Vinir náttúrunnar

Ræða Benedikts Traustasonar formanns Landvarðafélags Íslands sem hann hélt á Hálendishátíð Landverndar 11. október síðastliðinn.

Kæru hátíðargestir

Mikið er gaman að fá að vera með ykkur hér í kvöld og fagna saman hálendinu okkar.

Hálendinu sem okkur þykir svo vænt um.

Hálendinu sem fólk alls staðar að úr heiminum kemur til að njóta.

Hálendinu er og á að vera okkar allra, en er samt ekki sjálfgefið verði þannig áfram.

Hálendinu sem hefði verið átt að vera búið að vernda fyrir löngu.

Mig langar til þess að nýta þetta tækifæri og tala um mál sem stendur mér nærri, verndun hálendisins. Ég hef starfað sem landvörður við að vernda hálendið og þekki það af eigin raun að það eru svo mörg svæði sem þyrfti að vernda.

Sem leiðir okkur að stóra málinu, hálendisþjóðgarði. Það er erfitt að borða fíl í einu lagi og kannski er þjóðgarður sem nær yfir 32% af íslandi svoleiðis fíll. Þó að okkur hérna þætti lítið mál að gleypa svoleiðis bita. Seinast þegar umræðan um hálendisþjóðgarð stóð sem hæst voru hópar sem voru ekki hrifnir af upprunalegu hugmyndinni þjóðgarðinn. Það voru helst hópar úr röðum jeppafólks og bænda. Jeppafólkið var hrætt um að því yrði bannað að keyra vegi og slóða sem það hefur farið um í áratugi. Bændurnir voru hræddir um að þeir fengju ekki að reka fé sitt á fjall og að smalamennskur heyrðu sögunni til. Þó svo að ég sé ekki viss um að þessar áhyggjur hafi endilega verið byggðar á traustum grunni skiptir samt máli að á þær sé hlustað.

Núna hefur verið ákveðið að brytja fílinn í smærri bita. Við heyrum kannski ekki oft af því en á stefnu ríkisstjórnarinnar (ef hún lifir) er að gera alla jökla og friðlýst svæði á hálendinu að þjóðgarði. Göfugt verkefni sem ég hugsa að við hér inni styðjum. En ég ætla að vera alveg hreinskilinn. Ég hugsa að sá róður gæti orðið þungur ef það mun ekki eitthvað breytast. Ef við ætlum að sjá þann þjóðgarð verða að veruleika þá þurfum við að ná betur til þessara hópa sem höfðu seinast áhyggjur. Ef við viljum vernda hálendið til lengri tíma þurfum við meira samtal við þau sem við erum ekki alltaf sammála.

Vigdís Finnbogadóttir er ein af mínum fyrirmyndum í lífinu og ég gleymi því ekki þegar ég hitti hana í fyrsta sinn. Þar sem við stóðum tvö í þjóðleikhúsinu og sameiginlegur vinur kynnti okkur.

Hún leit á mig og sagði: ,,Ert þú vinur náttúrunnar?“.

Ég, frekar stressaður svaraði strax: „já“.

Þá svaraði hún: ,,Þá erum við vinir.“

Og þarna er kannski lítið sannleikskorn sem við getum tekið til okkar

Við verðum kannski ekki alltaf sammála öllum í öllu – og það er bara allt í lagi. Sumum finnst gott mál að keyra á jeppa í gegnum Vonarskarð. Mér finnst það ekki. Aðrir deila um hversu margar kindur eiga að beita hálendið og hvar þær eiga að vera. En við getum samt verið sammála um að við viljum ekki láta malbika Sprengisand, Kjöl og Fjallabaksleið nyrðri. Að við viljum ekki fleiri lúxushótel eins og í Kerlingarfjöllum og að við viljum ekki sundlaug og verslunarkjarna í Landmannalaugum.

Við eigum frekar að einbeita okkur að því sem við erum sammála en ekki eyða öllu púðrinu í það sem okkur greinir á um. Því þessu fólki sem við erum ekki endilega alltaf sammála þykir alveg jafn vænt um hálendið eins og okkur. Ef við getum stækkað og þétt raðirnar þá eigum við miklu meiri séns á að vernda hálendið.

Því það vantar ekki beint virkjanahugmyndir á hálendinu. Eða hugmyndir um raflínur, malbikaða vegi, lúxushótel og þau sem hagnast mest á því að við getum ekki staðið saman eru einmitt fólkið sem á nóg af pening. Fólki sem vill græða á þessari auðlind sem hálendið er. Ef við þekkjum ekki hverjir okkar raunverulegu vinir eru, fólkið sem eru vinir náttúrunnar, þá munum við eiga svo miklu erfiðara með að stoppa fólkið með skjalatöskurnar fullar af seðlum sem vilja leggja háspennulínur, virkjanir og uppbyggða vegi.

Við þurfum að vera tilbúin að vinna með þeim sem við erum ekki alltaf sammála og við verðum hugsa um náttúruvernd eins og vatnið.

Vatnið finnur sér alltaf leið til að seytla fram hjá hindrunum að lokum.

Það þarf náttúruvernd líka að gera.

Ef við erum tilbúin að vinna með þeim sem við erum ekki alltaf sammála og hugsum eins og vatnið þá getum við jafnvel innan tíðar ekki bara fagnað hálendinu, heldur líka verndun þess.

Benedikt Traustason, formaður Landvarðafélags Íslands

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Orkuskiptahermir

Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar. Orkuskiptin geta farið fram án þess að eyðileggja einstaka íslenska náttúru.
Opna...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd