Vörsluskylda búfjár – Ný skýrsla Landverndar

Tvö hvít lömb í forgrunni. Forsíða skýrslunnar Vörsluskylda búfjár. landvernd.is
Ný skýrsla frá Landvernd skýrir hvernig hægt er að breyta lögum þannig að lausaganga búfjár verði stöðvuð og vörsluskylda gerð að meginreglu.

Ný skýrsla frá Landvernd skýrir hvernig hægt er að breyta lögum þannig að lausaganga búfjár verði stöðvuð og vörsluskylda gerð að meginreglu, en þá er gerð krafa um að eigandi eða umráðamaður búfjár ábyrgist að búfé í umsjá hans sé haldið innan afmarkaðs svæðis

Óheft lausaganga búfjár eins og nú tíðkast er ekki aldagömul hefð heldur var hún gerð að meginreglu með lagabreytingu um miðja síðustu öld. Síðan þá þurfa þeir sem vilja hlífa landi við beit af einhverjum ástæðum eins og gróður- og jarðvegsvernd, skógrækt eða matjurtarækt að verja sitt land fyrir búfé, í stað þess að eigendur búfjár tryggi að það valdi ekki skaða.

Lausagangan tíðkast hvergi óheft í nágrannalöndum okkar nema í Færeyjum.

Stórt landsvæði illa farið beitiland

Á Íslandi er 25% landsins illa farið beitiland. Beit hefur átt ríkan þátt gróður- og jarðvegseyðingu hér á landi og stendur í vegi fyrir endurheimt hruninna vistkerfa. Fækkun búfjár, betri beitarstjórnun og mótvægisaðgerðir, til dæmis Landgræðslunnar og bænda, hafa þó talsvert dregið úr þeim neikvæðu áhrifum undanfarna áratugi. Erfitt er að sporna við neikvæðum áhrifum beitar á vistkerfi á meðan lausaganga er óheft. Að gera búfjáreigendur ábyrga fyrir sínum gripum mun stuðla að sjálfbærri nýtingu landsins gæða. Í því kunna einnig að felast tækifæri til að bæta búskaparhætti og afkomu.

Jákvæð áhrif með einfaldri lagabreytingu

Með einfaldri breytingu á lögum á ábyrgð má bæta forsendur til uppgræðslu eða skógræktar umtalsvert. Í lögum þarf að tilgreina að landsvæði sem ekki eru afmörkuð vörslulínu verði almennt talin án beitar (til friðaðra svæða). Umgangur og beit búfjár yrði þá einungis heimil á landi sem hefur verið afmarkað sérstaklega með vörslulínu sem hindrar aðgang þess í svæði utan beitar (friðuð) og á þeim afréttum sem vel þola sjálfbæra beit.

Framgreind lagabreyting er einföld og mun hafa víðtæk jákvæð áhrif á möguleika til að endurheimta landgæði. Breytingin mun einnig hafa áhrif á hag búfjáreigenda og því er nauðsynlegt að veita rúman aðlögunartíma og grípa til aðgerða sem auðvelda aðlögunina.

Skýrsla Landverndar um þær lagabreytingar sem þarf að gera til þess að óheft lausaganga verði stöðvuð verður kynnt í hádeginu á þriðjudag 25. maí í Hannesarholti. Streymt verður beint frá viðburðinum. 

Aðalfundur Landverndar 2020 ályktaði um lausagöngu búfjár.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd