsendum við áætlun á flutningsþörf til framtíðar. Landvernd vekur athygli á því að spá hennar nær til ársins 2050 en kerfisáætlun skal ná til ársins 2027. Landsnet er skuldbundið samkvæmt lögum (1. tl. 2. mgr. 9. gr. a, laga nr. 65/2003) að gefa út kerfisáætlun með langtímaspá sem nær til tíu ára og þriggja ára framkvæmdaáætlunar. Landvernd leggur áherslu á að Landsnet fari að lögum og að kerfisáætlun endurspegli raunhæfa sýn og þörf á uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi næstu tíu árin, en ekki næstu 32 ár.

Landvernd gerir athugasemd við sviðsmyndirnar aukna stórnotkun og Græn framtíð.

  • Aukin stórnotkungerir ráð fyrir um 9.300GWh meiri orkuþörf en raforkuspá orkuspárnefndar til ársins 2050. Á hvaða forsendum er slík sviðsmynd? Þarna lítur út fyrir að í raun sé verið  að gera ráð fyrir nýtingu valkosta úr orkunýtingarflokki rammaáætlunar, þó það sé ekki orðað, sem eins og Landvernd hefur ítrekað bent á, er ekki hægt að nota sem forsendu. Til viðbótar við þetta hefur forstjóri Landsvirkjunar lýst því yfir að framundan sé ótímabundið framkvæmdahlé hjá fyrirtækinu og því ekki þörf á aukinni flutningsgetu eins og sakir standa. Er þetta raunhæf sviðsmynd eins og lög gera ráð fyrir að sett sé fram?
  • Græn framtíð: Ef gert er ráð fyrir því að til þess að draga losun gróðurhúsalofttegunda verði samfélagið auknu mæli rafvætt verður einnig að gera ráð fyrir stórfelldum orkusparnaði.  Landvernd  gerir athugasemd við heitið á sviðsmyndinni „Græn framtíð“ en það er ekki græn framtíð sem gerir ráð fyrir aukningu á rafmagnsnotkun þónokkuð yfir raforkuspá.   Í löndunum sem við berum okkur saman við hefur verið gerð orkustefna til framtíðar, þar sem skýrt er kveðið á um það hversu orkusparnaður er mikilvægur. Þar má til dæmis nefna 202020 markmið Evrópubandalagsins varðandi orkusparnað, losun á gróðurhúsaloftegundum og sjálfbæra orku.     Í Noregi geta fyrirtæki með háa raforkunotkun fengið styrki til þess að auka nýtni á raforkunotkun sinni. Ef að Græn framtíð ætti að vera raunverulega græn framtíð þá þarf hún ekki einungis að gera ráð fyrir aukinn rafvæðingu heldur einnig stórtækum orkusparnaði

Landvernd þykir því ekki að raunhæft sé að styðjast við sviðsmyndirnar aukin stórnoktun eða græn framtíð. Ennfremur skortir sviðsmynd þar sem orkusparnaður er í fyrirrúmi, í aukinni orkunýtni eru fólgnar miklar og mikilvægar framfarir.   Mikilvægt er að Ísland átti sig á því að sú rafmagnsframleiðsla sem nú þegar á sér stað á Íslandi er svo gríðalega há  og tími til þess að huga að því að hámarka nýtnina á nýtingu hennar.   Landvernd gangrýnir að starfshópur varðandi sviðsmyndirnar um raforkunotkun sé ekki þverfaglegri en raun ber vitni en ofangreindar athugasemdir hefðu án efa komið til tals ef fulltrúar fleiri hópa hefðu unnið greininguna. 

Skortur á skýrum forsendum

Landvernd hefur ítrekað bent á í umsögnum sínum um fyrri kerfisáætlanir Landsnets að forsendur mats á áhrifum af kerfisáætluninni séu ekki nógu vel skýrðar og að ekki komi fram með skýrum hætti hvernig niðurstöður um áhrifin voru fengnar.  Til þess að nefna nokkur atriði:

  1. Áhrif kerfisáætlunar á lífríki: hvernig eru þessi áhrif metin, hvaða svæði og vistgerðir liggja til grundvallar matinu? Þetta kemur ekki fram í umhverfisskýrslu og nauðsynlegt fyrir umsagnaraðila að fá aðgang að grunngögnum sem liggja að baki matinu.
  2. Áhrif kerfisáætlunar á ferðaþjónustu: Hvaða svæði eru skoðuð og hvaða þættir ákvarða áhrif kerfisáætlunar. Allt of mikið gert úr óvissu þarna og mjög erfitt að sjá hvernig þetta er metið fyrir svona viðamikla aðgerð. 
  3. Áhrif kerfisáætlnunar á atvinnuuppbyggingu:  Landsnet gerir ekki skýra grein fyrir hvernig hún finnur út jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og hvaða forsendur liggja þar að baki.   Hér virðist að mestu leyti litið til áhrifa af kerfisáætlun á stórnotendur raforku og þá sérstaklega (mengandi) stóriðju.  Landvernd er sammála því að öruggara flutningskerfi skiptir miklu máli fyrir afkomu stóriðju og áhrif af kerfisáætlun á þann þátt atvinnulífs eru jákvæð.  Aðrir geirar atvinnulífsins finna ekki eins mikið fyrir afhendingaröryggi raforku í sinni afkomu og því er hæpið að halda því fram að áhrif af kefisáætlun á atvinnuppbyggingu almennt séu verulega jákvæð eins og Landsnet heldur fram í flestum af þeim kostum sem boðið er upp á í kerfisáætlun 2018-2027. Í umhverfisskýrslu er nefnt að ,,Valkostir A og B falla að áformum um atvinnuupbyggingu í viðkomandi landshlutum sem felast að mestu leyti í iðjuverum, gagnaverum og orkuöflun“. Undarlegt verður að teljast að áhrif á atvinnuuppbyggingu séu talin svo jákvæð þegar aðeins lítil prósenta vinnuafls í landinu starfar við þennan geira og óskar Landvernd eftir frekari rökstuðningi fyrir þeirri flokkun. Landvernd ítrekar ábendingu sína um að ekki stendur til af hálfu stjórnvalda að fara í neina uppbyggingu á stóriðju á Íslandi á næstu árum. Hefur stefna stjórnvalda í auknum mæli færst frá slíkum fjárfestingum með þeim skattaívilnunum sem eru forsenda þeirra.
  4. Enn vantar á að Landsnet setji fram rökstuðning fyrir hámarksvegalengd jarðstrengja á hverri leið. Á bls 78 í kerfisáætlun er sýnt kort með hámarksvegalengd jarðstrengja á hverju svæði, en engar útskýringar eru um hvað liggi að baki þessum hámarkslengdum. Landvernd gerir athugasemd við þetta og vill fá í hendurnar matið sem liggur að baki  niðurstöðum fyrirtækisins um hámarksvegalend jarðstrengja í einstökum tilvikum.
  5. Tekið er fram í kerfisáætlun að allir valkostir (aðrir en núllkostur) feli í sér nauðsynlegar framkvæmdir á suðvesturhorninu þar sem að kerfisrannsóknir sýni að þær leiðir krefjist styrkinga. Er þetta raunhæft þar sem nýr meirihluti í Reykjanesbæ hafnar mengandi stóriðju í bænum? Hverjum er verið að útvega orku? Það vantar að skýra forsendur fyrir því að þessi styrking er sett inn í alla valkosti kerfisáætlunar þrátt fyrir að allt bendi til þess að orkufrekur iðnaður á suðvesturhorninu sé alls ekki í vexti.

Mikið gert úr óvissu – stundum

Landvernd þykir þó nokkuð mikið gert úr óvissu þegar áhrif kerfisáætlunar eru neikvæð eins og í tilfelli ferðaþjónustu (bls. 47 í umhverfisskýrslu) og ósnortinna víðerna (bls. 19 í umhverfisskýrslu).

Áhrif af A leiðinni væru til dæmis að öllum líkindum alltaf mjög neikvæð fyrir ferðaþjónustu og mjög mikil á framkvæmdatíma og þá jafnvel óafturkræf vegna þeirrar rýrnunar sem ímynd landsins sem ósnortinnar náttúruperlu yrði fyrir. Landsnet metur áhrif á ferðaþjónustu fyrir A leiðir óverulegar þar sem jarðstrengur er nýttur að mjög litlu leyti en eftir standa mun lengri kaflar með loftlínum (nema fyrir A1 DC) sem hafa ótvírætt neikvæð áhrif á ímynd landsins sem náttúrperlu og þar með fyrir ferðaþjónustu.

Landvernd hafnar því að enn sé notast við gagnagrunn Umhverfisstofnunar um ósnortin víðerni við útreikning á skerðingu víðerna. Sett er fram tafla þar sem gagnagrunni Umhverfisstofnunar og tillögu að nýrri aðferðarfræði á útreikningi á skerðingu víðerna er stillt upp.  Gagnagrunnur Umhverfisstofnunar hefur enga lagastoð og getur því ekki verið forsenda umhverfismats og er hann fráleitt í samræmi við núgildandi náttúruverndarlög. Skýrslan með tillögum að nýrri aðferðafræði við skerðingu víðerna sem vísað er til er tilraunaverkefni. Lagaskylda er  að miða  við skilgreiningu náttúruverndarlaga í þessu tilliti, sem eru mjög skýr:

„Svæði í óbyggðum sem er að jafnaði a.m.k. 25 km 2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja og í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum”. (19.tl. 5.gr. laga 60/2013)

Óbyggð víðerni eru þannig ekki aðeins skilgreind með vísan til stærðar og fjarlægðar heldur einnig huglægri upplifun, eins og kemur fram í lögskýringargögnum. Landsnet verður að halda til haga þessari skilgreiningu og er skylt að nota hana sem forsendu fyrir mati á skerðingu þessara verðmæta, sem njóta sérstakrar verndar í nýjum náttúruverndarlögum á meðan annað hefur ekki verið samþykkt.

Landvernd leggur því áherslu á að annað mat verði að leggja á víðerni en í þessum gögnum er að finna. Þau geta ekki talist vísindalegur grunnur undir umhverfismat áætlunar, að mati Landverndar. Samanburðurinn í töflu 6.3 á bls. 20 er samkvæmt þessu ónothæf, að mati Landverndar.

Miðhálendið og friðlýst svæði

Á blaðsíðu 20 í umhverfisskýrslu segir

“Í ljósi þess að báðir meginvalkostir um styrkingu meginflutningskerfisins fela í sér byggingu nýrra raflína, ýmist loftlína eða jarðstrengja innan skilgreindrar miðhálendislínu, þá er ákveðin óvissa um hvernig stefnumörkun ríkisstjórnar og metinna valkosta í kerfisáætlun fara saman.”

Stefnt er að stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og nú þegar er búið er að setja á laggirnar faghóp um stofnun um miðhálendisþjóðgarðs auk þess sem til stendur að setja saman óháðan faghóp til að gera sjálstæðar og óháðar greiningar á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að aukið hlutfall flutningskerfis raforku verði lagt í jörð. Í nýsamþykktri þingsályktun nr. 26/148 um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku er tekið fram að óháð sérfræðingateymi í jarðstrengjagreiningu verði sett á laggirnar og að ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið.

Það er óábyrgt hjá Landsneti að leggja fram kosti sem ganga þvert á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og þar með leggja til að framkvæmdarvaldið gangi á bak orða sinna sem koma fram í stjórnarsáttmálanum. Það er sérstaklega óábyrgt að bjóða eingöngu upp á þannig kosti í 10 ára áætlun. Landvernd fellst ekki á það að um sé að ræða „ákveðna óvissu um hvernig stefnumörkun ríkisstjórnar“ og kerfisáætlun fer saman: það er full ljóst að þetta fer ekki saman. Þó er ljóst að með litlum tilfæringum mætti útfæra til dæmis kost B2 þannig að hann falli ekki innan miðhálendisþjóðgarðs en allir A kostirnir eru í raun útilokaðir frá byrjun vegna þessa.  Nefnd um miðhálendisþjóðgarð er nú tekin til starfa og hennar fyrsta verk verður að útfæra atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn en nefndin mun einnig leggja til mörk þjóðgarðsins.  Mörk hans eru því óskilgreind og rétt að bíða með allar hugmyndir um framkvæmdir á hálendi Íslands þar til nefndin hefur skilað af sér tillögum um bæði atvinnustefnu og skilgreindum mörkum þjóðgarðs.  Af þessu má sjá að Landsneti er ekki stætt að setja upp kerfisáætlun sem er þvert á vilja og stefnu stjórnvalda.

Þá leggur Landsnet til að flutningskerfið fari yfir friðlýst svæði og raski vistkerfum sem njóta verndar eins og segir til dæmis á bls. 30 í umhverfisskýrslu

“Gert er ráð fyrir í öllum valkostum að flutningskerfi muni liggja yfir farveg Laxár, sem tilheyrir friðlýstu svæði Mývatns og Laxár, og yfir farveg Jökulsár á Fjöllum, sem tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði og fólkvang í Glerárdal, en þessi þrjú svæði eru friðlýst m.a. vegna lífríkis.”

Landvernd þykir ekki sýnt fram á að brýnir almannahagsmunir krefjist þess að vernduðum svæðum og vistgerðum sé raskað vegna styrkingar flutningskerfis raforku og leggur því til við Landsnet að flutningskerfið verði styrkt án þess að til þessháttar rasks komi.  Í því sambandi má benda Landsneti á samantekt Landverndar um virkjun vindorku á Íslandi en þar er greinagóð lýsing á þeim svæðum og vistgerðum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum. 

Umhverfismat vegna jarðstrengja

Ekki er framkvæmt umhverfismat vegna jarðstrengja í kerfisáætlun heldur eingöngu notast við vísbendingar, eða eins og segir orðrétt í kerfisáætlun: ,,* Áhrif m.t.t. mögulegra jarðstrengja. Umfang þeirra er óljóst og áhrifamatið fyrst og fremst vísbending.“. Þrátt fyrir að Landsnet tali nú um að ákvarðanir um jarðstrengi verði teknar á framkvæmdastiginu þá myndi aukið gagnsæi og ítarlegri upplýsingar sem komast til hagaðila og almennings leiða af því ef gróft umhverfismat jarðstrengja lægi fyrir og myndi það hjálpa til við upplýsta ákvarðanatöku. Landvernd ítrekar því áherslur sínar á það að framkvæmt sé gróft umhverfismat á jarðstrengjum til jafns við loftlínur í kerfisáætlun Landsnets.

Þjóðhagslegur kostnaður – mat Landsnets ófullnægjandi

Í kafla 2 bls. 3 í Mati á þjóðhagslegri arðsemi uppbyggingar flutningskerfis tekur Landsnet fram að ,,…áhrifin á umhverfið séu ekki metin til kostnaðar…  Hinn óbeini ogt óáþreifanlegi kostnaður sem lagt er mat á er eftirfarandi: 1. Flutningstakmarkanir í meginflutningskerfinu þar sem afhending raforku er skert vegna þess að flutningskerfið annar ekki notkuninni 2. Skert framleiðslu virkjana vegna flutningstakmarkana 3. Rekstrartruflanir”

Landvernd ítrekar, frá fyrri athugasemdum sínum vegna kerfisáætlunar 2016-2025, að það er rangt af Landsneti að líta ekki til hins óbeina kostnaðar sem felst í umhverfiskostnaði vegna framkvæmda fyrirtækisins, en það hefur fyrirtækið ekki gert í útreikningi á þjóðhagslegum kostnaði. Í Frjálsri verslun, 3. tbl. 2015, fjallar Dr. Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands um þetta atriði, sérlega það umhverfistjón sem hlýst af loftlínum á þjóðarhag, en Landsnet hefur ekki metið það hingað til, og er það tilefni gagnrýni Dr. Ragnars. Dr. Ragnar segir m.a.: „Afleiðingarnar [af því að reikna ekki út fjárhagslegt tjón af loftlínum] eru annars vegar þær að vera kann að ýmsar raflínulagnir Landsnets séu beinlínis þjóðhagslega óhagkvæmar…Gera verður þá kröfu til opinberra fyrirtækja að þau leitist ávallt við að haga starfi sínu í samræmi við þjóðarhag…Með því að Landsnet hefur kosið að taka umhverfistjón af framkvæmdum sínum ekki með í reikninginn hefur fyrirtækið í raun ákveðið að skeyta ekki um þjóðarhag í starfi sínu.“ Landvernd telur það afar gagnrýnivert að þjóðhagslegur kostnaður skuli ekki metinn í samræmi við viðurkenndar og vísindalegar aðferðir og að umhverfiskostnaður sé ekki reiknaður. Í því samhengi þarf að líta bæði til loftlína og jarðstrengja og mögulegrar mismunandi útkomu þeirrar útfærslu. Þar getur munað talsvert miklu, ekki síst ef litið er til áhrifa á ferðaþjónustu. Uppfyllir kerfisáætlun ekki ákvæði raforkulaga nema þessa umfjöllun sé þar að finna.

Framkvæmdaáætlun 2018-2020

Landvernd fagnar útsjónarsemi Landsnets í því að samnýta framkvæmdir Vegagarðarinnar við línulagnir eins og þegar leggja á jarðstreng um Dýrafjarðargöng. Landvernd fagnar einnig þeim fyrirvörum sem oft hefur skort í framkvæmdaáætlun Landsnets hingað til um að umhverfismati sé ólokið og framkvæmdin geti/muni taka breytingum í því ferli. 

Nefna má að nú eru á framkvæmdaáætlun línulagnir sem hafa enn ekki verið umhverfismetnar, hvað þá að sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi fyrir þeim en ljóst er til dæmis viðamiklar framkvæmdir á suðurfjörðum Vestfjarða munu þurfa að fara í umhverfismat, sem lýkur með ákvörðun eða höfnun framkvæmdaleyfis.  Það ferli er tímafrekt og mætti Landsnet gera grein fyrir því í umfjöllun sinni.  Áætlað er að hefja framkvæmdir um mitt ár 2020 og Landsnet þarf að halda vel á spöðunum til þess að sú áætlun standist. Skorar Landvernd á Landsnet að endurskoða tímasetningar í framkvæmdaáætlun sinni og setja upp fyrir hverja framkvæmd sem hún setur í áætlunina tímasettar áætlanir um hvert skref umhverfismats sem eftir er varðandi hverja framkvæmd, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir tíma vegna mögulegra kærumála þar sem við á, þegar metin hefur verið áhættan af þeim. Í þessu samhengi vill Landvernd benda á að sumar þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar eru á næstu árum af hálfu Landsnets, auk þeirra sem hafnar eru, hafa verið umdeildar og spurning er um hversu vel var vandað til forsendna og valkostaumfjöllunar á fyrri stigum umhverfismats í þessum tilvikum. Af sjálfu leiðir að líklegra er að þau framkvæmdaáform fari í uppnám vegna kærumála en áform sem fengið hafa vandaða málsmeðferð allt frá áætlanastigi.

Landvernd boðar umsagnir um framkvæmdir í framkvæmdaáætlun á síðari stigum, eins og um frummatsskýrslu umhverfismats Suðurnesjalínu 2.

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Landverndar,

Auður Magnúsdóttir

framkvæmdastjóri


Ítarefni

http://www.visir.is/g/2018180219051

https://landvernd.is/virkjun-vindorku/

Sækja umsögn Landverndar

Draumórar um óheftan vöxt fiskeldis

Stjórn Landverndar telur skýrslu Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi vera draumóra fiskeldisiðnaðarins og í raun gagnlítið plagg. Mjög alvarlegt er …

Lesa meira
Mengun frá kolaveri erlendis

Breytingar á lögum um loftslagsmál

Aðgerðir í loftslagsmálum eru sameiginlegt verkefni allra landsmanna og við sem samfélag þurfum að fá þær bestu upplýsingar sem fáanlegar eru til þess að meta hvað eru skynsamlegar og góðar ákvarðanir um aðgerðir. Nauðsynlegt er að almenningur hafi aðgang að þeim greiningum og gögnum sem loftslagsráð leggur til grunndvallar í sinni ákvarðanatöku.

Lesa meira

Svæðisskipulag Suðurhálendisins

Stjórn Landverndar leggst alfarið gegn áformum um þá miklu uppbyggingu vegamannvirkja á Suðurhálendinu sem koma fram í tillögu að svæðisskipulagi.

Lesa meira

Draumórar um óheftan vöxt fiskeldis

Stjórn Landverndar telur skýrslu Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi vera draumóra fiskeldisiðnaðarins og í raun gagnlítið plagg. Mjög alvarlegt er …

Lesa meira
Mengun frá kolaveri erlendis

Breytingar á lögum um loftslagsmál

Aðgerðir í loftslagsmálum eru sameiginlegt verkefni allra landsmanna og við sem samfélag þurfum að fá þær bestu upplýsingar sem fáanlegar eru til þess að meta hvað eru skynsamlegar og góðar ákvarðanir um aðgerðir. Nauðsynlegt er að almenningur hafi aðgang að þeim greiningum og gögnum sem loftslagsráð leggur til grunndvallar í sinni ákvarðanatöku.

Lesa meira

Svæðisskipulag Suðurhálendisins

Stjórn Landverndar leggst alfarið gegn áformum um þá miklu uppbyggingu vegamannvirkja á Suðurhálendinu sem koma fram í tillögu að svæðisskipulagi.

Lesa meira

Áform um stórtækan útflutning efnis af hafsbotni

Að mati Landverndar er efnistaka upp á 2 milljónir tonna óraunhæf og í andstöðu við markmiðið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda næstu tvo áratugina.

Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif. 

Scroll to Top