Yfirlýsing stjórnar Landverndar: Hálendisþjóðgarður – Alþingi hefur brugðist

Kirkjufellsvatn við Kirkjugil og Illakamb. Vestur af vatnajökli og norður af Torfajökli. Ljósmynd: Chris Burkard.
Hálendisþjóðgarður – Alþingi hefur brugðist. Yfirlýsing stjórnar Landverndar.

Yfirlýsing stjórnar Landverndar

Hálendisþjóðgarður – Alþingi hefur brugðist

Tillaga sem nú liggur fyrir Alþingi að vísa frumvarpi um Hálendisþjóðgarð til baka til ríkisstjórnarinnar veldur verulegum vonbrigðum. Stofnun þjóðgarðsins var á stefnuskrá ríkisstjórnar sem hefur meirihluta á Alþingi. Þingið hefur með framgöngu sinni hunsað stjórnarsáttmálann, látið hjá líða að leysa úr ágreiningsmálum eins og væntingar stóðu til og komið í veg fyrir að hægt væri að ná mikilvægum áfanga í íslenskri náttúruvernd.

Undirbúningur að stofnun Hálendisþjóðgarðs hefur staðið í mörg ár og um hann verið fjallað í tveimur formlegum nefndum, m.a. nefnd sem stjórnmálaflokkarnir áttu aðild að. Sem samfélag búum við að góðri reynslu af rekstri þjóðgarða um áratuga skeið. Víðtæk samræða hefur átt sér stað um málið og þingmenn hafa haft rúmlega hálft ár til að kynna sér og betrumbæta framlagt frumvarp.

Skoðanir á frumvarpi um Hálendisþjóðgarð eru margbreytilegar. Nýleg skoðanakönnun sýnir engu að síður að meirihluti landsmanna sem tekur afstöðu, styður stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Eitt virðast flestir eiga sameiginlegt; að meta náttúrfar og víðerni hálendisins afar verðmæt og vilja vernda það.

Landvernd sem hefur það hlutverk að tala fyrir náttúruvernd, telur að reynslan sé ólygnust; friðlýsingar og þjóðgarðar eru haldbesta náttúruverndarleiðin. Þetta á líka við á Hálendi Íslands.

Stjórn Landverndar telur að stofnun Hálendisþjóðgarðs yrði skilaboð til umheimsins, að á Íslandi sé náttúruvernd tekin alvarlega. Hálendisþjóðgarður yrði líka gott vörumerki sem mun nýtast atvinnulífi í aðliggjandi byggðarlögum. Og síðast en ekki síst; Hálendisþjóðgarður yrði ríkur þáttur í sjálfsvitund þjóðarinnar og stolt hennar um langa framtíð.

Þess vegna átti stjórn Landverndar von á því Alþingi færi vel og vandlega yfir allar umsagnir, lagfærði það í frumvarpinu sem betur mætti fara, svo víðtæk sátt gæti náðst um málið; og gæfi svo þjóðinni Hálendisþjóðgarð í sumargjöf. Þessar vonir hafa brugðist. En málefnið er stærra en svo að getuleysi Alþingis nú stöðvi framvindu þess. Næsta víst er að þjóðin mun fá þann Hálendisþjóðgarð sem víðtækur stuðningur er við. Verkefnið bíður þeirra þingmanna sem fá umboð þjóðarinnar eftir næstu kosningar til Alþingis.

Tengt efni

Kýlingar í Friðlandi að Fjallabaki, hálendisþjóðgarður tryggir aðgengi og vernd náttúrunnar, landvernd.is

Hálendisþjóðgarður

Þjóðgarður á hálendinu er einstakt tækifæri fyrir okkur öll! Hálendi Íslands er einn mesti fjársjóður landsins og sameign allra Íslendinga. Takist okkur að sameina allar ...
Lesa
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Hvað þýðir miðhálendisþjóðgarður?

Miðhálendi Íslands er einn mesti fjársjóður landsins. Þjóðgarður á miðhálendi Íslands myndi tryggja vernd þessa svæðis og um leið gæti hann skapað mörg tækifæri til ...
Lesa

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd