Bitra er vinsælt útivistarsvæði rétt utan við Höfuðborgarsvæðið.
Bitra

Bitra er að hluta til á náttúruminjaskrá. Jarðfræðilegur fjölbreytileiki og mikil náttúrufegurð einkennir svæðið og er það hluti af merkilegri landslagsheild við Hengil og Þingvallavatn. Þar að auki er svæðið vinsælt útivistarsvæði enda er það staðsett rétt við borgarmörkin og bæjardyr Hveragerðis og er mikilvæg lýðheilsu og náttúruaðgengi íbúa á svæðinu. Orkuveita Reykjavíkur fyrirhugar að reisa 90 MW Bitruvirkjun á Hengilssvæðinu og nýta jarðhitasvæðið við Ölkelduháls. Svæðið fellur þó í verndarflokk 3.áfanga Rammaáætlunar enda er verndar- og útivistargildi þess hátt og nálægð við þéttbýli styður enn frekar við mikilvægi verndunar. Því eru rök fyrir friðun og samfelldu verndarsvæði Bitru, Reykjadals, Grændals og Ölkelduháls sterk og mikilvægt að friða þá náttúru sem hefur ekki verið raskað á Hengilssvæðinu.

Hengilssvæði og Ölkelduás

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, um 100 km² að stærð. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn, heldur samanstendur það af Hveragerðiseldstöðinni (Grændalur), Ölkelduhálsi og jarðhitasvæðinu í Henglafjöllum.

Þegar hefur talsvert verið virkjað á Hengilssvæðinu, þar á meðal eru virkjanir í Hengli og á Nesjavöllum. Í 2. áfanga rammaáætlunar falla virkjunarhugmyndirnar Grændalur og Bitruvirkjun í verndarflokk, Gráuhnúkar, Hellisheiði, Hverahlíð og Meitillinn í nýtingarflokk, og Innstidalur, Ölfusdalur og Þverárdalur í biðflokk.

Kísilhverirnir í Hveragerði og á Reykjum eru einkennandi fyrir Grændalssvæðið, ásamt hinum fjölmörgu laugum sem spretta fram úr berghlaupum í dalnum. Gufuhverir finnast víða og fylgja oft sprungum tengdum Suðurlandsskjálftum.

Við Ölkelduháls er mikill jarðhiti og fjölbreyttur. Þar eru margir stórir leirhverir, leirugir vatnshverir og víða eru gufuaugu. Nokkur ummerki eru um öflugar gufusprengingar. Útfellingar eru einkum hverasölt og brennisteinn. Við Klambragil, innst í Reykjadal eru öflugir sjóðandi vatnshverir. Frá þeim rennur heitur lækur sem blandast köldu vatni og er þar hin ágætasta aðstaða til böðunar í Reykjadalsá.

Vinsælar gönguleiðir liggja um svæðið og stór hluti þess er á náttúruminjaskrá, þ.e. vatnasvið Grændals, Reykjadals og Hengladala. Um svæðið liggja nokkrar vinsælar gönguleiðir.

Umhverfi

Bitra er breiður grágrýtisfláki sem fer smáhækkandi sunnan frá Hellisheiði til norðurs. Vestan hennar er að finna Henglafjöll og austan röð goshryggja úr móbergi og bólstrabergi sem nær frá Hrómundartindi í norðri og suður í Molddalahnúka.

Ölkelduháls er á milli Tjarnarhnúks og Ölkelduhnúks og svæðið þar í kring sker sig úr fyrir kolsýrulaugarnar sem eru í þyrpingu frá Ölkelduhálsi suður í Reykjadal og í Hverakjálka.

Svæðið er talið mikilvægt til útivistar í nágrenni þéttbýlis. Náttúruminjar eru Hengilssvæðið og friðlýstar minjar eru Þorlákshafnarsel og Hellurnar ásamt Hellukofanum.

Líklegt er talið að Reykjadalur, Grændalur, Ölkelduháls, Fremstidalur, Miðdalur og Innstidalur muni mynda samfellt verndarsvæði og njóta friðunar í framtíðinni.

Virkjanahugmyndir

Orkuveita Reykjavíkur fyrirhugar að reisa 90 MW Bitruvirkjun á Hengilssvæðinu og nýta aðallega jarðhitasvæðið við Ölkelduháls til þess.

Svæðið við Ölkelduháls er talið tengjast kvikuþró kulnandi eldstöðvakerfis og hraun hafa runnið á svæðinu nálægt lokum ísaldar, frá Bitru og Tjarnarhnúk. Berggrunnur svæðisins er þó að mestu leyti móberg. Jarðhiti er dreifður á allstóru svæði. Vestantil nær hann frá Kýrgili suður í Hverakjálka og austar nær hann frá Lakaskörðum suður í Grændal. Áhrifasvæði Bitruvirkjunar nær að auki til jarðhitans í Fremstadal og Miðdal í Hengli.

Í mati Orkustofnunar er svæðið metið með Hengilssvæðinu sem er talið 100 km². Vinnslugeta er talin 710 MW til 50 ára eða 385 MW til 100 ára og þar með annað aflmesta jarðhitasvæði landsins á eftir Torfajökulssvæði. Þegar hafa verið virkjuð um 420 MW á svæðinu.

Í matsskýrslu vegna Bitruvirkjunar segir að Hengilssvæðið sé um 112 km² og þá er jarðhitasvæðið í Hveragerði meðtalið. Miðað við mat Orkustofnunar verður að ætla að Hengilssvæðið sem heild sé nú þegar fullvirkjað. Áform Orkuveitu Reykjavíkur um raforkuver við Ölkelduháls eru í biðstöðu.

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is