Nú eru vorannir að hefjast hjá stýrihópi Landverndar um Grænfána. Margir skólar vilja fá að flagga Grænfánanum í vorblænum áður en skólum er lokað að vori og sjá þannig blaktandi viðurkenningu fyrir allt erfiði vetrarins og undanfarinna ára. Í vor eru liðin tvö ár síðan fyrstu skólarnir fengu fána og þeir þurfa því að sækja um aftur nú og sýna fram á að starfinu hefur verið haldið áfram.
Nokkrar umsóknir hafa borist til Landverndar um að fá fánann í vor. Það þýðir að starfsfólk og stýrihópur um Grænfána verður að hefjast handa við að lesa og kynna sér starfið í hverjum skóla. Síðan fara einhverjir úr stýrihópnum í heimsókn í hvern skóla. Þá er talað við starfsfólk og nemendur og skólar skoðaðir. Fátt er skemmtilegra en að fara í slíkar heimsóknir og hitta áhugasama kennara og annað starfsfólk og hressa krakka. Enn skemmtilegra er þó auðvitað að koma með fánann og sjá hann dreginn að húni undir lófaklappi og fagnaðahrópum!