Matvælaframleiðsla

Blómkál, kartöflur, nípa og salat. Mynd af uppskeru úr matjurtaræktun í Alviðru. landvernd.is
Blómkál, kartöflur, nípa og salat. Mynd af uppskeru úr matjurtaræktun í Alviðru. landvernd.is
Vill flokkurinn stuðla að umhverfisvænni matvælaframleiðslu?

Afruglarinn er munnlegt próf fyrir stjórnmálaflokkana fyrir kosningar 2021.
Standast þeir prófið?

Vill þinn flokkur breyta styrkjakerfi landbúnaðarins með því að draga úr niðurgreiðslum á framleiðslu kjöts, auka framlög til plönturæktunar og nýsköpunar og setja hömlur á ofbeit, til að stuðla að umhverfisvænni matvælaframleiðslu?

Hoppa beint á svör flokkanna

Flokkarnir í tilviljanakenndri röð

Viðreisn

Hanna Katrín Friðriksson svarar:

„Bændur eru mjög mikilvægt framlínufólk í baráttu okkar gegn loftslagsbreytingum og með því að breyta styrkjakerfi í landbúnaði, færa það frá framleiðslutengdnum styrkjum yfir í styrki tengda nýsköpun og græna framleiðslu, styðjum við bændur í að mæta kröfum neytenda og til þess að taka enn virkari þátt í vernd umhverfisins. Viðreisn vill tryggja nýliðun og fjölbreytileika innan landbúnaðarins með því að opna fyrir að bændur geti notið styrkja óháð framleiðslu á kjöti eða mjólk. Við leggjum áherslu á aukið frelsi og ný og fjölbreytt atvinnutækifæri svo sem í gegnum nýsköpun í grænni matvælaframleiðslu, ræktun nýrra nytjaplantna, vernd og endurheimt vistkerfa, skógrækt og framleiðslu timburafurða og ferðaþjónustu. Við erum raunverulega að tala um styrki til búháttarstyrkja þar sem að bændur geta með umhverfismiðuðu styrkjakerfi gerst vistbændur og haft ávinning af.

Og þá ætti sérstaklega að styðja við rekstur sem dregur beint úr losun gróðurhúsalofttegunda á landi.

Og hvað beitarmálin varðar þá þarf að hætta að beita illa farið land og auðnir auk þess að bæta beitarstjórnun á illa förnu landi og takmarka lausagöngu búfjár. Með þetta að markmiði beitti Viðreisn sér fyrir því að ráðherrar landbúnaðar- og umhverfis ynnu saman að samræmingu reglugerða um sjálfbæra landnýtingu, markvissari meðferð fjármuna og skilvirkari stjórnsýslu þegar kemur að tengslum styrkveitinga í sauðfjárrækt við landnýtingu. Landnýting þarf einfaldlega alltaf að vera sjálfbær.“

 

Prófdómarar

Auður Önnu Magnúsdóttir

Auður Önnu Magnúsdóttir 
framkvæmdastjóri Landverndar

„Svarið var mjög skýrt. Þau vilja breyta styrkjakerfi án þess að rýra tekjumöguleika bænda og eru með hag neytenda og bænda í huga þannig að þetta er staðið hjá mér.“

Finnur Ricart Andrason, loftslagsfulltrúi Ungra umhverfissinna.

Finnur Ricart Andrason 
Loftslagsfulltrúi UU

„Já, það er tekið fram hvernig á að breyta kerfinu til að styðja við áherslur í loftslagsmálum og sjálfbæra landnýtingu almennt sem er jákvætt. Það er skilgreint hvernig styrkir eiga að spila inn í kerfisbreytingarnar, og tryggja það að áherslurnar komist í verk. Og það er einnig gott að hafa skýrt að takmarka eigi lausagöngu búfjár þannig að þetta svarar spurningunni og er bara gott svar.“

Sjálfstæðisflokkurinn

Bryndís Haraldsdóttir svarar: 

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að efla fjölbreyttan og sjálfbæran landbúnað. Opinber stuðningur á að miða að því að samþætta landnýtingu og umhverfisvæna starfsemi í landbúnaði og styrkja rekstrargrunn. Undir forystu flokksins var endurskoðun á rammasamningi um almenn starfsskilyrði í landbúnaði milli ríkisins og bændasamtakanna lokið í febrúar síðastliðnum og með endurskoðuninni er byggt undir framþróun og nýssköpun í framleiðslu með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum og fjölþætta stefnumótun.

Markmiðið er að íslenskur landbúnaður verði að fullu kolefnisjafnaður eigi síðar en árið 2040. Þetta verður gert m.a. með því að byggja undir þekkingu á bindingu og losun kolefnis, vinna að bættri meðhöndlun og nýtingu aðfanga og áburðar, minni sóun, markvissari jarðrækt og aukinni sjálfbærni.

Um það verður ekki deilt að loftslagsmálin munu leika lykilhlutverk í þróun íslensks landbúnaðar eins og samfélagsins alls og hér er ekki um ógnun að ræða heldur tækifæri fyrir bændur til að ná fram aukinni hagkvæmni og arðsemi og opinber stefna í landbúnaði verður að taka mið af þessu.“

Auður Önnu Magnúsdóttir

Auður Önnu Magnúsdóttir 
framkvæmdastjóri Landverndar

„Þetta er fall. Þrátt fyrir innihaldsríkt og vel skipulagt svar þá nægir það ekki. Það er eingöngu talað um kolefnisjöfnun en ekki það sem við verðum að fara í sem er verulegur samdráttur í losun.“

Finnur Ricart Andrason, loftslagsfulltrúi Ungra umhverfissinna.

Finnur Ricart Andrason 
Loftslagsfulltrúi UU

„Vissulega er gott að efla fjölbreytileika og stefna að kolefnishlutlausum landbúnaði en hins vegar eru uppfærðu styrkirnir ekki í samræmi við þessi markmið. Þetta er falleinkunn frá mér.“

Framsóknarflokkurinn

Sigurður Ingi Jóhannesson svarar:

„Við í framsókn lítum svo á að Ísland sé land tækifæranna þegar kemur að matvælaframleiðslu og við höfum lagt áherslu á á liðnum árum að það sé fjölbreyttari landnýting, fjölbreyttari nýting lands til þess að rækta nytjaplöntur, auka grænmetisframleiðslu og fleira í þeim dúr. Við sjáum fyrir okkur að landbúnaðurinn, með því að auka kolefnisbindingu, með því að auka landgræðslu, geti orðið hluti af lausninni í á loftslagsvandanum okkar.

Við höfum þá trú að Grólind, verkefni sem bændur og landgræðslan eiga saman og hafa verið að nýta til þess að stýra beit sé gott stýritæki sem við höfum mikla trú á að gangi eftir. En með öðrum orðum, landnýting og ræktun bæði nytjaplantna og búfjár á sjálfbærum grunni er leið okkar fram á við og við sjáum tækifæri í aukinni matvælaframleiðslu.“

Finnur Ricart Andrason, loftslagsfulltrúi Ungra umhverfissinna.

Finnur Ricart Andrason 
Loftslagsfulltrúi UU

„Já, það er jákvætt að landbúnaðurinn eigi að vera hluti af heildarlausninni og í raun nauðsynlegt að auka áherslu á ræktun grænmetis en það er ennþá óljóst hvernig á að framkalla þetta, það er ekki tekið fram hvaða breytingar þurfa að eiga sér stað þannig að þetta er önnur falleinkun frá mér.“

Auður Önnu Magnúsdóttir

Auður Önnu Magnúsdóttir 
framkvæmdastjóri Landverndar

„Þetta svaraði því miður ekki spurningunni. Það vantaði töluvert mikið innihald í svarið. Grólind er vissulega mjög gott verkefni og gott að minnast á það en ríkisstjórnin hefur enn ekki geta sett reglugerð um sjálfbæra landnýtingu þrátt fyrir það þannig að þetta er líka fall hjá mér.“

Miðflokkurinn

Karl Gauti Hjaltason svarar:

„Miðflokkurinn leggur áherslu á að það er umhverfisvænt að framleiða matvæli eins nálægt markaðnum og unnt er. Það sé ekki umhverfisvænt að flytja matvæli um langar vegalengdir á fjarlæga markaði. Ísland er harðbýlt land og matvælaframleiðsla hefur hér notið ákveðinna styrkja, svo sannarlega, sem er þó ekki nema brot af því sem tíðkast víða erlendis. Ef okkar helstu samkeppnislönd hætta niðurgreiðslum til landbúnaðar munum við eflaust gera það líka. Styrkjakerfi landbúnaðarins hefur ekki áhrif á kjötneyslu, kjöt yrði samt sem áður flutt inn frá öðrum löndum með tilheyrandi kolefnisspori.

Miðflokkurinn hefur lagt fram tillögu um fjórföldun skógræktar með hraðvöxnum trjátegundum svo við Íslendingar getum lagat ríkulega til kolefnisbindingar. Með stóraukinni skógrækt er unnt að ná margvíslegum umhverfislegum markmiðum samtímis. Hér á landi eru kjöraðstæður fyrir umhverfisvæna og sjálfbæra matvælaframleiðslu.

Þegar horft er til sauðfjárbeitar á hálendinu verður að horfa til þess að taka mið af hverju svæði fyrir sig með tilliti til ágangs og gróðurframvindu, veðurs og gróðurfars síðustu áratugi. Þessa vinnu þarf að vinna í samstarfi við heimamenn og það er mikilvægast. Sem hafa þekkingu á einstökum svæðum. Það er eins og endranær mest um vert að ná að vinna saman að umhverfisvænni framtíð fyrir alla landsmenn en ekki etja saman ólíkum hópum. Við þurfum sátt um bestu umhverfislegu lausnirnar.“

 

Finnur Ricart Andrason, loftslagsfulltrúi Ungra umhverfissinna.

Finnur Ricart Andrason 
Loftslagsfulltrúi UU

„Já, það er vissulega rétt að það verður til losun við flutning á matvælum en hlutfall þessarar losunar getur spilað mismikið inni heildarlosunina og þar af leiðandi heildar kolefnisspor matvælanna þannig að það er ekki alltaf hægt að alhæfa að allar innfluttar vörur hafi nauðsynlega hærra kolefnisspor. Það er ekki víst hvort styrkjakerfið hvetur til aukinnar kjötneyslu eða ekki og eins og það er þá leyfir það ekki raunverulegri eftirspurn í kerfinu að ráða framboðinu. Þetta er falleinkun frá mér.“

Auður Önnu Magnúsdóttir

Auður Önnu Magnúsdóttir 
framkvæmdastjóri Landverndar

„Kolefnisbinding eða kolefnisjöfnun og fjarlægð frá mörkuðum nægir ekki nærri því til að taka á þeirri miklu losun sem hlýst af landbúnaði í þeirri mynd sem hann er stundaður í dag. Þessvegna er þetta ekki raunverulegt svar við spurningunni og þetta er fall frá mér.“

Píratar

Andrés Ingi Jónsson svarar:

„Stutta svarið er að það er komið inn á alla þessa þætti í umhverfis- og loftslagsstefnu pírata. Þar er stefnt að grænni umbreytingu alls samfélagsins og þar er landbúnaðurinn náttúrulega ekki undanskilin.

Við viljum endurskoða landbúnaðarstefnu með markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og leggja af niðurgreiðslur til innlendrar matvælaframleiðslu með hátt kolefnisspor. En þetta er allt hluti af stærri mynd því græn umskipti í matvælaframleiðslu kalla líka á breyttar neysluvenjur. Við viljum auðvelda fólki að vera umhverfisvænir neytendur, til dæmis með samræmdri merkingu kolefnisspors á umbúðir matvæla og við viljum nýta skattalega hvata til að gera græna valkostinn aðgengilegri öllum. Það er eins með matvæli og aðra vöru, við viljum gera grænt ódýrt en grátt dýrt.

Og samhliða þessu viljum við setja sérstök markmið um að draga úr neyslu á dýraafurðum sem eru þau matvæli sem hafa stærsta vistsporið og við viljum sporna við lausagöngu búfjár. Grænu umskiptin þurfa ekki bara að vera réttlát fyrir neytendur heldur líka fyrir bændur og þar eru mikil sóknarfæri. Píratar vilja styðja við nýsköpun, rannsóknir og þróun í vistvænum landbúnaði, stórauka ylrækt og jarðrækt á plöntufæði, lækka raforkuverð til grænnar framleiðslu og við viljum byggja upp kerfi þar sem allir einstaklingar og fyrirtæki geta fengið stuðning til að ná árangri í að skapa blómlegan og umhverfisvænan og öflugan matvælamarkað á Íslandi.“

Auður Önnu Magnúsdóttir

Auður Önnu Magnúsdóttir 
framkvæmdastjóri Landverndar

„Píratar svara spurningunni skýrt. Þau vilja breyta styrkjakerfinu til hagsbóta fyrir umhverfið en líka þannig að breytingarnar séu réttlátar fyrir bændur og neytendur. Þetta er staðið frá mér.“

Finnur Ricart Andrason, loftslagsfulltrúi Ungra umhverfissinna.

Finnur Ricart Andrason 
Loftslagsfulltrúi UU

„Það er gott að það er lögð áhersla á kerfisbreytingar og sérstaklega að almenningur verði svo móttækilegur fyrir þessum kerfislegu breytingum. Það er einnig jákvætt að stefnt sé að því að nýta fleiri en eitt tól til að hvetja til breyttra neysluvenja. Síðan er áhersla sett á réttlát umskipti sem er afar mikilvægt en það mætti skilgreina þetta aðeins betur. Það er jákvætt að sporna gegn lausagöngu búfjár þannig að spurningunni er vel svarað, þetta er gott svar, staðist frá mér.“

Samfylkingin

Rósa Björk Brynjólfsdóttir svarar:

„ Samfylkingin vill fara í alvöru aðgerðir í loftslagsmálum og við ætlum að móta nýja og miklu metnaðarfyllri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en núverandi ríkisstjórn. Og hluti af því er að styrkja og hvetja enn frekar til umhverfisvænni matvælaframleiðslu. Komumst við til valda ætlum við að fara í umbætur á landbúnaðarkerfinu án þess þó að draga úr stuðningi við bændur sjálfa. En með því að draga verulega úr skilyrðum styrkja um framleiðslu á kjöti og mjólk en styðja frekar við loftslagsvæn verkefni bænda sjálfra og líka við sjálfbæra matvælaframleiðslu og styrkaj myndarlega við græna nýsköpun á öllum sviðum, þar með talið á sviði matvælaframleiðslu.

Hluti af þessu öllu er svo að fara í enn frekara átak í kolefnisbindingu með breyttri landnotkun, endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt.“

Finnur Ricart Andrason, loftslagsfulltrúi Ungra umhverfissinna.

Finnur Ricart Andrason 
Loftslagsfulltrúi UU

„Það er jákvætt að stefnt sé að að uppfæra aðgeraðaáætlun í loftslagsmálum þó að það svari ekki beint spurningunni, það er einnig gott að skilyrðum fyrir styrkjum verði breytt varðandi framleiðslu á dýraafurðum, það mætti reyndar skilgreina það aðeins betur hvernig styrkjunum verður þá háttað í staðin. Það er lögð áhersla í svarinu á breytta landnotkun sem er jákvætt enn og aftur, sér í lagi þar sem stefnt er að því að samræma það við endurheimt vistkerfa þannig að þetta er staðið svar frá mér.“

Auður Önnu Magnúsdóttir

Auður Önnu Magnúsdóttir 
framkvæmdastjóri Landverndar

„Já, ég tek sannarlega undir með Finni hérna. Svarið var kannski ekki alveg nógu skýrt, ekki alveg nógu mikið farið niður í smáatriðin en þetta er náttúrulega stuttur tími. Þau ætla að gæta þess að halda styrkjum til bænda en fara í umbætur á kerfinu þannig að þetta er staðið frá mér.“

Vinstri græn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson svarar: 

„Það er grundvallaratriði að mati okkar vinstri grænna að íslenskur landbúnaður sé stundaður í sátt við íslenska náttúru og þar er sjálfbær þróun og kolefnishlutleysi greinarinnar lykilatriði. En til þess að ná þessum markmiðum þá þurfum við að breyta kerfinu okkar. Og í fyrsta lagi langar mig að nefna að við þurfum að klára metnaðarfulla reglugerð sem á að tryggja sjálfbæra nýtingu lands byggt á þeim lögum sem sett voru núna 2018. Og reglugerð um gæðastýringu í sauðfjárrækt sem þarf að byggja á fyrri reglugerðinni sem ég nefndi og þarna þurfum við að horfa til leiðbeininga okkar færustu vísindamanna með það grundvallasjónarmið að markmiði að við göngum ekki á gæði náttúrunnar, það er að segja að við ofnýtum ekki landið, frekar en fiskinn í sjónum. Þannig að ef eitthvað land er til dæmis talið óbeitarhæft þá hættum við að beita það, friðum það og lögum það, og þá getum við síðan séð hvort það sé hægt að beita það á nýjan leik. Búvörusamningunum þurfum við líka að beita í þessu skyni, það er að segja, auka styrki til þess að laga land sem er illa farið, endurheimta og stunda landgræðslu og þarna geta bændur verið lykilaðilar í að taka þátt í þeirri vegferð.

Við þurfum líka að auka framlög til grænmetisræktar og lífrænnar framleiðslu sem skiptir hvoru tveggja miklu máli og að lokum langar mig að nefna að nýsköpun sem að tryggir það að við náum meiri árangri í loftslagsmálum til dæmis með því að draga úr losun frá iðragerjun eða tilbúnum áburði í landbúnaði er mikilvæg.“

Auður Önnu Magnúsdóttir

Auður Önnu Magnúsdóttir 
framkvæmdastjóri Landverndar

„Hér er mikið rætt um kolefnishlutleysi og kolefnisjöfnun en því verður alls ekki hægt að ná án verulegs samdráttar [í losun] og það er því miður ekki sannfærandi hvernig er rætt um það í þessu svari. Það er talað um reglugerð um sjálfbæra landnýtingu en Vinstri- græn hafa haft allt kjörtímabilið til að gefa út þessa reglugerð. Aðferðir við að draga úr losun til dæmis með nýsköpun í iðragerjun, þetta er mjög stutt á veg komið og skiptir ekki máli til að draga úr losun á næstu 9 til 20 árum. Þannig að þetta er fall frá mér.“

Finnur Ricart Andrason, loftslagsfulltrúi Ungra umhverfissinna.

Finnur Ricart Andrason 
Loftslagsfulltrúi UU

„Já, það er gott að það sé stefnt að því að hlusta á vísindin, það er svona grunngildi sem er miklvægt að hafa í loftslagsmálunum, við að móta aðgerðir. Það er jákvætt einnig að stefnt sé að kerfisbreytingum á fleiri en einn hátt, þá má nefna bæði með reglugerðum um gæðastýringu og breyttum búvörusamningum þó það mætti skilgreina nákvæmlega, hvaða mynd þessar breytingar myndu taka á sig, og það er gott að auka styrki til endurheimtar og landgræðslu þó það mætti aftur skilgreina aðeins betur hvernig styrkjunum til framleiðslu til dæmis á dýraafurðum yrði breytt. Þannig að þetta er svona naumt, naumt staðist svar frá mér.“

Flokkur fólksins

Inga Sæland svarar: 

„Flokkur fólksins vill alls ekki þvinga bændur til eins eða neins. Margir þeirra búa við kröpp kjör nú þegar og hafa gert lengi. Við viljum hins vegar fjölga tækifærum í landbúnaði með nýsköpun til dæmis með niðurgreiðslu á raforkuverði og laða þannig bændur í auknu mæli til þess að rækta hér heimsins besta og hreinasta grænmeti og ávexti með okkar einstöku og hreinu orku.

Við viljum auðvitað setja hömlur á beit á mjög viðkvæmum svæðum á hálendinu og endurheimta votlendi þar sem framræst land er ekki nýtt til landbúnaðar, auk þess að efla skógrækt.

Við styðjum fjölbreytta og umhverfisvæna matvælaframleiðslu sem kemur bæði bændum og neytendum til góða.“

Auður Önnu Magnúsdóttir

Auður Önnu Magnúsdóttir 
framkvæmdastjóri Landverndar

„Flokkur fólksins vill ekki þvinga bændur og líklega má túlka það þannig að þau vilja breyta styrkjakerfinu þannig að bændur geti haft miklu fjölbreyttari möguleika á að nýta sitt land heldur ein eingöngu að framleiða kjöt og mjólk þannig að það er mjög jákvætt. Það er ekki alveg nógu skýrt og það er örlítið afvegaleiðandi þannig að ég verð að segja, já það er jákvætt líka að þau hugsa bæði um bændur og neytendur, en ég verð að segja að þetta sé mjög naumlega staðið frá mér.“

Finnur Ricart Andrason, loftslagsfulltrúi Ungra umhverfissinna.

Finnur Ricart Andrason 
Loftslagsfulltrúi UU

„Já ég tek undir með Auði að það er jákvætt að stefnt sé að því að þvinga ekki bændur til að framleiða á einhvern ákveðinn hátt, og ég allavega tek því þannig líka að þau séu áfram um að breyta styrkjakerfinu á þann hátt. Einnig er gott að stýra eigi beit á viðkvæmum svæðum og að endurheimt, að já, að lögð sé áhersla á að endurheimta ónýtt framræst votlendi, það er bara lykilatriði í því að draga saman stærsta losunarþátt Íslands. Samt sem áður er ekki nógu vel skilgreint hvernig á að framkvæma þessar breytingar sem þarf til að auka þessar áherslur sem minnst var á þannig að þetta er ekki alveg fullnægjandi fyrir mig.“

Sósíalistaflokkurinn

Katrín Baldursdóttir svarar: 

„ Já, svo sannarlega. Við viljum lýðræðisvæða allt kerfið, landbúnaðarkerfið, þannig að bændur fái meira um það að segja um það hvernig framleiðslunni er háttað, við viljum stórauka matvælaframleiðslu og þar eru það einmitt bændur sem hafa sýnt svo mikið frumkvæði og hugmyndaauðgi í alls konar framleiðslu.

Við viljum efla byggðirnar þannig að fólk geti búið hvar sem það vill og ræktað landið þar sem það vill og gera því kleift að gera það og við viljum stuðla að sjálfbærni og nú ætla ég að vitna í ykkur í Landvernd því ég er svo sammála ykkur, hvað er sjálfbærni, það er það að allir á hvaða aldri sem þeir eru, hvar sem þeir búa hafi aðgang að hreinu vatni, hollum mat, húsaskjóli, heilbrigðisþjónustu og menntun.“

Finnur Ricart Andrason, loftslagsfulltrúi Ungra umhverfissinna.

Finnur Ricart Andrason 
Loftslagsfulltrúi UU

„Það er gott að áhersla er lögð á að leyfa bændum að hafa eitthvað frelsi til að leyfa bændum að hafa eitthvað um það að segja hvað þeir framleiða, það er jákvætt en það er hins vegar ekki vel skilgreint hvernig á að gera það, það kom ekki nógu vel fram í svarinu það er ekki útskýrt hvaða breytingar verða gerðar til þess að framkalla þetta aukna frelsi bænda í framleiðslu og aðgerðir til þess að vinna gegn lausagöngu búfjár eru heldur ekki nefndar, þannig að þetta svar stenst ekki alveg hjá mér.“

Auður Önnu Magnúsdóttir

Auður Önnu Magnúsdóttir 
framkvæmdastjóri Landverndar

„Já, þarna erum við Finnur ekki alveg sammála. Mér finnst svarið nokkuð skýrt og það tekur einnig ríkt tilllit til, bæði til bænda og neytenda, en ég er sammála Finni með að það mætti vera meira farið aðeins út í smáatriðin. Ég myndi segja þetta er naumt naumt staðist hjá mér.“

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd