Út er komin bókin Að lesa og lækna landið. Bókin fjallar um ástand lands og endurheimt landgæða. Höfundar eru Ása L. Aradóttir og Ólafur Arnalds, prófessorar við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Að lesa og lækna landið er tímamótarit um umhverfismál sem hentar vel almenningi og kennurum á öllum skólastigum. Þetta rit er fyrir þá sem vilja læra að skynja ástand lands og lækna sárin. Í bókinni er fléttað saman öflugri faglegri þekkingu á ástandi gróðurs og jarðvegs og aðferðum við endurheimt landkosta.
Bókin er einstakt verkfæri til að efla landlæsi og almenna þekkingu á vernd og endurheimt vistkerfa og hentar ekki síst fyrir kennara. Til að stuðla að því að efni bókarinnar skili sér sem best verður henni dreift í alla grunn- og framhaldsskóla landsins. Þá verða eintök send til bænda, þingmanna, á skrifstofur sveitarfélaga og helstu stofnana hins opinbera. Hún verður aðgengileg á veraldarvefnum en þeir sem vilja eignast eintak í pappírsformi geta keypt bókina hjá Landvernd. Hægt er að hlaða bókinni rafrænt niður hér.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra tók á móti fyrsta eintakinu sem fór í almenna umferð í útgáfuhófi sem haldið var í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ fimmtudaginn 15. apríl.
Útgefendur bókarinnar eru Landvernd, Landgræðsla ríkisins og Landbúnaðarháskóli Íslands. Þróunarsjóður námsgagna og sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi studdu dyggilega við gerð og útgáfu bókarinnar með styrkjum. Drífa Árnadóttir sá um uppsetningu og umbrot.