Annar hver andardráttur þinn kemur frá hafinu

Reynisfjara. Maður stendur í fjörunni.
Tillaga að ályktun fyrir aðalfund Landverndar, 19. apríl, 2023 Frá: Kristínu Völu Ragnarsdóttur - Vistmorð
Á Degi hafsins er viðeigandi að rifja upp mikilvægi hafsins fyrir lífið á Jörðinni. Hugum að hafinu.

Á Jörðinni er eitt stórt haf sem þekur meirihluta reikistjörnunnar okkar. Þó að úthöfin eigi sér mismunandi nöfn er erfitt að sjá hvar eitt haf endar og annað haf byrjar. Breytingar á einum stað, hafa því áhrif annarsstaðar. Við erum því öll tengd.

8. júní er alþjóðlegur Dagur hafsins og er því við hæfi að rifja upp hvaða áhrif hafið hefur á líf okkar, og hvaða áhrif við höfum á hafið.

Suðurskautslandið.
Suðurskautslandið. Öll stór úthöf líkt og Atlantshafið, Kyrrahafið og Indlandshaf eru tengd og mynda eitt stórt haf.

Hafið gerir Jörðina lífvænlega

Líf eins og við þekkjum það gæti ekki þrifist án hafsins. Hafið leikur lykilhlutverk í hringrás vatns og svo kemur annar hver andardráttur sem við öndum að okkur frá hafinu, – helmingur þess súrefnis sem við öndum að okkur kemur frá örsmáum lífverum í hafinu sem heita plöntusvif. Við eigum því hafinu mikið að þakka.

Í hafinu má finna allt frá smæstu örverum til stærstu dýra Jarðarinnar, steypireyðar sem er stærsta dýrið sem nokkru sinni hefur verið til á Jörðinni, stærri en risaeðlur, eða um 22-33 metrar á lengd, sem er álíka og meðal sundlaug!

Neðansjávar djúpsjávarkórallar við suðurströnd Íslands.
Kórallar við Íslandsstrendur. Ljósmynd: Hafrannsóknarstofnun.

Hafið er kraftmikið og mótar Jörðina. Krafturinn í öldunum sem skella á landið myndar kletta, björg og strendur. Lífverur í hafinu setja einnig mark sitt á Jörðina, en kóraldýr mynda kóralrif sem eru mikilvæg búsvæði fyrir fjölda lífvera. Stærsta kóralrif á Jörðinni er um 2000 km á lengd og yfir 140 km á breytt og sést utan úr geimnum!

 

Hafið hefur áhrif á loftslag og veður

Hafið jafnar út hitastigið á Jörðinni. Hitabreytingar eru hægari í hafinu en lofti og flytja hafstraumarnir varma á milli svæða. Golfstraumurinn kemur með hlýjan sjó að sunnan. Kaldur Austur-Íslandsstraumurinn og Austur-Grænlandsstraumurinn flytja kaldan sjó og jafnvel ísjaka frá Grænlandi og Norðurpólnum. Ef golfstraumurinn kæmi ekki að norðurslóðum, þá væri mun kaldara á Íslandi.

Við getum ekki án hafsins verið

Hafið tengir saman löndin og líka fólkið. Hafið er matarkista okkar og sækjum við í það fjölbreytta fæðu úr dýra- og jurtaríkinu sem og salt og bætiefni.

Efni úr hafinu og lífverum sem þar búa eru notuð í krem og lyf. Lækning við sjúkdómum sem eru ólæknandi í dag gæti leynst á hafsbotni.

Hafið veitir okkur innblástur til listsköpunar og það hefur sýnt sig að nálægð við hafið getur verið hin fínasta heilsubót.

 
Súla gefur unga plastdræsu að éta.
Súla gefur unga plastdræsu að éta. Ljósmynd: Bo Eide.

 

Athafnir mannanna ógna heilbrigði hafsins

Loftslagsbreytingar, plastmengun í hafi, ofveiði, eyðing búsvæða og önnur mengunarhætta steðjar að lífinu í sjónum og þar af leiðandi lífinu á landi. Við þurfum að taka afstöðu með hafinu og vernda það. Heilbrigði hafsins er hnattrænt málefni sem snertir alla á Jörðinni.

Hvernig vilt þú hjálpa hafinu? Kynntu þér nokkrar leiðir í bókinni Hreint haf – Plast á norðurslóðum.

Hugum að hafinu á Degi hafsins sem og alla aðra daga.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Landvernd og höfundur bókarinnar Hreint haf – Plast á norðurslóðum.

 

Greinin birtist fyrst 8. júní 2022 á vísi. 

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd