Á Degi umhverfisins útnefndi umhverfisráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir, nemendur úr Grunnskóla Siglufjarðar og Snælandsskóla Varðliða umhverfisins. Þetta er þriðja árið í röð sem Varðliðar umhverfisins eru útnefndir.
Krakkarnir úr árgangi 1997 í Grunnskóla Siglufjarðar sem voru útnefndir Varðliðar umhverfisins hlutu tilnefninguna fyrir verkefnið Jaðrakan. Nemendurnir fylgdust m.a. með ferðum merktra jaðrakana frá Bretlandseyjum til Íslands og tóku þátt í merkingum fugla hér á landi.
Einnig létu nemendurnir sig búsvæði fuglanna varða, s.s. með ályktun um verndun þess. Verkefnið er samstarfsverkefni Grunnskóla
Siglufjarðar og grunnskólabarna í bænum Cobh í Cork á Írlandi og nemendurnir hafa því skrifast á við félaga sína á Írlandi, fengið gögn þaðan og miðlað upplýsingum um stöðu verkefnisins í þeirra eigin skóla.
Nemendur í Hjólaríi Snælandsskóla voru einnig útnefndir Varðliðar umhverfisins. Hjólaríið var sett á laggirnar í reiðhjólaverkstæði haustið 2006. Nemendurnir læra þar viðgerðir á reiðhjólum, þar eru ónýt hjól nýtt sem varahlutir í önnur og afrakstur þess er fjöldi fullbúinna hjóla sem skólinn hefur fært m.a. Rauða krossinum að gjöf. Skólinn hefur í verkefninu orðið sér úti um reiðhjól fyrir bekkjardeildir til að nýta í styttri vettvangs- og skemmtiferðir, nemendur sem ekki eiga reiðhjól geta eignast ódýr hjól auk þess sem kennurum stendur til boða að kaupa hjól. Markmið verkefnisins er m.a. að endurnýta það sem mögulegt er og að nemendur læri að meta reiðhjól sem farartæki.
Varðliðar umhverfisins er verkefnasamkeppni sem umhverfisráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur efndu til í þriðja skipti í ár. Tilgangur keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði.