Bláfáninn

Verndum hafið og hafsvæði
tökum afstöðu

Bláfáninn

Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisvottun sem veitt er smábátahöfnum, baðströndum og þjónustuaðilum í sjávarferðamennsku fyrir árangursríkt starf að umhverfismálum. Meginmarkmið verkefnisins er að vernda lífríki haf- og strandsvæða, draga úr umhverfisáhrifum, bæta öryggi og efla umhverfisvitund. Bláfáninn er tákn um góða frammistöðu í umhverfismálum og bætir ímynd og ásýnd rekstraraðila þar sem hann blaktir við hún.

Ísland er umkringt hafi og er byggir íslenskt samfélag að miklu leiti hag sinn á auðlindum hafsins og ferðaþjónustu. Með góðri umhverfisstjórnun og eflingu umhverfisvitundar þegar kemur að málefnum hafs og stranda er hægt að tryggja heilbrigði umhverfisins til framtíðar og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Bætt hreinlæti, hreinlætisaðstaða og annar aðbúnaður skilar sér í minni mengun og meiri vatnsgæðum. Betri aðbúnaður og aukið öryggi á svæðunum að ógleymdri fræðslu um náttúru og viðkvæm svæði er líklegt til að fjölga gestum og auka jákvæða upplifun þeirra af svæðunum.

Bakgrunnur Bláfánans

Bláfánaverkefnið varð til árið 1987 og er rekið á heimsvísu af regnlífasamtökunum Foundation for Environmental Education (FEE), eða Alþjóðlegu Umhverfismenntasamtökunum. Landvernd innleiddi Bláfánann hér á landi árið 2002 og fengu fyrstu staðirnir vottunina árið eftir. Í dag er Bláfáninn útbreiddasta umhverfisvottun sinnar tegundar í heiminum, en árið 2017 flögguðu yfir 4.423 staðir fánanum í 45 löndum um allan heim. Til marks um gæði verkefnisins hafa alþjóðlegar stofnanir, t.d. Alþjóðlega ferðamálastofnunin (UNWTO) og Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) unnið með FEE að framgangi verkefnisins um árabil.

Markmið

Meginmarkmið verkefnisins er að vernda lífríki og umhverfi haf- og strandsvæða og stuðla að aukinni umhverfisvitund. Þessu er náð fram með góðri umhverfisstjórnun, umhverfisfræðsluverkefnum, auknum aðbúnaði og öryggisráðstöfunum. Leitast er við að ná þessu fram með því að m.a.:

 • veita upplýsingar um náttúru og viðkvæm svæði staðanna
 • auka öryggi við sjóinn
 • endurvinna og flokka úrgang og spilliefni
 • koma á markvissri umhverfisstjórnun með umhverfisstefnu og aðgerðaáætlun
 • bjóða upp á aðstöðu til hreinlætis
 • setja upp upplýsingaskilti þar sem svæðið er kortlagt til að vekja athygli á aðbúnaði
 • standa fyrir fræðslu um umhverfið og auka þannig upplifunargildi staðarins

Til að hljóta Bláfánann þurfa umsækjendur að uppfylla alþjóðleg viðmið sem taka til ofangreindra þátta.

 

Stýrihópur Bláfánans

Stýrihópur Bláfánans er skipaður fulltrúum nokkurra félagasamtaka og stofnana sem koma að málefnum haf- og strandsvæða. Hlutverk stýrihópsins er að veita faglega leiðsögn í verkefninu og kemur hann saman til funda tvisvar á ári. Jafnframt sinnir hluti stýrihópsins störfum innlendrar dómnefndar. Dómnefndin hefur með höndum að vinna úr umsóknum og sinna eftirliti með þeim aðilum sem flagga Bláfánanum.

Stýrihópinn skipa:

 • Hjörtur Sigurðsson, Hafnarsambandið/Faxaflóahafnir
 • Hólmfríður Arnardóttir, Fuglavernd
 • Petrea Ingibjörg Jónsdóttir, Slysavarnadeildin Varðan
 • Rannveig Grétarsdóttir, Samtök ferðaþjónustunnar
 • Rannveig Thoroddsen, Náttúrufræðistofnun Íslands
 • Sesselja Bjarnadóttir, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
 • Sigríður Kristinsdóttir, Umhverfisstofnun
 • Sigursteinn Másson, Hvalaskoðunarsamtök Íslands
 • Tore Skjenstad, Félag umhverfis- og heilbrigðisfulltrúa
 • Úlfur Hróbjartsson, Siglingasamband Íslands

Að auki situr í stýrihópi einn fulltrúi stjórnar Landverndar:

 • Pétur Halldórsson, fulltrúi stjórnar Landverndar

Yfir Bláfánanum er að auki alþjóðleg dómnefnd sem skipuð er sérfræðingum, m.a. á sviði umhverfis‐, öryggis‐ og heilbrigðismála, og er verkefni dómnefndarinnar að samþykkja endanlega þá staði sem hljóta vottunina ár hvert.

Handhafar Bláfánans

Handhafar Bláfánans árið 2017 eru fjórtán talsins og er það met hjá Bláfánanum á Íslandi. Þrettán umsækjendur sóttu um endurnýjun á Bláfánanum og einn umsækjandi sótti um í fyrsta stinn. Umsóknarferli fyrir árið 2018 er nú lokið og verða niðurstöður birtar í lok apríl.

Handhafar Bláfánans árið 2017 eru:

Baðstrendur

 • Bláa lónið
 • Langisandur á Akranesi
 • Ylströndin í Nauthólsvík

Smábátahafnir

 • Smábátahöfnin á Bíldudal
 • Smábátahöfnin á Patreksfirði
 • Smábátahöfnin á Suðureyri
 • Smábátahöfnin í Stykkishólmi
 • Smábátahöfnin við Hafnarhólma á Borgarfirði eystri
 • Fossvogshöfn í Kópavogi

Þjónustuaðilar í sjávarferðamennsku

 • Ambassador á Akureyri
 • Elding í Reykjavík
 • Norðursigling á Húsavík
 • Special Tours í Reykjavík
 • Whale Safari í Reykjavík
 

Handhafar Bláfánans 2017

Hvernig sæki ég um?

Sótt er um Bláfánann í janúar ár hvert og í kjölfarið fer innlend dómnefnd yfir umsóknirnar. Verkefnisstjóri Bláfánans á Íslandi setur því næst niðurstöður dómnefndar inn í sameiginlegan, alþjóðlegan gagnagrunn þar sem erlend dómnefnd fer yfir gögnin. Í lok apríl gefur Blue Flag International út heildarlista yfir þá staði sem flagga Bláfánanum það árið. Bláfánanum er flaggað yfir sumarmánuðina, yfirleitt frá maí til september, nema á þeim stöðum þar sem flaggað er allt árið um kring. Yfir sumartímann eru Bláfánastaðir landsins heimsóttir og teknir út af aðilum úr dómnefnd Bláfánans á Íslandi, auk verkefnisstjóra. Erlent eftirlit fer fram á þriggja til fimm ára fresti og kom eftirlitsfulltrúi frá Blue Flag International síðast haustið 2017.

Sækja um

Þátttökugjöld

Umsóknargjald Umsóknargjald er greitt þegar sótt er um þátttöku í Bláfánanum í janúar ár hvert. Fyrirtæki/sveitarfélag sem greitt hefur umsóknargjald birtist á heimasíðu Bláfánans yfir umsækjanda í umsóknarferli. Umsóknargjaldið er 50 þúsund krónur árlega.

 

Árgjald Árgjaldið veitir leyfi til notkunar á merki Bláfánans. Árgjaldið byggir á stærð og umfangi sveitarfélagsins/fyrirtækisins, s.s. veltu, leguplássi eða fjölda íbúa sveitarfélagsins. Gjald Bláfánans tekur mið af kostnaði við almennan rekstur verkefnisins, þróun viðmiða, kostnað við eftirlit, kynningamál, fræðslu og almenna aðstoð. Að auki er einn fáni eða skjöldur innifalinn.

 

Smábátahafnir

Legupláss Umsóknargjald Árgjald Samtals
0-50 50.000 kr 30.000 kr 80.000 kr
51-100 50.000 kr 40.000 kr 90.000 kr
101-150 50.000 kr 50.000 kr 100.000 kr
151 eða fleiri 50.000 kr 60.000 kr 120.000 kr
 

Baðstrendur

Fjöldi íbúa Umsóknargjald Árgjald Samtals
0-5000 50.000 kr 40.000 kr 90.000 kr
5000-10.000 50.000 kr 50.000 kr 100.000 kr
10.000-50.000 50.000 kr 60.000 kr 120.000 kr
50.000-100.000 50.000 kr 70.000 kr 120.000 kr
100.000 eða fleiri 50.000 kr 80.000 kr 130.000 kr
 

Fyrirtæki

Velta Umsóknargjald Árgjald Samtals
0-20 milljónir 50.000 kr 50.000 kr 100.000 kr
20-50 milljónir 50.000 kr 70.000 kr 120.000 kr
50-100 milljónir 50.000 kr 90.000 kr 140.000 kr
100-150 milljónir 50.000 kr 100.000 kr 150.000 kr
150-200 milljónir 50.000 kr 125.000 kr 175.000 kr
200-400 milljónir 50.000 kr 140.000 kr 190.000 kr
400-600 milljónir 50.000 kr 165.000 kr 215.000 kr
600-1000 milljónir 50.000 kr 195.000 kr 245.000 kr
1000 milljónir eða hærri 50.000 kr 245.000 kr 295.000 kr

Verkfærakista

Í vinnslu

.

Bláfáninn er verkfæri sem bætir umhverfisstjórnun, slysavarnir, gæði vatns og styður við öfluga fræðslu og upplýsingagjöf.

 

Bláfáninn er tákn um góða frammistöðu í umhverfismálum og styrkir ímynd handhafa 

Handhafar Bláfánans víða um heim

Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisvottun sem veitt er smábátahöfnum, baðströndum og þjónustuaðilum í sjávarferðamennsku fyrir árangursríkt starf að umhverfismálum.