Bjarnarflag er jarðhitasvæði í Mývatnssveit.
Bjarnarflag

Bjarnarflag er orkuríkt jarðhitasvæði á sprungusveim Kröflueldstöðvarinnar vestan Námafjalls í Mývatnssveit. Bjarnarflag er staðsett við norðaustanvert Mývatn en þar er lífríki einstakt á landsvísu og vistkerfi Mývatns og umhverfis eru viðkvæm fyrir framkvæmdum á svæðinu. Mývatnssveit er heimsfræg fyrir bæði jarðfræðilega og líffræðilega fjölbreytni og náttúrufegurð svæðisins í heild sinni laðar að sér ótal ferðamenn ár hvert. Í nýtingarflokki rammaáætlunar er umdeild 90 MW gufuaflsvirkjun Landsvirkjunar í Bjarnarflagi en þar hefur síðan 1969 verið lítil gufuvirkjun.

 

Námafjallssvæði

Bjarnarflag er vestan Námafjalls og sunnan Námaskarðs, en jarðhitasvæðið nær til mun stærra svæðis vestan undir Námafjalli. Þar var reist fyrsta stóra jarðgufuvirkjunin hérlendis (árið 1969, 3 MW) og þar var aflað gufu fyrir kísilgúrverksmiðjuna, sem þar var rekin um áratugaskeið. Laxárvirkjun lét byggja stöðina en Landsvirkjun eignaðist hana árið 1983.

Virkjunarhugmyndir

Áætlanir eru uppi um jarðvarmavirkjun á svæðinu og stóraukna rafmagnsframleiðslu, allt að 90 MW. Fyrirhuguð virkjun við Bjarnarflag hefur vakið miklar deilur og eru m.a. uppi áhyggjur af áhrifum virkjunarinnar vegna förgunar affallsvatns, sjónrænna áhrifa og háspennulínum frá virkjuninni. Þegar er talin mikil mannvirkjamengun í Mývatnssveit.

Landvernd og fleiri náttúruverndarsamtök hafa farið fram á að unnið verði nýtt mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar Bjarnarflagsvirkjunar og að málið verði skoðað í ljósi þess að Mývatn og Laxá eru síðan 1977 alþjóðlegt Ramsarsvæði.

Framvinda mála í Bjarnarflagi

Jarðhitasvæðið vestan við Námafjall í Mývatnssveit er orkuríkt og þar hefur í áratugi verið rekin ýmis starfsemi. Má þar nefna brennisteinsverksmiðju, kísilgúrverksmiðju, framleiðslu hleðslusteina og vinsælan baðstað. Brennisteinsvinnslan stóð stutt og endaði illa. Kísilgúrvinnslan stóð hátt í fjóra áratugi og olli dælingin af botni Mývants varanlegum skaða á lífríki vatnsins.

Laxárvirkjun reisti árið 1969 gufuvirkjun í Bjarnarflagi. Þetta var fyrsta jarðgufuvirkjun hér á landi. Hverfillinn var smíðaður 1934 í Bretlandi og upphaflega notaður í sykurverksmiðju. Landsvirkjun eignaðist gufuvirkjunina 1983. Hún framleiddi upphaflega 3 MW en getan hafði dvínað mikið árið 2018 þegar ákveðið var að endurnýja hana. Gufuafl er óbreytt en eftir endurnýjun búnaðar er framleiðslugetan 5 MW. Skiljustöðin sér hitaveitu Skútustaðahrepps og Jarðböðunum fyrir heitu vatni. Landsvirkjun hefur átt nær fimmtung í Jarðböðunum.

Í ársbyrjun 2000 kynnti Landsvirkjun áform um 40 MW gufuvirkjun í Bjarnarflagi. Margvíslegar athugasemdir voru gerðar við frummatsskýrsluna. Skipulagsstjóri úrskurðaði að ráðast skyldi í frekara mat. Ekki hefði verið sýnt fram á að brýn þörf eða efnahagslegur ávinningur væri slíkur af Bjarnarflagsvirkjun að það yfirynni náttúruverndar- og varúðarsjónarmið sem hafa yrði sérstaklega í huga á svæðinu.

Í árslok 2003 tilkynnti Landsvirkjun ný áform um virkjun í Bjarnarflagi. Áformuð vinnslugeta var 90 MW í stað 40 áður. Landsvirkjun gerði ráð fyrir að byggja virkjunina í tveimur til þremur áföngum, sem einkum réðust af þörfum markaðarins. Skipulagsstofnun féllst á áformin með skilyrðum um vöktun, m.a. að fylgst yrði með því hvort jarðhitavinnslan hefði áhrif á efnainnihald og streymi volgs grunnvatns til Mývatns. 

Árið 2005 eignaðist Landsvirkjun þriðjungshlut í Þeistareykjum ehf. Árin áður og næstu ár á eftir var í gangi mikil leit að erlendum samstarfsaðilum til að koma á fót stóriðju á Bakka við Húsavík. Á ýmsu gekk í þeim þreifingum og það var ekki fyrr en 2013 þegar hyllti undir kísilver PCC á Bakka að Landvirkjun hugsaði sér til hreyfings með framkvæmdir í Bjarnarflagi. Jafnframt hafði orkuvinnsla á Þeistareykjum verið undirbúin með rannsóknum. Það var að verða áratugur liðinn frá því að Skipulagsstofnun féllst á áform um 90 MW virkjun í Bjarnarflagi. Reynsla var komin á stórar gufuvirkjanir í landinu og viðhorf í samfélaginu var breytt. Áform um tilhögun framkvæmda og rekstur virkjunarinnar sem Landsvirkjun kynnti íbúum í Mývatnssveit 2013 féllu í grýtta jörð. Fólk hafði áhyggjur af miklu brennisteinsvetni í andrúmslofti í nágrenni virkjunarinnar, helsta þéttbýli sveitarinnar og dvalarstað fjölmargra ferðamanna. Einnig voru vaxandi áhyggjur af lífríki Mývatns og fleiru. Landvernd, Fjöregg og fleiri hvöttu Landsvirkjun til að hætta við Bjarnarflagsvirkjun. Niðurstaðan varð að Landsvirkjun ákvað að hefja framkvæmdir á Þeistareykjum en láta Bjarnarflagsvirkjun bíða.

Lögum samkvæmt getur Skipulagsstofnun þegar 10 ár eru liðin frá mati á umhverfisáhrifum ákveðið að endurskoða þurfi matsskýrslu ef forsendur hafa breyst verulega. Skútustaðahreppur hafði ekki gefið framkvæmdaleyfi fyrir Bjarnarflagsvirkjun og óskaði í febrúar 2014 eftir endurskoðun. Það var niðurstaða Skipulagsstofnunar að forsendur sem byggt var á við mat á umhverfisáhrifum hefðu breyst verulega, ferðamannastraumur hefði stóraukist, nýjar reglur um loftgæði tekið gildi o.fl. Stofnunin úrskurðaði að endurskoða þyrfti matsskýrslu varðandi áhrif virkjunar á hljóðvist, loftgæði, gróður, landslag, ásýnd og ferðamennsku auk grunn- og yfirborðsvatns, niðurrennslis, skjálftavirkni, jarðhitakerfis og orkuforða. Landsvirkjun kærði ákvörðun Skipulagsstofnunar umsvifalaust til Úrkurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi í heild sinni en til vara að hluta. Málsmeðferð Úrskurðarnefndar tók hátt í þrjú ár. Í úrskurði sínum í október 2017 hafnaði nefndin kröfu Skipulagsstofnunar um að endurmeta skyldi áhrif á jarðhitakerfi og orkuforða, hljóðvist, ásýnd, landslag og jarðmyndanir. Hins vegar hafnaði hún kröfu Landsvirkjunar um að ákvörðun Skipulagsstofnunar varðandi loftgæði, grunn- og yfirborðsvatn, niðurrennsli og skjálftavirkni, gróður og ferðamennsku yrði felld úr gildi.

Ekki er kunnugt um að Landsvirkjun hafi gert reka að því að endurskoða umhverfismat virkjunarinnar varðandi þá þætti sem niðurstaða Úrskurðarnefndar kvað á um. Því er 90 MW jarðgufuvirkjun við hliðina á fjölsóttasta ferðamannastað í Mývatnssveit enn í nýtingarflokki rammaáætlunar og óljóst hvað framkvæmdaraðilinn hyggst fyrir með þessi gömlu og að margra mati úreltu áform.

 

Heimildir:

Lokaskýrsla verkefnisstjórnar 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar 2013-2017 http://www.ramma.is/media/verkefnisstjorn-gogn/RA3-Lokaskyrsla-160826.pdf 

Skipulagsstofnun. (2003). https://www.skipulag.is/media/attachments/Umhverfismat/746/2003110010.PDF 

Skipulagsstofnun. (2014) https://www.skipulag.is/media/umhverfismat/endurskodun_bjarnarflagsv.pdf 

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. (2017). https://uua.is/urleitatrid/ogilding-ad-hluta/page/2/ 

Viðskiptablaðið. (2020). https://www.vb.is/frettir/332-milljona-hagnadur-jardbadanna/164281/

Landsvirkjun. (2019). Fréttabréf Mývatnssvæðis

Dagur. (1954). https://timarit.is/page/2650232#page/n7/mode/2up 

Ríkisútvarpið. (2013) https://www.ruv.is/frett/agreiningur-um-orkuvinnslu-i-bjarnarflagi 

Morgunblaðið. (2013) https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1465700/ 

Ríkisútvarpið. (2013)  https://www.ruv.is/frett/bjarnarflagsvirkjun-kynnt-fyrir-ibuum

Fréttablaðið. (2017). https://www.pressreader.com/iceland/frettabladid/20170610/281964607696455

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is