Varðliðar umhverfisins 2021

Hvernig hefur þú áhrif á jörðina? Varðliðar umhverfisins er verkefnasamkeppni sem verðlaunar verkefni í þágu náttúrunnar. lanvernd.is
Varðliðar umhverfisins er yfirskrift verkefnasamkeppni grunnskólabarna í 5. til 10. bekk. Sendu inn verkefni fyrir 26. mars 2021.

Verðlaunasamkeppni – Hefur bekkurinn þinn unnið verkefni í þágu jarðarinnar? Sendu inn verkefni fyrir 26. mars. Vegleg verðlaun fyrir bekkinn í boði.

Þverfagleg verkefni sem hafa áhrif út fyrir skólann?

Óskað er eftir verkefnum sem fjalla um umhverfismál í víðum skilningi og hafa jákvæð áhrif á hegðun og viðhorf til umhverfisins, innan skólans og utan. Einnig styrkir verkefnin að þau feli í sér nýja sýn á umhverfismál og hafi sem besta tengingu við nám nemenda og þverfaglegt skólastarf.

Verkefni um sjálfbærni í víðu samhengi

Samkeppnin er tækifæri fyrir nemendur og kennara til að koma á framfæri verkefnum sem þeir fyrrnefndu hafa þegar unnið í skólanum á skólaárinu og eiga skilið aukna athygli. Sömuleiðis er samkeppnin kjörin til að setja í gang verkefnavinnu þar sem sjónum er beint að umhverfismálum sérstaklega. Má í því sambandi benda á aukið vægi loftslagsmála í heiminum en óhætt er að segja að þau ná yfir afar fjölbreytt svið umhverfismála sem mörg hver tengjast með beinum hætti daglegu lífi barna og unglinga, s.s. samgöngum, lífsstíl og neyslu, orkunotkun, matarsóun, fatnaði, úrgangsmálum og svo mætti lengi telja. Ítrekað skal þó að hvers kyns verkefnum um umhverfismál er tekið fagnandi.

Nemendamiðað nám og skapandi skil

Verkefnin mega vera af fjölbreyttum toga, t.d. ritgerðir, ljósmyndir, ljóð, veggspjöld, bæklingar, myndbönd og hljóðverk og geta verið á hvaða formi sem er. Lögð er áhersla á að frumkvæði nemenda sé sýnilegt bæði við undirbúning og úrvinnslu verkefnanna og mikilvægt er að gögn séu unnin af nemendum sjálfum.

Skilafrestur 26. mars 2021

Skilafrestur verkefna er til 26. mars 2021 og þau skal senda umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, merkt ,,Varðliðar umhverfisins” eða rafrænt á netfangið postur(hja)uar.is. Dómnefnd skipuð fulltrúum Umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Landverndar og Miðstöð útivistar og útináms velur úr innsendum verkefnum og útnefnir Varðliða umhverfisins. Allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal og valin verkefni verða verðlaunuð af umhverfis- og auðlindaráðherra í tengslum við Dag umhverfisins 25. apríl.

Ungt fólk hvatt til góðra verka í umhverfisvernd

Varðliðar umhverfisins er yfirskrift verkefnasamkeppni grunnskólabarna í 5. til 10. bekk sem var haldin í fyrsta skipti vorið 2007. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landvernd og Miðstöð útivistar og útináms standa að keppninni

Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði

Lesa um Varðliða umhverfisins á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd