Villandi framsetning af hálfu Alcan

Alcan dregur ályktanir út frá samanburði á ósamanburðarhæfum gögnum. Framsetning af þessu tagi er ósæmandi hverjum þeim sem vill kenna sig við faglega og málefnalega umræðu.

Villandi framsetning af hálfu Alcan
Alcan heldur úti heimasíðunni www.straumsvik.is sem er eitt helsta málgagn fyrirtækisins í kosningabaráttunni fyrir stækkun álversins í Straumsvík. Á síðunni er að finna villandi framsetningu á gögnum um brennisteinsdíoxíð og heilsuverndarmörk.

Á myndinni hér að ofan, sem tekin er af heimasíðu Alcan, er annarsvegar sett fram ársmeðaltal og hinsvegar heilsuverndarmörk sem sólarhringsgildi. Eins og gefur að skilja er um ósamanburðarhæfar tölur að ræða. Út frá samanburði á ósamanburðarhæfum gögnum dregur Alcan þá ályktun styrkur SO2 hafi árið 2005 verið innan við 1/200 af þeim styrk sem þykir skaðlegur. Framsetning af þessu tagi er ósæmandi hverjum þeim sem vill kenna sig við faglega og málefnalega umræðu. Mikilvægt er að gögn sem eiga að vera almenningi til upplýsinga í aðdraganda kosninga séu faglega rétt sett fram. Því er ekki að fagna af hálfu Alcan í þessu tilfelli.

Einföld samlíking á framsetningu, væru þetta fagleg vinnubrögð?

Sé ökutæki ekið 26.000 km á ári þá er meðalhraði þess á árs grundvelli 3 km/klst. Sé stuðst við aðferðarfræðina sem Alcan notar verður niðurstaðan sú að ökumanni er óhætt að aka 30 sinnum hraðar en hann er vanur að gera án þess að fara yfir hámarkshraðann sem er 90 km/klst.

Niðurstaðan notuð í áberandi auglýsingu
Í heilsíðu auglýsingu Alcan sem birt var í Fréttablaðinu þann 23. mars segir: „Þegar málefnalega er fjallað um sambúð vandaðs álvers og þéttbýlis er í raun ekki deilt um mengun í lofti heldur ásýnd …“ Um brennisteinsdíoxíð segir í auglýsingunni: „Til þess að hafa áhrif á heilsu barna eða fullorðinna þyrfti styrkleiki þess að verða tvöhundruðfalt meiri.“ Ekki er hægt að fallast á að umfjöllun sem byggir á ófaglegri meðhöndlun gagna geti verið málefnaleg. Til þess að bæta gráu ofan á svart þá segir Alcan meðal styrk brennisteinsdíoxíðs á árs grundvelli 2006 hafa verið 0,56 µg/m3 en samkvæmt gögnum Umhverfisstofnunar var meðal styrkurinn, eins og sjá má á mynd hér að neðan, 0,61 µg/m3 á því ári.

Hvað segir reglugerðin?
Viðmiðunarmörk fyrir SO2 eru skilgreind í reglugerð 251/2002. Eins og sjá má á töflunni hér að neðan þá er mikill munur á viðmiðunarmörkum eftir því hvort um skammtímagildi eða langtimagildi er að ræða.


Á myndunum hér að ofan, sem teknar eru af vef Umhverfisstofnunar má sjá sólarhring-, mánaðar- og ársmeðaltöl á brennisteinsoxíði við Hvaleyrarholt árið 2006. Takið eftir því að ekki er sami kvarði á myndinni sem sýnir sólahringsgildið (0-15) og þeirri sem sýnir mánaðar og ársmeðaltöl (0-2). Eins og gefur að skilja eru meiri sveiflur eftir því sem mælingin nær yfir skemmri tíma. Ekki eru til gögn um klukkustundarmeðaltöl en eðli málsins samkæmt væru topparnir hærri á slíku grafi.

Skiptir þetta máli?
Ekki er hægt að draga ályktanir um skammtímamengun út frá gögnum um langtímamengun. Þetta kemur t.d. í ljós við álverið á Reyðarfirði þar sem áætlað er að farið verði yfir 350µg/m3 viðmiðunarmörkin fyrir klukkustundagildi allt að þrisvar sinnum á ári rétt utan við þéttbýlið á Reyðarfirði en skv. reglugerðinni er heimilt að fara allt að 24 sinnum yfir þau mörk. Þegar kemur að reiknuðu ársmeðaltali fer fyrirtækið hinsvegar aldrei yfir sett gróðurverndarmörk sem eru 20µg/m3.

Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

Hér er hægt að hlusta á frétt Ríkisútvarpsins um málið.

Nánar verður greint frá umhverfisáhrifum álversins í Straumsvík á ráðstefnu sem Sólirnar þrjár, kenndar við Straum, Suðurnes og Suðurland, standa fyrir í Hafnarfirði laugardaginn 24. mars.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd
Scroll to Top