Alþingi veiti náttúruverndaráætlun brautargengi

Stöndum vörð um náttúru Íslands Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Landvernd virðir íslenska náttúru og styður sjálfbæra nýtingu hennar. Taktu afstöðu og vertu með! landvernd.is
Stjórn Landverndar gerir sér ljóst að sveitarstjórnir, hagsmunaaðilar og landeigendur geta ekki, á þessu stigi málsins, tekið endanlega afstöðu til þeirra tillagna sem felast í tillögu umhverfisráðherra um náttúruverndaráætlun. Þetta ætti ekki að hindra Alþingi í að samþykkja áætlunina sem almenna stefnumörkun þar sem síðar yrðu svæðin afmörkuð og friðlýsingarskilmálar tilgreindir í góðri samvinnu við alla viðkomandi aðila, enda er það forsenda árangurs.

Stjórn Landverndar telur að þingsályktunartillaga umhverfisráðherra um náttúruverndaráætlun fyrir tímabilið 2004-2008 sé metnaðarfull og byggi á vísindalegum grunni. Þá fagnar stjórnin þeim vandaða undirbúningi sem áætlunin hefur fengið og hve vel umhverfisráðherra hefur fylgt þessu máli eftir. Nái áætlunin fram að ganga mun hún án efa stuðla að traustari vernd íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi.

Stjórn Landverndar gerir sér ljóst að margar sveitarstjórnir, hagsmunaaðilar og landeigendur geta ekki, á þessu stigi málsins, tekið endanlega afstöðu til þeirra tillagna sem felast í áætluninni. Þetta ætti þó ekki að þurfa að hindra samþykkt áætlunarinnar sem almenna stefnumörkun. Næsta skref í málinu yrði að afmarka tilgreind svæði og friðlýsingarskilmála. Í því sambandi er góð samvinna allra viðkomandi aðila forsenda árangurs.

Friðlýsing er aðgerð sem miðar að því að koma í veg fyrir landnotkun sem getur ógnað eða spillt tilgreindum náttúruverðmætum. Í mörgum tilvikum getur án efa farið saman áframhaldandi hefðbundin nýting lands og markmið og tilgangur friðlýsingar. Tilgangur friðlýsingar er þá að festa í sessi sjálfbæra landnýtingu og koma í veg fyrir hugsanlegar ógnir í framtíðinni. Með vönduðum undirbúningi má eflaust ná flestum ef ekki öllum markmiðum friðlýsingar í góðri sátt við þá sem nýta önnur landsins gæði.

Að mati stjórnar Landverndar er afar mikilvægt að Alþingi samþykki þingsályktunartillöguna og marki þannig stefnu um og tilgreini forgangssvæði í náttúruvernd á næstu árum. Stjórnin lítur svo á að þó áætlun umhverfisráðherra verði samþykkt þá útiloki það ekki að einnig verið litið til annarra svæða. Sérstaklega vill stjórnin vekja athygli á mikilvægi þess að treysta betur friðlýsingu Þjórsárvera þannig að hún miðist betur við náttúrufarsleg og landfræðileg mörk svæðisins. Þá telur stjórnin mikilvægt að öll þau svæði sem tilgreind eru í fyrstu drögum Umhverfis-stofnunar (frá því í maí 2003) fá sérstaka stöðu, ígildi þess að þau séu skráð á náttúruminjaskrá. Með því má tryggja þeim lágmarks vernd og draga úr líkum á því að þeim verði raskað nema að vel athuguðu máli og einungis ef ríkir hagsmunir eru í húfi.

Þess má geta að Landvernd mun standa fyrir málstofu 15. mars n.k. í Norræna húsinu þar sem fjallað verður um hvernig megi ná árangri í náttúruvernd og nýta gæði lands með sjálfbærum hætti. Frummælendur á málstofunni verða Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, Ari Teitsson fyrrverandi formaður Bændasamtakanna og Sigurður óli Kolbeinsson, sviðsstjóri á lögfræðisviði Sambands íslenskra sveitarfélaga. Málstofan hefst kl. 16.30.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd