Selur á skeri við ströndina á Íslandi. landvernd.is

Vernd og velferð villtra dýra

Með nýjum lögum um vernd, velferð og veiðar á villtum dýrum kæmist á góður rammi um málefnið. Þó vantar upp á að stjórnunar- og verndaráætlanir gildi fyrir öll spendýr og alveg um veiðar og aðrar nytjar.

Umsögn Landverndar um frumvarp til laga um til laga um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og villtra spendýra send Nefndarsviðið Alþingis 8. febrúar 2021.

Til hefur staðið að endurskoða ofangreind lög um langt árabil. Síðasti starfshópur um endurskoðun lauk störfum 2013 og skilaði af sér viðamikilli skýrslu sem hefur verið núverandi starfshóp um endurskoðun laganna dýrmæt. Stjórn Landverndar fagnar frumvarpinu og styður í meginatriðum þær breytingar sem þau lýsa. Stjórn Landverndar áréttar umsögn sína frá 24. ágúst sl.

Stjórnunar- og verndaráætlanir

Sérstakar stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir alla helstu stofna villtra dýra sem stýritæki ákvarðanatöku telur Landvernd að geti reynst sérstaklega gott tæki fyrir alla aðila. Þær eru líklegar til þess að tryggja faglega ákvarðanatöku á vísindalegum grunni og vítt samráð. Þess vegna er mjög brýnt að lögin víki ekki frá því að stjórnunar- og verndaráætlanir séu gerðar. Til dæmis á að mati Landverndar ekki að binda veiðitímabil í þessi lög. Sem dæmi um vandann við það eru hér athugasemdir við 29. gr. laganna.

1. Frá 20. ágúst til 31. mars: grágæs, heiðagæs.
Þessi veiðitími var settur þegar grágæsin var alger eða nær algerir farfugl, en það hefur breyst. Veturseta grágæsa hér á landi hefur aukist síðustu ár, sérstaklega á Suðurlandi, hugsanlega vegna hagstæðs tíðafars og meira fæðuframboðs samfara aukinni kornrækt. Hætt er við að grágæsir með vetursetu búi við rýran kost þegar líður á veturinn, einkum ef tíðarfar er óhagstætt, og eru þá viðkvæmar fyrir skotveiðum, en veiðar eru stundaðar á þessum fuglum allvíða á Suðurlandi. Auk þess hefur komutími bæði grágæsar og heiðagæsar færst framar, eins og ýmissa annarra fugla og er t.d. meðalkomutími fyrstu grágæsa á árunum 1998-2019 verið 13. mars, en heiðagæsar sömu ár verið 29. mars. Því er nauðsynlegt að þrengja þessar dagsetningar til að endurspegla breytta stöðu. Það er best að gera með lifandi stjórnunar- og verndaráætlunum en ekki með lagabreytingum.

2. Frá 1. september til 31. mars: dílaskarfur, toppskarfur, súla, blesgæs, helsingi, stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, duggönd, skúfönd, hávella, toppönd, rita.
Það þarf að skoða breyttan fartíma ýmissa tegunda á þessum lista, sbr. athugasemd við 29.1. Jafnframt er engin ástæða til að leyfa veiðar á duggönd, bæði er vetrarstofninn lítill, örfá hundruð fugla, auk þess sem tegundin er í hættu. Blesgæs er einnig í hættu og hefur verið friðuð um árabil, en er samt á þessum lista. Engin merki eru um að henni muni fjölga í bráð. Þessi tvö dæmi sýna skýrt að nauðsynlegt er að stýra veiðum í gegnum stjórnunar- og verndaráætlanir en ekki lagasetningu.

3. 3. Frá 1. september til 10. maí: álka, langvía, stuttnefja, teista, lundi.
Stofnstærðir allra þessara fugla eru á niðurleið og í hættu, sérstaklega stendur stuttnefjan höllum fæti. Ekki verður séð fram á að gróðurhúsaháhrifin muni dvína í bráð, en þau eru talin helsta ástæða fyrir fækkun þessara fugla. Það er í valdi okkar mannfólksins að leggja eins mikið af mörkum og við getum, eins og að friða þessa fugla alfarið. Hér er því aftur skýrt dæmi um að vænlegra er að ákvarða veiðitímabil í stjórnunar og verndaráætlunum sem eru endurskoðaðar reglulega frekar en með lagasetningu.

Sjá nánari umfjöllun um stjórnunar- og verndaráætlanir í umsögn Landverndar frá 24. ágúst sl.

Selir og hvalir

Þá hafa engar viðhlítandi skýringar fengist á því hvers vegna selir og hvalir eru undanþegnir frá lögunum þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar úr mörgum áttum. Í greinagerð er getið um að önnur lög og reglur gildi um seli og hvali en þær eru ekki nándar nærri nógu efnismikil og tryggja alls ekki vernd sela og hvala. Nú er því svo komið að íslensk stjórnvöld gefa út veiðheimildir fyrir tegundir í hættu skv. þeim lögum og reglum sem vísað er til í greinagerð. Það væri til mikilla bóta að gera stjórnunar- og verndaráætlanir um þessar tegundir. Landselur er í bráðri útrýmingarhættu og útselur og steypireyður í nokkurri hættu skv. válista náttúrufræðistofnunar um villt spendýr1. Þegar þannig er ástatt er nauðsyn að grípa til þeirra stjórntækja sem tiltæk eru. Við gerð stjórnunar- og verndaráætlana koma fram öll hin ólíku sjónarmið sem varða nýtingu og vernd stofnanna. Líklegt má telja að ef selir og hvalir heyri undir lögin og um þessa stofna verði gerðar faglegar stjórnunar- og verndaráætlanir að betri sátt náist um umgengni manna við þessa stofna. Í umsögn Landverndar frá í ágúst sl. segir um að undanskilja seli og hvali frá lögunum sem áréttast það hér með:

„Stjórn Landverndar sér ekki ástæðu til þess að undanskilja seli og hvali frá þessum lögum þar sem þau ná til einnig til nytjaveiða og leggur til að 2. gr Gildissvið orðist svo:

„Ákvæði laga þessara taka til allra villtra fugla og villtra spendýra á íslensku yfirráðasvæði, hvort sem er á landi eða sjó, innan efnahagslögsögu Íslands.

Trúverðugleiki verndarþáttar laga um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og villtra spendýra er í húfi ef selir og hvalir eru undanskildir. Ef selir og hvalir falla undir lögin, verða gerðar stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir þá þar sem þol stofnanna fyrir veiði er greind sem er afar jákvætt.“

Tegundir í hættu og veiðar og eggjataka

Í lögunum er gert ráð fyrir því að taka megi egg og stunda veiðar á tegundum í hættu. Sjá til dæmis 33. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að heimilt verði að taka egg silfurmáfs, sílamáfs, svartbaks, hvítmáfs og hettumáfs en af þessum tegundum er eingöngu hettumáfur sem ekki telst í hættu.2

Í 48. gr. er svo gert ráð fyrir því að ráðherra geti bannað sölu á veiðifangi og eggjum ef „ef hlutaðeigandi stofn eða tegund þoli ekki slíka sölu með sjálfbærum hætti“. Töluverða eftirfylgni þarf til að meta hvort stofnar þoli veiðar í hagnaðarskyni og auk þess vantar skýra skilgreiningu á sjálfbærni. Því er brýnt að stjórnunar- og verndaráætlanir taki á veiðum og mögulegu sölubanni afurða þar sem þol stofna er metið á faglegan hátt. Þetta á ekki að vera í höndum ráðherra. Þá mætti einnig banna sölu á afurðurðum tegunda í hættu skv. válista Náttúrufræðistofnunar Íslands (allir flokkar nema flokkur LC). Einnig þurfa lögin að taka af skarið með það því hvort leyfa eigi veiðar yfir höfuð ef staða stofna er slæm.

Verndun búsvæða og tenging við náttúruverndarlög

Greinar frumvarpsins um lögfesting válista og fyrirmæli um að veiðar skuli vera sjálfbærar eru tímabærar og mikilvægar og stjórn Landverndar styður þær heilshugar. Hins vegar þyrfti frumvarpið að taka betur á verndun búsvæða dýra í hættu og tenging við náttúruverndarlög þarf að vera skýrari.

Lokaorð

Stjórn Landverndar telur nauðsynlegt að hafa í huga við gerð laga um vernd og veiðar á villtum dýrum að það er engin þörf lengur á að brauðfæða fólk með afurðum þeirra. Dýravernd og líffræðileg fjölbreytni á að vega mjög þungt nú þegar ljóst er að fjöldinn allur af tegundum er í hættu. Annars vísar Landvernd í umsögn sína um frumvarpsdrögin frá 24. ágúst 2020 sem og afar góðar umsagnir Fuglaverndar og Samtaka náttúrustofa við þetta frumvarp.

Ef nánari upplýsinga er óskað, vinsamlega hafið samband við Auði Önnu Magnúsdóttur framkvæmdastjóra Landverndar í síma 8435370.

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Landverndar

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri

Tengt efni

Óboðlegt sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Landvernd skilaði umsögn um rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis Kaldvíkur hf. í Seyðisfirði með allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa af laxi. Umhverfisáhrif af opnu sjókvíaeldi eru mikil, ...
Lesa meira

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Óboðlegt sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Landvernd skilaði umsögn um rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis Kaldvíkur hf. í Seyðisfirði með allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa af laxi. Umhverfisáhrif af opnu sjókvíaeldi eru mikil, ...
Lesa meira

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.