Þjóðgarður á hálendinu er einstakt tækifæri fyrir okkur öll!

Hálendi Íslands er einn mesti fjársjóður landsins og sameign allra Íslendinga. Takist okkur að sameina allar perlur hálendis Íslands einn þjóðgarð tryggjum við langþráða vernd einna stærstu óbyggðu víðerna Evrópu og sköpum alveg ný tækifæri til nýtingar í sátt við náttúruna.

Spila-takki

Hvers vegna þurfum við hálendisþjóðgarð sem fyrst?

Hálendisþjóðgarður er langsamlega besta leiðin til að vernda verðmæta og viðkvæma náttúru og tryggja um leið aðgengi og sjálfbæra nýtingu. Við erum öll velkomin, hvort sem við göngum, ökum, ríðum eða hjólum! 

Með Hálendisþjóðgarði verður sköpuð heildstæð umgjörð um svæðið sem gefur almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess, menningar og sögu. Við verðum að búa svo um hnútana að komandi kynslóðir geti líka fengið að njóta þessarar stórbrotnu náttúru – eldfjalla, jökla, vatnsfalla og fossar, litríkra háhitasvæða, víðfems hrauns, svartra sandauðna og viðkvæms gróðurlends. Núna er tækifærið!

Kýlingar í Friðlandi að Fjallabaki, hálendisþjóðgarður tryggir aðgengi og vernd náttúrunnar, landvernd.is

Kýlingar í Friðlandi að Fjallabaki

Ljósmynd: Snorri Baldursson

Hvernig er best að vernda hálendið?

Hálendið er stórt og erfitt yfirferðar. Þess vegna er það að mestu ósnert en einmitt það gerir það svo heillandi. Kyrrðin og óspillt náttúra. Friðlýsing er öflugasta vopnið til að standa vörð um sérstöðu hálendisins.

Hvað er friðlýsing?

Með friðlýsingu landsvæðis er sérstaða þess dregin fram og settar reglur um umgengni og framkvæmdir. Einstök svæði geta notið mismikillar verndar, allt eftir náttúrufari og aðstæðum.

Í þjóðgörðum starfa landverðir sem vinna við að vernda, stýra, fræða og upplýsa gesti. Áætlanir um verndun og stjórn svæða eru gerðar í víðtæku samráði við heimamenn, sveitarstjórnir, útivistar- og umhverfisverndarsamtök og aðra hagsmunaaðila.

 

Veiðivötn

Ljósmynd: Christopher Lund

Nýting fyrir okkur öll með sjálfbærni að leiðarljósi

Þjóðgarður er öllum opinn en sú fjölbreytta nýting sem í boði verður þarf þó ávallt að vera sjálfbær – þ.e. að gengið sé um náttúruna þannig að hún nái að jafna sig aftur. T.d. getur sauðfjárbeit verið sjálfbær ef hún er á svæðum sem þola beit, veiðar geta verið sjálfbærar ef ekki er gengið á stofna umfram það að þeir nái að viðhalda sér.

Þjóðgarður skilar drjúgum tekjum

Þegar þjóðgarði hefur verið komið á laggirnar skapast ný tækifæri til markaðssóknar í ferðaþjónustu, bæði fyrir innlenda og erlenda ferðamenn. Reynslan og rannsóknir sýna, bæði hér heima og erlendis, að með tilkomu þjóðgarða aukast tekjumöguleikarnir verulega, bæði fyrir þjóðarbúið og nærliggjandi byggðir.

Spurningar og svör stjórnarráðs

Umsögn um Hálendisþjóðgarð

Hálendið getur ekki beðið

Garður Þjóðar