Um 50 manns sóttu aðalfund Landverndar 2012 sem haldinn var í Nauthól í Reykjavík 12. maí síðastliðinn. Aðalfundurinn samþykkti breytingar á lögum samtakanna og fjórar ályktanir um hálendisþjóðgarð, rammaáætlun, sameiginlegt umhverfismat háspennulína og loftslagsmál.
Sveinbjörn Björnsson, gjaldkeri stjórnar Landverndar, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórninni. Í hans stað var kjörinn Haukur Agnarsson, gjaldkeri Sólar í Straumi. Fjórir stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi starfa og hlutu kosningu aðalfundarins til tveggja ára. Það eru þau Hrefna Sigurjónsdóttir, Fríða Björg Eðvarðsdóttir, Jón S. ólafsson og Jóna Fanney Friðriksdóttir.
Í kynningu Guðmundar Harðar Guðmundssonar, formanns Landverndar, á ársskýrslu stjórnar, kom fram að á starsárinu hefðu samtökin sent frá sér 28 umsagnir og álit um lagafrumvörp, þingsályktunartillögur, skipulagsmál og vegna mats á umhverfisáhrifum. Þá birtu samtökin fjórtán áskoranir, ályktanir og yfirlýsingar og héldu sex opna málefnafundi. Hægt er að lesa ársskýrslu Landverndar á netinu.
Í máli formannsins kom einnig fram að samkvæmt könnun sem gerð var meðal félagsmanna Landverndar segjast 78% þeirra sem kynnt hafa sér sameiginlega umsögn þrettán náttúruverndarsamtaka um rammaáætlun vera sammála þeim áherslum sem þar koma fram. ,,Það er mikið fagnaðarefni í ljósi þess að í umsögninni tók náttúruverndarhreyfingin mjög eindregna afstöðu gegn frekari uppbyggingu virkjana fyrir stóriðju. Sú afstaða var rökstudd með veigamiklum rökum, t.d. upplýsingum um ósjálfbæra nýtingu jarðvarma, neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og óeðlilega hátt hlutfall álvera á raforkumarkaði. Þau þrettán félög sem sameinuðust um umsögnina ákváðu strax í upphafi þeirrar vinnu að umsögnin ætti að vera málsvörn íslenskrar náttúru, en ekki samningstilboð til orkufyrirtækja um skiptingu landsvæða. Sú afstaða hefur átt stóran þátt í því að nokkur fjöldi svæða hefur verið færður úr virkjanaflokki í biðflokk samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir Alþingi, þar á meðal tvær fyrirhugaðar virkjanir á miðju hálendinu, Skrökkalda og Hágöngur. Sannaðist þar að í góðum málstað eru falin mikil völd,” sagði Guðmundur Hörður.
Ungmennaráð Landverndar var nýverið stofnað, en það starfar í umboði stjórnar samtakanna. Ráðið var stofnað í kjölfar álytkunar aðalfundar Landverndar 2011 sem fól stjórn samtakanna að stofna ungliðadeild með það að markmiði að gefa ungu fólki á framhaldsskóla- og háskólaaldri tækifæri til að beita sér fyrir málstað umhverfisverndar. Reynir Smári Atlason, fulltrúi í ungmennaráðinu, ávarpaði aðalfundinn og kynnti fyrirhugaða starfsemi ráðsins.
Valgerðar Halldórsdóttur, formaður Sólar í Straumi, flutti erindi á aðalfundinum um baráttu félagsins gegn stækkun álversins í Straumsvík. Í ár eru liðin fimm ár frá því Hafnfirðingar samþykktu í íbúakosningu að stöðva stækkunina. Heiti erindisins er: ,,Að sigra risa”.