Landvernd leggst eindregið gegn Bitruvirkjun við Ölkelduháls slík eru áhrifin á loftgæði, landslag, útivist, ferðaþjónustu o.fl. Þá eru forsendur efnahagslegra útreikninga ófullnægjandi enda hefur OECD ítrekað gagnrýnt aðferðarfræðina sem gengið er út frá. Þensla er í efnahagi og tiltölulega lítið atvinnuleysi. Þörfin fyrir frekari uppbyggingu stóriðju er í besta falli óþörf en þörfin fyrir útivistarland, ferðamannasvæði og náttúruverndargriðlönd fer vaxandi.
Landvernd hefur sent Skipulagsstofnun athugasemdir sínar og má nálgast þær hér. Að neðan er að finna útdrátt úr athugasemdunum.
Hönnun mannvirkja
Framkvæmdaraðili hefur lagt mikið á sig til þess að lágmarka sjónræn áhrif virkjananna. Landslagsarkitektar hafa verið fengnir til þess að lágmarka sýnileika mannvirkja með því að gera lagnir torsýnilegar og jafnvel ósýnilegar, þ.e.a.s. niðurgrafnar. Þessari viðleitni ber að fagna. Eftir sitja grundvallar spurningar um sjálfbærni, sátt og tilgang virkjananna.
Skortir á heildstæðri skoðun
Þá er galli á frummatsskýrslunum að ekki skuli fjallað með heildstæðum hætti um orkuöflun, orkuflutninga og áformaða nýtingu orkunnar í Helguvík. Þess í stað er horft á lítinn hluta af stóru og umdeildu verkefni sem inniber álver í Helguvík, orkuflutninga frá Hengli til Helguvíkur um fjölmörg sveitarfélög sem ekki hafa fengið þessar skýrslur til umsagnar þó svo þau eigi ríkra hagsmuna að gæta. Þessu verklagi þarf að breyta og hefur Skipulagsstofnun heimildir til þess, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.
Ferðþjónusta og útivist
Virkjanirnar munu hafa umtalsverð neikvæð áhif á útivist og ferðaþjónustu, þá einkum og sér í lagi Bitruvirkjun við Ölkelduháls. Á svæðinu eru fjölmargar gönguleiðir og reiðleiðir enda svæðið fjölbreytilegt og fallegt. Að öllu samanlögðu yrði verðgildi svæðisins sem útivistar og ferðaþjónustusvæði í besta falli rýrt verulega og í versta falli yrði svæðið með öllu óhæft til slíkra nota sökum hávaða og ólyktar.
Loftgæði og lyktmengun
Áhrif þessara virkjana á loftgæði yrðu veruleg þar sem um yrði að ræða gríðarlega aukningu á brennisteinsvetni sem nú þegar er vandamál vegna jarðvarmavinnslu á svæðinu. Verði umræddar virkjanir að veruleika verður losun brennisteinsvetnis frá öllum fjórum virkjununum á Hellisheiði samtals um 26.300 tonn á ári. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að brennisteinsvetni H2S er eitruð lofttegund.
Í skilgreiningu á mengun í reglugerð nr. 787/1999 um loftgæði kemur fram að mengun taki einnig til ólyktar. Í 9. gr. reglugerðarinnar er forráðamönnum fyrirtækja og stofnana gert að sjá svo um að lyktmiklar lofttegundir valdi ekki óþægindum í nánasta umhverfi. Landvernd fær ekki séð að stjórnvöldum sé stætt á að heimila aukna H2S losun fyrr en fyrirtækið hefur uppfyllt 9. gr. reglugerðar um loftgæði en þar segir:
„Forráðamenn fyrirtækja og stofnana skulu sjá um að reykur, ryk og lofttegundir, sem eru hættulegar, daunillar eða lyktarmiklar, valdi ekki óþægindum í nánasta umhverfi.“
Nú þegar eru til eru tæknilegar lausnir til þess að hreinsa H2S úr útblæstri.
Af gögnum sem birt hafa verið á vef Umhverfisstofnunar má sjá að nú þegar er lyktmengun við Grensásveg komin yfir þau mörk sem sett hafa verið í Kalifórníu, sbr. mynd hér að ofan. Þá hefur komið fram í fjölmiðlum að yfirvöldum hafa borist kvartanir vegna ólyktar úr efri byggðum Reykjavíkur.
Sjálfbærni
Þegar jarðvarmi er einungis nýttur til raforkuframleiðslu er afar lítil nýting á auðlindinni. Stærstur hluti orkunnar, allt að 88%, fer til spillis. Niðurdæling er ágæt viðleitni til þess að draga úr sóuninni en mikil óvissa er um árangur af því erfiði. Nýlega hafa tekið til starfa tvær jarðvarmavirkjanir á Íslandi, þ.e. Reykjanesvirkjun og Hellisheiðarvirkjun, og er á báðum þessum stöðum gríðarlegri orku kastað á glæ. Fjölmargar leiðir eru til til þess að nýta varma og auka við raforkuframleiðslu starfandi virkjana. Í stað þess að raska fleiri háhitasvæðum er æskilegra að bæta nýtingu þeirra jarðvarmavirkjana sem einungis eru nýttar til raforkuframleiðslu. Þar hafa þau orkufyrirtæki sem vilja kenna sig við sjálfbærni skyldum að gegna.
Fram kemur í matsgögnunum að ráðgjafar OR kjósi að flokka vinnsluna sem ágenga þar sem hraðar er gengið á varmaforða svæðisins en sem nemur náttúrulegri endurnýjun. Á Orkuþingi 2006 fjallaði Guðni Axelsson, ISOR, m.a. um vinnslu af því tagi en hann kaus þó að tala um ósjálfbæra vinnslu en ekki bara ágenga. Á skýringarmyndinni hér að neðan, sem er tekin úr grein hans, sýnir í hvað gæti stefnt ef áform um álver í Helguvík og „ágenga“ orkuvinnslu því til handa ná fram að ganga. Guðni lýsir vinnslu af þessu tagi með eftirfarandi orðum:
Mynd 2 úr grein Guðna Axelssonar „Hvernig á að meta sjálfbæra vinnslugetu jarðhitasvæða?“
„Ágeng vinnsla (ekki sjálfbær) í nokkra áratugi (um 30 ár) með algjörum hléum, e.t.v. nokkru lengri en vinnslutímabilin (um 50 ár), þar sem jarðhitakerfið nær að jafna sig að verulegu leyti í hléunum.“
Umhverfiskostnaður
OECD hefur gagnrýnt aðferðarfræði við umhverfismat framkvæmda á Íslandi. Stofnunin hefur ítrekað gert athugasemdir við að ekki skuli vera lagt mat á verðgildi umhverfisþátta sem lagðir eru undir. Í frummatsskýrslum sem hér eru til umfjöllunar er ekki gerð nein tilraun til þess. Í ljósi ítrekaðra ábendinga OECD þarf Skipulagsstofnun að gera ríkari kröfur til skýrsluhöfunda í þessum efnum.
Það er alþekkt að skortur er á fjölmörgum umhverfisgæðum. Með fólksfjölgun verður skortur umhverfisgæða tilfinnanlegri og verð þeirra hækkar. Jafnframt bendir flest til þess að verðmæti umhverfisgæða vaxi hraðar en sem nemur hækkun tekna. Því mun verðmæti umhverfisgæða vaxa með almennum hagvexti og það hratt. Hægt er að meta umhverfisgæði með hagfræðilegum aðferðum.
Að fengnu mati á verðgildi umhverfisáhrifa er heildargildi framkvæmda síðan metið með svokallaðri kostnaðar-ábatagreiningu (cost-benefit analysis) þar sem allir kostir framkvæmda eru vegnir á móti öllum kostnaðarliðum og þjóðhagslegt núvirði framkvæmdar reiknað.
Margar þróaðar þjóðir (t.d. Norðurlönd, Þýskaland, Bretland, Bandaríkin og Kanada) beita kerfisbundið hagrænu umhverfismati og kostnaðar-ábatagreiningu til að meta hagkvæmni framkvæmda, sem hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
Skortur á heildstæðu mati
Það er galli á frummatsskýrslunum að ekki skuli fjallað um málið með heildstæðum hætti þannig að yfirvöld ættu þess kost að taka meðvitaða ákvörðun um það sem raunverulega er að gerast. Fram kom í áliti Skipulagsstofnunar um álver í Helguvík að orkan sem OR ætlar sér að afla á Hengilssvæðinu eigi að verulegu leyti að fara í fyrirhugað álver í Helguvík. Áformin kalla á orkuflutninga um fjölmörg sveitarfélög allt frá Hengli til Helguvíkur.
Á Hengilssvæðinu þarf einnig að reisa mannvirki til orkuflutninga sem myndu hafa umtalsverð rask í för með sér og spilla landslagi. Landvernd, Orkuveita Reykjavíkur og aðilar innan ferðaþjónustunnar gerðu alvarlegar athugasemdir við tillögur Landsnets og Skipulagsstofnun tók í álti sínu undir margar þeirra.
Ef ekki yrði ráðist í álver í Helguvík yrði líklega komið í veg það umhverfisrask sem óhjákvæmilega myndi fylgja bæði orkuöfluninni og orkuflutningunum. Sömuleiðis eru áform um álver í Helguvík í uppnámi ef einhver þessara verkþátta áætlunarinnar nær ekki fram að ganga. Eðlilegt hefði því verið að fjalla sameiginlega um þessi mál enda þau háð hvoru öðru eigi framkvæmdirnar yfir höfuð að geta þjónað sínum tilgangi.
Losun gróðurhúsalofttegunda
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er CO2 losun Bitruvirkjunar talin vera 31.000 tonn á ári miðað við 135 MWe uppsett afl. En talið er að losun virkjunarinnar við Hverahlíð, miðað við 90 MWe, yrði 25.000 tonn. Losun þessara virkjana er því áætluð 56.000 tonn af CO2. Sé gengið út frá því að losun annarra jarðvarmavirkjana sem til þarf sé af sömu stærðargráðu miðað við uppsett afl má ætla að bein losun jarðvarmavikjana sem reistar yrðu til þess að þjóna hugsanlegu álveri í Helguvík yrði um 125.000. Þá er ótalin losun jarðhitasvæðanna sjálfra en rannsóknir benda til þess að náttúruleg losun jarðhitasvæða kunni að aukast þegar svæðin eru virkjuð. Sú aukning yrði líklega talin í þúsundum tonna á ári.
Álverið í Helguvík myndi losa sem nemur 400.000 tonn CO2 ígilda á ári. Heildar losun þeirra verkefna sem um er að ræða er því ekki minni en 525.000 tonn CO2 ígildi á ári. Óljóst er hvernig þessi losun samræmist markmiðum stjórnvalda um að draga úr nettó losun sem nemur 50 – 75% til ársins 2050 miðað við nettólosun 1990.