61% þjóðar vill meiri þunga í loftslagsaðgerðir ríkisins

Loftslagshópur Landverndar vinnur að aukinni vitund um loftslagsmál, vertu með, landvernd.is
Aðalfundur Landverndar 2020 krefst þess að meiri þungi sé lagður í loftslagsaðgerðir ríkisins. Ályktun.

Aðalfundur Landverndar lýsir yfir þungum áhyggjum sínum vegna skorts á mælanlegum markmiðum varðandi samdrátt í losun og skort á lögfestum aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum. Aðgerðaráætlunin sem komin er út er ekki nógu kraftmikil. Það er mikil samstaða meðal almennings fyrir veigameiri aðgerðum (sjá umfjöllun neðar). Meiri en lagt er til í núverandi aðgerðaáætlun. 

Í núverandi aðgerðaáætlun skortir upplýsingar sem styðja að þær 34 aðgerðir sem eru áformaðar séu líklegastar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með skilvirkum og hagkvæmum hætti. Gögn skortir um aðgerðirnar, sem sýna stöðu, tölfræði, umfang og þróun fyrir viðeigandi málaflokk. Þannig er ómögulegt að reikna árangur hverrar aðgerðar í samdrætti útblásturs. Þetta er nauðsynlegt að meta til að tryggja að fjármagni sé veitt í þær aðgerðir sem stuðla að sem mestum loftslagsávinningi. 

Það vantar uppá að skýrt sé hvaða tölulegu markmiðum hver aðgerð á að ná og hvernig þessar aðgerðir samlagt muni ná þeim markmiðum sem Íslandi hefur sett sér í loftslagsmálum. Slíkar upplýsingar eru grundvallarforsenda þess að hægt sé að vinna markvisst að markmiðum og reikna árlegan árangur aðgerðaráætlunarinnar.

Mikilvægar aðgerðir og markmið eru sett fram með almennu orðalagi sem má túlka vítt. Nú ætti að vera komin mun skýrari mynd á útfærslu aðgerða. 

Aðalfundur Landverndar vill að markmið í loftslagsmálum verði fest í lögum sem skuldbinda stjórnvöld og fyrirtæki að vinna með skipulögðum hætti að lögbundnum markmiðunum, og síðast en ekki síst að árlegri skýrslu sé skilað um framgang og framvindu mála.

Samkvæmt nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir Landvernd er meirihluti landsmanna (61%) sammála því að ríkistjórnin ætti að taka áskorunum loftslagsmála jafn alvarlega og áskorunum vegna Covid-19 faraldrinum, aðeins 17% voru ósammála. Það ríkir því mikil samstaða um alvarleika málsins og að farið sé í viðeigandi aðgerðir. 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd