Stjórn Landverndar hefur kynnt sér þingsályktunartillögu um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs. Landvernd tekur undir tillöguna og leggur til að hún verði samþykkt.
Í sameiginlegri umsögn þrettán náttúruverndarsamtaka á Íslandi, þ.m.t. Landverndar, um drög að þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu landssvæða frá nóvember 2011 kemur fram sá vilji samtakanna að miðhálendi Íslands verði friðlýst með stofnun þjóðgarðsi. Í umsögninni segir m.a. (bls. 17):
„Mörg og sterk rök hníga að slíkri friðlýsingu; sérstök náttúra sem Íslendingar bera ábyrgð á, möguleikar til einstakrar upplifunar og hughrifa, og sjálfbær ferðaþjónusta og verðmætasköpun fyrir þjóðina. Útivist í lítt snortinni náttúru er einnig mjög mikilvæg fyrir líkamlega heilsu og vellíðan fólks. Sérstaða og verðmæti svæðisins felast í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss og óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem af mörgum eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu.“
Stjórn Landverndar leggur áherslu á mikilvægi miðhálendisins sem einnar samfelldrar heildar og vill tryggja verndun þeirrar heildar í þágu velferðar okkar og komandi kynslóða. Stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs, með Þjórsárver í suðri, Kerlingarfjöll í vestri, Guðlaugstungur, Orravatnsrústir og jökulvötn Skagafjarðar í norðri, auk annarra aðliggjandi svæða eftir samkomulagi væri mikilvægt skref í átt að miðhálendisþjóðgarði, en segja má að fyrsta skrefinu að honum sé þegar náð með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.