Ályktun aðalfundar um þjóðgarð á miðhálendi Íslands

Verndum hálendi Íslands fyrir stóriðjuvirkjunum, landvernd.is
Ályktun aðalfundar um þjóðgarð á miðhálendi Íslands

Aðalfundur Landverndar haldinn í Reykjavík 12. maí 2012 samþykkti eftirfarandi ályktun um þjóðgarð á miðhálendi Íslands:

Aðalfundur Landverndar skorar á umhverfisráðherra að hefja nú þegar undirbúning friðlýsingar miðhálendisins sem heildar, með stofnun þjóðgarðs að markmiði. Sterk rök hníga að verndun hálendisins. Sérstaða og verðmæti svæðisins felast í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss og óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem af mörgum eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu. Möguleikar til upplifunar og hughrifa á svæðinu eru margir, samhliða tækifærum fyrir sjálfbæra verðmætasköpun í sátt við land og þjóð.

Skoðanakönnun sem Capacent vann í október sl. leiddi í ljós að víðtækur stuðningur er við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands: 56% aðspurðra voru hlynnt og einungis 17,8% andvíg. Þá kom fram í könnun Landverndar á meðal félagsmanna samtakanna að þeir telja mikilvægasta hlutverk samtakanna að stuðla að verndun hálendis Íslands.

Aðalfundurinn lýsir einnig yfir ánægju með tillögur ráðherra til Alþingis þar sem virkjanasvæði við Skrokköldu og Hágöngur á miðju hálendinu eru færð úr virkjanaflokki í biðflokk rammaáætlunar.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd