Borgar náttúran?

Hvernig væri að breyta að­eins til fyr­ir þessi jól, vera nægju­söm og skipu­leggja sam­veru­stund­ir í nátt­úr­unni í jólapakk­ann eða í skó­inn?
Þegar horft er til baka þá man fólk oft betur eftir skemmtilegum samverustundum með fjölskyldunni en því sem leyndist undir jólatrénu.

Nú líður að desember með öllu tilheyrandi. Jólin nálgast og tilboðum rignir inn. Það verður að kaupa jólagjafirnar ekki seinna en núna því annars missir fólk af. En hvernig væri að breyta aðeins til í ár, vera nægjusöm og skipuleggja samverustundir í náttúrunni í jólapakkann eða í skóinn? Þetta getur verið gönguferð eða gönguskíðaferð með nesti og heitu súkkulaði eða einfaldlega kósí stund í garðinum eða grænu svæði í nágrenninu. Það er hægt að vera með ratleiki eða þrautir í þessum ferðum til að gera þær enn meira spennandi. Það að gefa börnum og unglingum náttúrutengingu er dýrmæt gjöf til framtíðar. Þegar horft er til baka þá man fólk oft betur eftir skemmtilegum samverustundum með fjölskyldunni en því sem leyndist undir jólatrénu.

Náttúruupplifun kostar ekki neitt en það er mikið á henni að græða. Náttúran og útivist geta slegið á kvíða og streitu. Það að vera í 20-30 mínútur í villtri náttúru eða grænu svæði minnkar framleiðslu á streituhormóninu kortisól og róar taugakerfið okkar. Að auki myndast gleðihormón við hreyfingu, birtu og hlátur. 

Gerðu smá tilraun

Finndu næsta náttúrusvæði í nágrenni þínu. Þetta getur verið villt náttúra en getur líka verið sveita-, bæjar- eða borgarnáttúra. Þetta getur verið grænt svæði eða fjara, strönd eða stöðuvatn. Garðar og svalir geta meira að segja gefið aðgang að borgarnáttúru. Þegar þú ert komin á náttúrusvæðið skaltu opna öll skilningsvitin. Sérðu mosa, fléttur, fugla, skordýr eða jafnvel spendýr? Heyrir þú einhver hljóð eins og fuglasöng, rigningu eða marr í snjó? Geturðu snert eitthvað mjúkt eða hart? Finnurðu einhverja lykt? Er heitt eða kalt úti? Slakaðu á og finndu batteríin hlaðast og streituna leka út úr líkamanum. Farðu með þessa tilfinningu aftur inn í hversdaginn. 

Það jafnast ekkert á við það að vera í náttúrunni en rannsóknir sýna að við þurfum ekki eingöngu að vera í úti í náttúrunni til að fá jákvæð áhrif af henni. Það að hlusta á náttúruhljóð og horfa á náttúrulífsmyndir hefur einnig góð áhrif á taugakerfið okkar. Þetta kannast greinarhöfundar vel við. Þegar Rannveig var yfir sig stressuð að skrifa doktorsritgerð í Bretlandi þá varð það henni til bjargar að hlusta á upptökur af fuglum í Friðlandinu í Flóa. Taugarnar róuðust við fuglakvakið og ritgerðin kláraðist. Mariana sýndi þreyttum nemendum sínum myndbrot úr heimildamynd Davids Attenborough um paradísarfuglana og öll andlitin voru brosandi eftir sýninguna. 

Becca, Mariana og Mervi hafa undanfarin ár skipulagt viðburði um ágengar plöntur, borgarfugla og borgarnáttúru undir merkjum borgarnáttúru @Borgarnáttúra – Urban Biodiversity Iceland. Þeim finnst alltaf jafn magnað að upplifa gleðina hjá því fólki sem tekur þátt og áhugann á því að fræðast um náttúruna. 

Næsti viðburður verður málþing um lífbreytileika í borgarumhverfinu í Grasagarði Reykjavíkur kl 10-13 þann 25. nóvember. Þar verður hægt að fræðast um ýmsar hliðar náttúrunnar í þéttbýli, m.a. fugla, mat, moltu og list og jafnvel fá hugmyndir fyrir jólapakkann. Þessi viðburður er hluti af hvatningarátaki Landverndar í Nægjusömum nóvember.

Höfundar eru: Rannveig Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá Landvernd, Mariana Tamayo, dósent við Háskóla Íslands, Mervi Orvokki Luoma og Rebecca Thompson, náttúrusérfræðingar við Háskóla Íslands.

Greinin birtist fyrst á heimildin.is 22.nóvember 2023.  

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Orkuskiptahermir

Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar. Orkuskiptin geta farið fram án þess að eyðileggja einstaka íslenska náttúru.
Opna...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd